3 dagar: pælingar um stöðuna í Norðaustri

Það eru þrír sólarhringar í fyrstu tölur í þingkosningunum 2007. Aðeins tveir dagar átaka eftir í þessari kosningabaráttu. Hasarinn er að ná hámarki og pólitísku átökin að verða ansi beitt og mikil auglýsingabarátta skollin á í fjölmiðlum. Hér í Norðausturkjördæmi er mikil maskína og mikil er baráttan. Hér á Akureyri kemur vikulega út Dagskrá, sem um leið er mesti auglýsingamiðill Norðurlands. Þar var allt fleytifullt af glansandi litauglýsingum og mikið af fögrum loforðum og skjannahvítum colgate-brosum. Allt eins og það á að vera á lokaspretti spennandi kosningabaráttu.

Það sem mér sem Akureyringi finnst mest gaman af að fylgjast með er framganga Akureyringanna í baráttusætum. Ég sagði það nú við einn speking að helst vildi ég fá þau öll inn á þing; Valda, Höskuld og Láru. Ég tel þau öll hið mætasta fólk. Sérstaklega finnst mér þó mikilvægt að reyna að tryggja kjör Valda. Ég hef unnið með honum í flokksstarfinu hér á Akureyri árum saman. Þar hef ég kynnst heilsteyptum, traustum og vönduðum manni sem ætíð er hægt að stóla á. Það væri glæsilegt næði hann kjöri og við sjálfstæðismenn næðum tveim Akureyringum á þing.

Það er mikilvægt að Akureyringar komist á þing. Okkar hlutur hefur verið dapur á þessu kjörtímabili. Síðan að Tómas Ingi Olrich sagði af sér þingmennsku og hætti sem ráðherra hefur mér þótt hlutur Akureyrar fyrir borð borinn og okkar staða afleit. Í ljósi alls þessa var glæsilegt fyrir okkur sjálfstæðismenn á Akureyri að Kristján Þór Júlíusson var kjörinn kjördæmaleiðtogi okkar. Það var mikilvægt að fá öflugan fulltrúa Akureyrar í frontinn. Okkur er líka mikilvægt að hafa konur að austan, sterka fulltrúa svæðanna þar. Við erum með tvær konur öruggar inn. Það er sterkt!

Það verður horft hér á Akureyri hversu margir Akureyringar nái inn á þing. Þess þá sterkari verður okkar hlutur. Þegar að ég lít yfir frambjóðendaskarann sé ég mér ekki fært að tala gegn Akureyringunum. Höskuldur er mjög traustur og góður maður, hefur góðar tengingar og styrkleika, er hógvær og heilsteyptur, Lára er góð vinkona mín, heilsteypt og góð, manneskja sem talar hreint út um mál. Hún stóð nærri þingsæti síðast en sá það fara til Birkis Jóns á blálokum talningar. Það hlýtur að hafa verið sárt. Það er gaman að mælast inni en enn verra að missa þingsætið.

Valdi er yfirburðarmaður. Ég vil tryggja mitt lóð á vogarskálar þess að hann fari inn. Fyrir því tala ég vegna vináttu okkar, vegna þess að ég veit að hann er öflugur verkamaður heilsteyptra verka og öflugur talsmaður góðs málstaðar. Þegar að Valdi tók sjötta sætið á listanum fyrir fjórum árum fannst mér hann standa sig vel, miðað við að vera algjörlega nýr í pólitík. Hann hefur verið mun meira áberandi í slagnum nú.

Á laugardag ráðast örlög þessara frambjóðenda. Það hefur verið stór blettur að mínu mati hversu rýr hlutur Akureyrar hefur verið á Alþingi í fjögur ár. Vonandi mun það breytast með áberandi hætti á laugardaginn með atkvæði fólks. Það verður áhugavert að sjá hvernig fer. Ég er þess fullviss að fleiri Akureyringar fari inn á þing en Kristján Þór Júlíusson, fyrrum bæjarstjóri. Vel verður fylgst með því hverjir það verði.

Tony Blair segir af sér á morgun

Tony Blair Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, mun segja af sér sem leiðtogi Verkamannaflokksins á morgun og tilkynna um dagsetningu starfsloka sinna sem forsætisráðherra. Búist er við því að hann tilkynni pólitísk endalok sín formlega á blaðamannafundi í Sedgefield eftir hádegið á morgun. Tony Blair hefur verið þingmaður Sedgefield í 24 ár. Talið er að hann muni segja af sér sem þingmaður sama dag og hann lætur af embætti forsætisráðherra, sem mun leiða til aukakosninga í Sedgefield fyrir sumarlok.

Leiðtogaslagur hefst í Verkamannaflokknum með formlegri afsögn forsætisráðherrans af leiðtogastóli. Leiðtogaslagurinn mun skv. flokksreglum taka sjö vikur. Öruggt er orðið að Gordon Brown, fjármálaráðherra, verður næsti leiðtogi Verkamannaflokksins og tekur við forsætisráðherraembættinu í síðasta lagi í júlí. Ljóst er að enginn sitjandi ráðherra úr hinum svokallaða Blair-armi muni skora Brown á hólm. Tveir þingmenn flokksins úr vinstriarminum hafa talað um leiðtogaframboð og reynir á það innan nokkurra daga hvort þeir fari fram.

Tony Blair hefur verið leiðtogi breska Verkamannaflokksins síðan í júlí 1994. Hann var kjörinn flokksleiðtogi í stað John Smith, sem varð bráðkvaddur 12. maí 1994, en Smith hafði tekið við leiðtogahlutverkinu af Neil Kinnock eftir hið óvænta og skaðlega tap flokksins í þingkosningunum 1992. Blair byggði New Labour til valda í breskum stjórnmálum, konseptið var jafnaðarmannaflokkur á miðjunni. Flokkurinn vann afgerandi og um leið sögulegan sigur í þingkosningum 1. maí 1997 og batt enda á átján ára stjórnartíð Íhaldsflokksins. Blair fagnaði áratug við völd fyrir aðeins rúmri viku, 2. maí sl.

Það verða þáttaskil með brotthvarfi Tony Blair úr breskum stjórnmálum. Hann hefur haft gríðarleg áhrif á litríkum stjórnmálaferli. Hann leiddi Verkamannaflokkinn til þriggja kosningasigra, allra mjög eftirminnilegra í breskum stjórnmálum - hann var dómínerandi leiðtogi jafnaðarmanna og framan af leiðarljós þeirra í allri Evrópu í raun. Sú stjarna hefur hnigið þó mjög eftir upphaf Íraksstríðsins. Blair hefur verið kraftaverkamaður í pólitík. Oft hefur hann staðið tæpt og alltaf komið standandi niður frá vondri stöðu.

En nú er komið að leiðarlokum. Nú fer sviðsljósið frá leiðtoganum sigursæla og dómínerandi stöðu hans yfir á leiðtogakjör í Verkamannaflokknum. Brátt verða svo húsbóndaskipti í Downingstræti 10. Baktjaldamaðurinn mikli, Gordon Brown, verður brátt einn valdamesti maður heims, lykilmaður á vettvangi stjórnmálanna. Enginn vafi er á því að hann tekur við af Blair, hann mun reyna að tryggja Verkamannaflokknum fjórða sigurinn, möguleikann á áframhaldandi völdum. Það eru spennandi tímar framundan í breskum stjórnmálum.

Silvía Nótt geispar golunni

Silvía Nótt Eins og fram kom hér fyrr í vikunni hefur Silvía Nótt sungið sitt síðasta ef marka má ummæli Ágústu Evu Erlendsdóttur, skapara hennar og ásýndar, í viðtali við blaðið Ísafold. Það var áhugavert að lesa það viðtal.

Í skrifunum hér gleymdi ég reyndar að benda á að viðtalið var ekki bara við hana, heldur ennfremur við Gauk Úlfarsson, bloggvin minn, sem hefur verið nátengdur karakternum frá byrjun. Gaukur á svo sannarlega varla síðri þátt í uppbyggingu Silvíu en Ágústa Eva.

Það er auðvitað svo að þessi karakter hefur verið kostulegur, hún hefur stuðað og hún hefur heillað. Fannst þetta þó fara frekar langt þegar að Silvía Nótt var farin að heimsækja Moggabloggarana, slapp ég reyndar við slíka heimsókn merkilegt nokk, en sumir hér voru argir yfir athyglinni sem glamúrgellan sýndi bloggsamfélaginu.

Mér finnst Ágústa Eva og Gaukur hafa unnið merkilegt afrek með þessum karakter. Þrátt fyrir hæðir og lægðir stendur eftir að þetta var stuðandi karakter, hún vakti athygli og hún gleymist ekki. En það var eflaust komið nóg af þessum leik. Þetta gekk reyndar alveg ótrúlega lengi. Eurovision-sigurgangan var hápunkturinn og botninn eins og ég hef svo oft sagt. En kannski hefði þetta ævintýri aðeins verið svipur hjá sjón án þess.

En ég má til með að minnast á verk Gauks í karakternum, enda átti hann stóran hluta þess hvernig gekk hjá Silvíu. Ef marka má komment þeirra sem kommentuðu um skrifin hér sakna menn varla Silvíu Nætur. Hún var búin með sitt kapítal greinilega og flestum fannst ævintýrið orðið nóg af hinu góða... eða vonda. Eftir stendur leikkona með tækifæri og sambönd, sem hún hafði ekki áður.

Áhugaverð gagnvirk stjórnmálakönnun á netinu

Ég rakst á áhugaverða gagnvirka stjórnmálakönnun á Netinu. Þar geta kjósendur kannað afstöðu sína til mikilvægra mála og athugað hvar þeir standa gagnvart stjórnmálaflokkunum sex sem eru í kjöri á laugardag. Að síðunni standa nemendur á félagsvísinda- og hagfræðideild Háskólans á Bifröst. Mjög glæsilegt framtak hjá þeim og áhugavert. Ég sendi Páli Inga Kvaran, sem skráður er fyrir síðunni, og er nemandi á Bifröst póst í gær og hrósaði þeim fyrir þetta góða verk. Virkilega vel gert.

Ég ákvað að svara spurningunum og fékk þetta út úr því:

Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 87.5%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 40%
Stuðningur við Samfylkinguna: 37.5%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 12.5%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 43%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 50%

Skoðanir þínar eru í mestu samræmi við skoðanir Sjálfstæðisflokksins!

Það hefur aldrei leikið mikill vafi á því hvað ég muni kjósa á laugardaginn og ekki varð þessi könnun til að sýna mér fram á annað en að ég væri búinn að ákveða rétt.

Reykjavík norður

Kosningar 2007 Það eru aðeins þrír dagar til alþingiskosninga. Í kosningaumfjöllun dagsins á sus.is er haldið áfram að fjalla um kjördæmin. Í dag er fjallað um Reykjavíkurkjördæmi norður. Farið er yfir stöðu mála í kjördæminu; úrslit síðustu kosninga, sviptingar í stjórnmálum á kjörtímabilinu og í aðdraganda þessara þingkosninga. Ennfremur er fjallað um frambjóðendur, um mörk kjördæmisins og komið með fróðleiksmola.

Reykjavíkurkjördæmi norður er eitt fjölmennasta kjördæmi landsins. Það nær yfir norðanverða Hringbraut, gömlu Hringbraut, Miklubraut, Vesturlandsveg og Kjalarnes. Reykjavík norður er helmingur höfuðborgarinnar og er því að upplagi mynduð í kjördæmabreytingunni árið 2000 úr Reykjavíkurkjördæmi. Eina breytingin var þó sú auðvitað að borginni var skipt upp í tvö kjördæm til að jafna vægi atkvæða umtalsvert.

Á kjörtímabilinu hafa þingmenn kjördæmisins verið 11 talsins; níu kjördæmasæti og tvö jöfnunarsæti. Á því verður engin breyting í kosningunum þann 12. maí.

Umfjöllun um Reykjavíkurkjördæmi norður

Ég vil þakka lesendum þessara pistla kærlega fyrir góð orð um þá til mín í póstum. Met það mikils. Þess má geta að þessir pistlar voru allir samdir fyrir um tíu dögum en hafa verið í vinnslu svosem til enda og birtingardags. Það er ánægjulegt ef einhverjir hafa gagn og gaman af þessari samantekt.

Framsókn í sókn - mikil spenna á lokasprettinum

Könnun (9. maí 2007) Mikil fleygiferð er á fylgi stjórnmálaflokkanna skv. nýjustu raðkönnun Gallups þrem dögum fyrir alþingiskosningar. Framsóknarflokkurinn er að því er virðist í ótrúlegri sókn á lokaspretti kosningabaráttunnar og ef marka má stökkið milli daga að stefna í að endurtaka lokasprettinn mikla í kosningabaráttunni 2003, þar sem tapaðri skák var snúið við. Af sveiflum allra raðkannana til þessa er ljóst að úrslit kosninganna eru hvergi nærri ráðin.

Fylgi VG, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks dalar umtalsvert milli daga í raðkönnun Gallups. Kannanir verða birtar alla virka daga fram til alþingiskosninganna á laugardag og ramma inn vikuna á föstudag í síðustu skoðanakönnun Gallups fyrir kosningar. Fylgi VG heldur sífellt áfram að minnka og mælist nú aðeins 14,5%, tveim prósentustigum meira en í gær og eru aðeins níu menn inni í nafni flokksins, aðeins fjórum fleiri en komust á þing í kosningunum 2003. Þetta er mikið fall fyrir VG frá fyrri könnunum en hæst fóru þeir í tæp 28% í mars.

Samfylkingin er aftur að tapa fylgi eftir stökk síðustu dagana - mælist með 25% og 17 alþingismenn, þó aðeins þrem færri en í kosningunum 2003. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 35,9% og 24 alþingismenn - tveim fleirum en í kosningunum 2003 og rúmum tveim prósentustigum yfir kjörfylginu þá. Þetta er nokkuð fall milli daga hinsvegar hjá Sjálfstæðisflokknum í raðkönnun Gallups. Hann hefur misst sjö prósentustig á þessum tveim dögum og virðist vera að missa fylgi til Framsóknarflokksins. Þessi sveifla er með kostulegasta sem maður sér og ef þetta gengur eftir mun þessi uppsveifla Framsóknar jafnvel verða enn eftirminnilegri en 2003.

Framsóknarflokkurinn mælist með heil 14,6% - það er aðeins þrem prósentustigum undir kjörfylginu, þingmennirnir mælast núna níu, aðeins þrem færri en í kosningunum 2003. Þetta er besta könnun Framsóknarflokksins á formannsferli Jóns Sigurðssonar, sem hefur ekki alltaf átt sjö dagana sæla sem formaður frá því að Halldór Ásgrímsson yfirgaf forystu flokksins. Þetta er besta könnun Framsóiknarflokksins á þessu kjörtímabili. Man ekki betri könnun fyrir þá árum saman. Vonir þeirra vaxa. Frjálslyndi flokkurinn er að mælast með 6,6% og fjóra þingmenn, standa nærri kjörfylgi og eru með sama fjölda og eftir kosningarnar 2003.

Staðan er mjög spennandi. Óvissan um hvað gerist á laugardaginn eykst enn eftir því sem sveiflurnar verða meiri. Fylgið er svo sannarlega á fleygiferð. Ríkisstjórnin heldur naumlega velli í þessari könnun, hefur 33 þingsæti. Framsókn hefur níu þingmenn og Sjálfstæðisflokkurinn 24 þingmenn. Þetta eru miklar sveiflur milli daga en stjórnin stendur mun betur að vígi í dag, enda var hún mæld fallin í gær.

Það eru aðeins þrír dagar til alþingiskosninga. Þetta verða dagar spennu og pólitískra átaka - það er barist um hvert atkvæði. Uppsveifla Framsóknarflokksins milli daga er með hreinum ólíkindum. Er Framsókn að leika eftir afrekið mikla vorið 2003? Verður Jón Sigurðsson eftir allt saman sigurvegari og gerir það sem flestum þótti fyrir aðeins nokkrum dögum óhugsandi? - að sigla framsóknarfleyinu heilu i land? Það verður fróðlegt að sjá.

Mjög margir eru þó enn óákveðnir. Þeir ráða örlögum frambjóðenda, flokka og formanna þeirra á laugardaginn. Þetta verða líflegir þrír sólarhringar, svo mikið má allavega segja!

mbl.is Fylgi Framsóknarflokksins tekur stökk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband