Mun Guðríður hringja í stelpurnar á Goldfinger?

Geiri og Guðríður Það var mjög kostulegt móment í Kastljósi í gærkvöldi þegar að Geiri í Goldfinger dró fram blaðið með nöfnum stelpanna á staðnum og slengdi því yfir borðið til Guðríðar Arnardóttur, bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar í Kópavogi. Þetta er merkilegt verklag hjá Geira í Goldfinger og vekur spurningar um hvort að stelpurnar hafi sjálfviljugar samþykkt að fara á blaðið til Guðríðar sem afhent var.

Geiri í Goldfinger verst fimlega í þessu máli og eðlilegt eins og staðan er orðin að hann reyni allt til að koma standandi niður í þessum átökum. En hvað gerist með listann; ætlar bæjarfulltrúinn Guðríður að eyða þjóðhátíðarhelginni við að rýna í listann og hringja í stelpurnar. Það verður aldeilis merkilegt fari svo.

Sumarsæla um helgina

Ég er að fara austur í Aðaldal í bústaðinn okkar í fjölskyldunni. Þar verður gott veður vonandi og skemmtilegt að vera. Þar þarf að dytta að eins og venjulega hvert sumar, nóg af framkvæmdum þar framundan. Svo verður auðvitað reynt að skemmta sér líka. Það er spáð fínni blíðu, þannig að vonandi verður þetta góð og notaleg helgi. Það er skollin á gúrka í pólitíkinni sýnist mér og sennilega munu flestir skella sér eitthvað um helgina til að hlaða batteríin. Það er bæði notalegt og gott.


Fer Valgerður Bjarnadóttir aftur til Jafnréttisstofu?

Valgerður H. BjarnadóttirVið skipun Margrétar Maríu Sigurðardóttur í embætti umboðsmanns barna vakna óneitanlega spurningar um það hver taki við Jafnréttisstofu hér á Akureyri. Það er ekki óeðlilegt að litið sé þar til Valgerðar H. Bjarnadóttur, sem var forveri Margrétar Maríu á þeim stól. Það eru orðin fjögur ár síðan að Valgerði var ýtt til hliðar úr starfinu með mjög ómaklegum hætti af Árna Magnússyni, fyrrum félagsmálaráðherra, áður en lyktir mála í frægu jafnréttismáli urðu fyllilega ljós.

Valgerður sagði af sér sem formaður LA og varð að hætta hjá Jafnréttisstofu að skipan ráðherra eftir dóm í héraðsdómi Norðurlands eystra en áður en dómur féll í Hæstarétti. Þar vann hún málið í janúar 2004. Í desember 2005 vann Valgerður bótamál á hendur ríkinu vegna ákvarðana ráðherra. Ríkið var þá dæmt til þess að greiða henni sex milljónir króna í bætur vegna starfslokanna. Það var eftirminnilegur sigur hennar.

Persónulega taldi ég illa farið með hana í þessu máli. Það verður vel fylgst með því nú hver taki við Jafnréttisstofu. Það verður fróðlegt að sjá hver fær hnossið en nafn Valgerðar hlýtur að vera ofarlega á blaði í þeim pælingum.


Margrét María skipuð umboðsmaður barna

Margrét María Sigurðardóttir Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hefur skipað Margréti Maríu Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu, í embætti umboðsmanns barna í stað Ingibjargar Rafnar, lögfræðings. Mér líst mjög vel á þessa ákvörðun Geirs að velja Margréti Maríu til starfans. Það sótti mikill fjöldi hæfra umsækjenda um stöðuna og erfitt úr að velja. Margrét María hefur staðið sig vel hjá Jafnréttisstofu hér á Akureyri síðustu árin og er mjög vel að þessu komin.

Margrét María er mikil kjarnakona. Ég kynntist henni í flokksstarfinu hér í Norðausturkjördæmi, en þar var hún ein flokksmanna og mjög dugleg. Sérstaklega man ég eftir henni úr kosningabaráttunni 2003, en þá var hún sérstaklega duglegur liðsmaður á Húsavík, þar sem hún bjó þá. Margrét María hefur alla tíð verið mjög dugleg og nýtur verka sinna í þessu vali tel ég.

Ég óska henni til hamingju með nýja starfið.

mbl.is Margrét María Sigurðardóttir ráðin umboðsmaður barna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leitin að Madeleine McCann heldur áfram

Madeleine McCann og foreldrar hennar Ekki minnkar dulúðin yfir máli Madeleine McCann eftir 43 daga leit. Enn er sama óvissan og sömu spurningamerkin sem vofir yfir. Leitin í Portúgal skilaði engum árangri. Það er reyndar með ólíkindum að fyrst væri fjallað um leitarstaðinn í blöðum en þeim upplýsingum en ekki fyrst komið til lögreglu. Það er eðlilegt að McCann-hjónin gagnrýni það.

Þetta hlýtur að vera hrein skelfing fyrir foreldrana. Samviskubit þeirra yfir stöðunni hlýtur að vera gríðarlega mikið og varla minnkar það með degi hverjum. Þetta er að mörgu leyti athyglisvert mál. Það er mikilvægt að á það fáist einhver endir. Það verður skelfilegt fari það svo að Madeleine finnist aldrei og aldrei verði ljóst hvað gerðist fyrir 43 dögum.

Fjölmiðlar fjalla enn um málið með sama hætti og var fyrstu vikuna. Auðvitað vilja þeir fylgja eftir því sem gerðist og reyna að fá svör. Það vilja allir sem fylgjast með. Eftir því sem hver dagur líður aukast þó líkurnar á því að Madeleine sé látin. Vonin minnkar sífellt. Það er hin napra staðreynd allra mála af þessu tagi, líka þessu auðvitað.

mbl.is Portúgalska lögreglan lokar af svæði þar sem Madeleine er leitað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lánleysi KR heldur áfram - sex leikir án sigurs

Úr leik KR og FH Það hlýtur að vera ískalt yfir fótboltaveldinu gamalgróna í vesturbænum og stuðningsmönnum þess við tapið gegn íslandsmeisturum FH í kvöld. Lánleysi KR heldur áfram. Eftir sex leiki í úrvalsdeildinni í sumar er KR enn án sigurs og aðeins með eitt stig. Liðið er auðvitað á botninum og eru góð ráð eflaust farið að teljast orðin ansi dýr í vesturbænum.

Það hlýtur að blasa við að einhver tíðindi eru væntanleg úr herbúðum KR. Staða liðsins er auðvitað langt undir öllum væntingum. Lið KR er stjörnum prýtt en samt sem áður er hlutskipti þess hreint og klárt botnskrap. Staða Teits Þórðarsonar telst varla góð og þeir eru varla margir sem veðja peningunum sínum á það að hann klári tímabilið með KR úr því sem komið er málum.

KR hefur alla tíð verið stórveldi í íslenskri knattspyrnu. Þrátt fyrir upp og ofan gengi á tímabilinu 1968-1999, er liðið var án Íslandsmeistaratitils, er staðan sem nú blasir við að verða sögulega eftirminnileg sem hin versta. Sumarið 2001 var álíka vandræðagangur yfir liðinu og þá fór liðið í gegnum allsherjar uppstokkun á ýmsum sviðum til að bæta úr.

Það yrðu varla stór tíðindi úr þessu þó að verulega yrði hrist til eftir þessa martraðarbyrjun gamla vesturbæjarveldisins.

mbl.is KR enn án sigurs eftir tap gegn FH
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband