Ársafmæli bæjarstjórnarmeirihlutans á Akureyri

Sigrún Björk og Kristján ÞórÁr er í dag liðið frá því að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók við völdum í bæjarstjórn Akureyrar. Samstarfið er sögulegt, enda í fyrsta skipti sem flokkarnir tóku upp samstarf. Aðeins ríkisstjórnarsamstarf flokkanna frá 24. maí 2007 er að auki til staðar á milli flokkanna. Miklar sviptingar urðu á Akureyri í bæjarstjórnarkosningum 27. maí 2006 - meirihlutinn féll og fylkingar riðluðust - það blasti við allt frá kosninganótt að um væri að ræða eina sterka samstarfshæfa mynstrið.

Miklar sviptingar hafa líka orðið á þessu fyrsta ári meirihlutasamstarfsins. Kristján Þór Júlíusson lét af embætti bæjarstjóra 9. janúar sl. Hann hafði þá verið bæjarstjóri á Akureyri síðan í júní 1998, lengst allra frá því að Helgi M. Bergs var bæjarstjóri í áratug 1976-1986. Sigrún Björk Jakobsdóttir tók við embætti bæjarstjóra og leiðtogahlutverki Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn. Hún hafði komið ný inn í bæjarstjórn í kosningunum 2002 og varð forseti bæjarstjórnar fyrir ári. Kristján Þór var mjög afgerandi leiðtogi Sjálfstæðisflokksins, leiddi flokkinn í þrem kosningum og hafði afgerandi umboð úr prófkjöri skömmu fyrir kosningarnar. Brotthvarf hans markaði aðra ásýnd á bæjarmálin.

Brotthvarf Kristjáns Þórs af bæjarstjórastóli eru hiklaust stærstu pólitísku tíðindi kjörtímabilsins það sem af er. Hann yfirgaf þó ekki bæjarmálin, heldur varð forseti bæjarstjórnar og hefur nýlega verið endurkjörinn forseti til næsta árs. Hann er þó á útleið úr bæjarmálunum og mun ekki gefa kost á sér í næstu kosningum, enda orðinn alþingismaður og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Það varð strax ljóst við úrslit kosninganna í fyrra og samninga meirihlutaflokkanna að Kristján Þór væri á útleið. Fylgi flokksins féll um nokkur prósentustig í kosningunum í fyrra og fjórði maðurinn, Hjalti Jón Sveinsson, var mjög tæpur í sessi. 

Samningar meirihlutaflokkanna gerðu ráð fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn hefði embætti bæjarstjóra fyrstu þrjú ár kjörtímabilsins en Samfylkingin fjórða og síðasta ár kjörtímabilsins. Hermann Jón Tómasson, leiðtogi Samfylkingarinnar, verður því bæjarstjóri eftir tvö ár, í júní 2009. Það var öllum ljóst að Kristján Þór Júlíusson yrði varla formaður bæjarráðs í bæjarstjóratíð Hermanns Jóns, svo að örlög hans voru mjög ráðin strax þá að mínu mati. Ég gerði strax ráð fyrir því að Kristján Þór færi fram í leiðtogastól í kjördæminu við þennan samning og varð því ekki hissa á ákvörðun hans að fara fram þegar að ljóst var að Halldór Blöndal myndi hætta.

Sjálfstæðisflokkurinn hlaut ekki afgerandi umboð til að leiða bæjarmálin til fjögurra ára að mínu mati. Það voru að mínu mati fjöldamargar ástæður sem ollu því að flokkurinn hlaut ekki betra brautargengi og hann var að mínu mati stórlega lamaður að mörgu leyti eftir kosningar þó að hann héldi naumlega haus, enda mjög tæpt með fjórða mann og skammt á milli feigs og ófeigs í meirihlutaviðræðum. Vistaskipti Kristjáns Þórs eftir kosningarnar var eðlilegt skref að mínu mati. Það var bæði honum og Sjálfstæðisflokknum hér á Akureyri hollt að stokka upp stöðuna. Ég tel að það sé okkur mikilvægt að Akureyringur leiði kjördæmastarfið. Þar reynir nú á hann. 

Sigrún Björk Jakobsdóttir tók við bæjarstjóraembættinu í merkilegri stöðu. Hún var fyrsti kvenkyns bæjarstjórinn hér og markaði skref í þeim efnum, sem skipta máli fyrir okkur í flokknum. Hinsvegar er öllum ljóst að hún er ekki að taka við fastsettu bæjarstjóraembætti. Hún hefur tímamæli fyrir framan sig og horfist í augu við það að missa bæjarstjórastólinn eftir tvö ár, sama hversu vel hún stendur sig. Samfylkingin fær stólinn á tilsettum tíma og hún verður aftur óbreyttur bæjarfulltrúi og gegnir með því formennsku í bæjarráði væntanlega síðasta árið. Það reynir mjög á hana og flokkinn í þeirri stöðu á þessu ári, eftir að hafa haft bæjarstjórastólinn í ellefu ár. 

Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína að þessi meirihluti hafi verið bragðdaufur og hægvirkur. Þar skiptir sköpum að aðeins tveir bæjarfulltrúar meirihlutans höfðu reynslu af því að vera aðalmenn í bæjarstjórn áður; bæjarstjórarnir Kristján og Sigrún. Hin hafa slípast misvel til og hafa verið að læra að synda úti í straumþungum sjónum. Það tekur oft á, jafnvel fyrir duglegt fólk. Það getur tekið mismikinn tíma. Sumir í þessum hópi eru misvel syntir eftir árið, sumir enn að læra tökin og enn efasemdir um hvernig að þeim takist upp. Það reynir á þetta fólk næstu þrjú árin, enda ætlast bæjarbúar til þess að þessi sterki meirihluti skili afgerandi verkum af sér.

Það er merkilegt að fylgjast með bæjarstjórnarfundum á N4. Mér finnst þeir oft mjög þunnur þrettándi og litlausir. Það er mjög hrópandi staðreynd að enginn einstaklingur undir 35 ára aldri á fast sæti í bæjarstjórn Akureyrar. Það var mjög dapurlegt að sjá í aðdraganda kosninganna fyrir ári að flokkarnir feiluðu gjörsamlega á hinum gullna séns að veita ungu fólki brautargengi til þess að fá öruggt sæti í bæjarstjórn. Sumir flokkar fólu ungu fólki hliðarsæti sem varabæjarfulltrúar, sem lítið reynir á í sviðsljósi þess sem gerist í bæjarstjórn, þar sem kastljós fjölmiðlanna er oftast til staðar. Það er afleitt að ungt fólk eigi ekki sterkari aðkomu að fronti stjórnmála hér.

Staða Sjálfstæðisflokksins á Akureyri er athyglisverð nú á þessari stundu. Bæjarstjórinn Sigrún Björk Jakobsdóttir og kjördæmaleiðtoginn Kristján Þór Júlíusson hafa sterka stöðu hér í bænum að því er virðist. Þrátt fyrir það er bæjarstjórinn að klára þriggja ára bæjarstjórnarferil sem fyrst var eyrnamerktur Kristjáni Þór og kjördæmaleiðtoginn varð hvorki ráðherra né nefndaformaður í kapal flokksins í maímánuði. Það er því ljóst að í júní 2009 hefur flokkurinn hér hvorki lykilembætti sem fylgja setu í ríkisstjórn eða því að stjórna bænum úr Ráðhúsinu, að óbreyttu.

Það eru eflaust margir hugsi yfir því, sérstaklega þeir sjálfstæðismenn sem lengst hafa unnið hér á Akureyri í flokksstarfinu og þekkja innviðina þar mest og best.


Halldór Blöndal formaður bankaráðs Seðlabankans

Halldór Blöndal Halldór Blöndal, fyrrum ráðherra og forseti Alþingis, verður nýr formaður bankaráðs Seðlabankans. Kosið var í bankaráðið á fundi Alþingis í dag. Auk Halldórs sitja Hannes Hólmsteinn Gissurarson og Erna Gísladóttir fyrir Sjálfstæðisflokkinn í ráðinu. Jón Sigurðsson, fyrrum seðlabankastjóri og ráðherra, situr í ráðinu fyrir hönd Samfylkingarinnar ásamt Jóni Þór Sturlusyni. Auk þeirra eru í ráðinu, sem fyrr, Jónas Hallgrímsson, fyrir hönd Framsóknarflokks, og Ragnar Arnalds, fyrir hönd VG.

Halldór Blöndal lét af þingmennsku 12. maí sl. Hann sat á Alþingi 1979-2007 fyrir Sjálfstæðisflokkinn hér í Norðausturkjördæmi og Norðurlandskjördæmi eystra og var landbúnaðarráðherra 1991-1995, samgönguráðherra 1991-1999 og forseti Alþingis 1999-2005.

Það er gott að Halldór fær verkefni við hæfi nú að loknum stjórnmálaferli. Það verður eflaust auðvelt fyrir þá Davíð Oddsson og Halldór Blöndal að vinna saman innan Seðlabankans.

mbl.is Kosið í nýtt Seðlabankaráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vond aðkoma að sumarbústöðum

Það er mjög merkilegt að lesa þessa lýsingu á aðkomunni að bústaðnum hjá VR, þar sem æla, smokkar og matarleifar blöstu við gestum. Ekki beint aðlaðandi. Það er nú alveg með ólíkindum að fólk gangi ekki betur um og hugsi um þau híbýli sem þeim er treyst fyrir með sama hætti og eigin heimili. Nema þá að fólk gangi svona um eigið heimili, sem ég reyndar efast stórlega um í raun. Allt fólk með sómatilfinningu hlýtur að vilja ganga vel um sínar vistarverur og það er ömurlegur þessi hugsunarháttur að fyrst að maður eigi ekki bústaðinn sjálfur sé allt í lagi að yfirgefa hann jafnvel algjörlega í ruslastandi.

Einu sinni tók ég bústað hjá verkalýðsfélagi og kom að honum svona frekar subbalegum, þó engan veginn í eins döpru ástandi og lýst er í þessari frétt. Þetta er frekar ömurlegt, enda á maður von á að fá hreinan og góðan bústað í hendurnar og vonast til að fólk sé jafnþrifið og maður sjálfur þegar að kemur að því taka við svona bústað. En þetta er auðvitað misjafnt. En það er greinilega að það er að aukast að fólk gangi svona og svona um bústaðina. Þetta er ekki góð þróun.

mbl.is Æla, notaðir smokkar og rotnandi matarleifar tóku á móti gestum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má nauðga 14 ára stelpu?

Það vakti mikla athygli fyrir viku þegar að fjórir unglingspiltar voru sýknaðir í Héraðsdómi Reykjavíkur af ákæru um hóp­nauðgun á fjórtán ára stelpu. Þeir viðurkenndu að hafa haft mök við stelpuna en sögðu hana hafa viljað það. Þeir voru sýknaðir á grundvelli ónógra sannana, eins og fram kom í dómsorði. Fréttir af þessu vöktu athygli mína. Þetta eru nokkuð sláandi fréttir og umhugsunarverðar. Það að sýknað sé í máli á borð við þetta vekur fleiri spurningar en dómsorðið svarar þykir mér.

Þetta er reyndar ekki eina málið þessarar tegundar á síðustu vikum. Annað mál til hið minnsta sem er áþekkt þessu sem fyrr er nefnt hefur átt sér stað og hefur endað með sama hætti. Sýknað er vegna ónógra sannana þó að fyrir liggi verknaður af þessu tagi. Í báðum málum er um að ræða unga menn sem gefa engar ástæður að baki nema þá sem fyrr er nefnd, þ.e.a.s. að samræði hafi átt sér stað með vitund og vilja beggja aðila, þó vitað sé að stelpan sé varla með rænu vegna áfengisástands.

Þetta er í sjálfu sér mjög alvarlegt mál. Það er umhugsunarefni að fylgjast með hliðum þess og að sýknað sé í svona tilfellum. Mér finnst það alvarlegt að það sé haldið fram í dómskerfinu að þessar stelpur hafi viljað þetta og því eigi við svo búið að vera, málinu lokið þar með. Þetta er allavega mál sem vert er að velta fyrir sér, með tilliti til þessara dóma.

Eygló Harðardóttir, varaþingmaður, hefur ritað grein um þessi mál á vef sinn. Það eru góð skrif og ég bendi fólki eindregið á að lesa þau. Er mjög sammála skrifum hennar.

Ísland skrapar botninn - Eyjólfur á að hætta

Eyjólfur SverrissonÍslenska landsliðið í knattspyrnu hefur nú fallið niður í 109. sæti á styrkleikalista FIFA. Aldrei hefur landsliðið okkar fallið neðar. Það skrapar botninn. Það er ekki beinlínis hægt að segja að þetta komi að óvörum. Liðið hefur spilað svo illa að undanförnu og er orðið svo illa farið að þetta eru engar stórfréttir í raun.

Það var með ólíkindum að sjá landsleikinn á milli Íslands og Svíþjóðar fyrir viku. Þar vorum við svo lélegir að við litum út eins og viðvaningar í knattspyrnunni. Leikurinn gegn Liechtenstein var sýnu verri, enda er það lið sem við áttum að vinna en okkur tókst ekki að leggja. Það eitt og sér er háðung fyrir okkur.

Það er augljós staðreynd að landsliðið hefur verið sífellt að slappast í þjálfaratíð Eyjólfs Sverrissonar. Hann hefur engum árangri náð með liðið eftir tæp tvö ár og ekki óeðlilegt að stór spurningamerki vofi yfir áframhaldandi þjálfaratíð hans og framtíðarsýnina sem hann er að færa liðinu. Þetta botnskrap er ólíðandi og á að leiða til uppstokkunar á liðinu. Það er fullreynt með þessa framtíðarsýn.

Ég er þeirrar skoðunar að þjálfarinn verði að hætta og fæ ekki séð að það sé hægt að veita honum fleiri tækifæri með liðið. Botnskrapið er orðið of áberandi til að veitt séu fleiri tækifæri.


mbl.is Ísland í 109. sæti á FIFA listanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falleg sýn af Íslandi utan úr geimnum

Ísland í allri sinni dýrð Öll vitum við hvað Ísland er fallegt. Það jafnast ekkert við að fara um landið á fögru sumri, svona sumri eins og þetta stefnir í að verða. Það er þó alltaf fallegt að skoða gervitunglamyndir af landinu að sumri, þar sem vel sést yfir. Myndin sem tekin var í dag og hér er kynnt er einstaklega falleg.

Man annars alltaf vel eftir því hér í denn tid þegar að veðurfréttamenn hjá Sjónvarpinu sýndu svarthvítar gervitunglamyndir. Þetta var á þeim tímum þegar að veðurkortin voru sýnd á hreyfiskjá, sem var ekkert annað en standur þar sem kortin voru límd á og var svo snúið. Þetta voru myndir sem voru nær svartar í gegn og mótaði fyrir útlínum.

Þetta er skemmtilegt í minningunni, rétt eins og gamla formið á veðurfréttunum. Þetta var á þeim tíma þegar að veðurfréttirnar snerust aðeins um veðrið og löngu áður en veðurfréttirnar urðu jafn mikið show og nú er. Ætli að Siggi stormur og Trausti Jónsson séu ekki bestu andstæðurnar í bransa þess sem var í den tid og þess sem gerist nú í showinu.

Annars var þetta yndislegur dagur. Sól og blíða hér á Akureyri. Þetta var einmitt dagur til að fá sér Brynjuís - sem er annars langbesti ís sem hægt er að fá sér, sérstaklega á svona funheitum og björtum unaðsdegi.

mbl.is Ísland séð utan úr geimi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband