Minningarorð um Susie Rut á miðopnu Moggans

Susie Rut Það hefur ekki gerst fyrr svo ég muni eftir að látinnar manneskju sé minnst af öðrum en ritstjórum Morgunblaðsins á miðopnu. Það gerðist þó í dag þegar að Susie Rut Einarsdóttir var jarðsungin. Hún var kvödd af foreldrum sínum á miðopnu blaðsins með hugheilum orðum. Andlát hennar bar að með vofveiflegum hætti og hefur það verið í kastljósi fjölmiðla undanfarna daga.

Minningarorð Einars S. Hálfdánarsonar, föður hennar, eru hugheil og einlæg. Allir sem þau lesa verða djúpt snortnir. Skrifin hafa vakið mikla athygli í dag. Þar eru enda beitt orð um fíkniefnavandann, sem fer því miður sífellt vaxandi í samfélagi okkar. Það þarf hugrekki og kraft til að skrifa svo góða grein, sem tekur á erfiðu máli á sorgarstund hjá fjölskyldu. Ég dáist að þeim krafti og styrk á raunastundu.

Ég vil votta fjölskyldu Susie Rutar innilega samúð mína.

Sáttasemjarinn Tony Blair hættir þingmennsku

Tony Blair Það er nú ljóst að Tony Blair, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands, mun verða skipaður sérlegur sáttasemjari í málum Mið-Austurlanda á morgun og segir af sér þingmennsku í kjölfarið eftir að hafa látið af embætti forsætisráðherra á fundi með drottningu í Buckingham-höll eftir hádegið á morgun. Um leið og þeim fundi lýkur mun hann sem óbreyttur þingmaður fljúga til Sedgefield og tilkynna afsögn sína af þingi á fundi með flokksfólki á svæðinu. Tony Blair hefur setið á breska þinginu í nafni Sedgefield í 24 ár, eða allt frá árinu 1983.

Á þessari stundu mun forsætisráðherrann fráfarandi vera að ljúka við flutninga sína frá Downingstræti á nýtt heimili sitt í Connaught Square í London. Þar voru haldnir fundir síðdegis og undir kvöld þar sem unnið var, bakvið tjöldin, að skipulagi morgundagsins, svo lítið bæri á og Blair sat fundi með lykilmönnum til að undirbúa pólitísk endalok sín. BBC hefur flétt hulunni af þessari strategíu allri í kvöld. Blair mun sitja fyrirspurnartíma forsætisráðherra í þingsal í Westminster í hádeginu á morgun og svara spurningum samkvæmt venju. Þar flytur hann sína síðustu þingræðu og fer þaðan beint til drottningar til að biðjast lausnar.

Fundurinn í Sedgefield var svo fastsettur síðdegis eftir að staðfesting á boði um sáttasemjarahlutverkið barst. Það er öllum ljóst að fundur er ekki boðaður í Sedgefield síðdegis daginn sem Blair lætur af völdum nema af einni ástæðu og það augljósri. Ákvörðun liggur fyrir um vistaskipti hans og öllum er ljóst að Tony Blair verður ekki óbreyttur þingmaður með þessu hlutverki.
Það hefur verið vitað nær alla tíð að Tony Blair myndi hætta í stjórnmálum um leið og hann léti af forsætisráðherraembættinu. Sjálfur hefur hann þó gefið í skyn og gerði það í Sedgefield 10. maí sl. er hann tilkynnti um endalokin í Downingstræti að hann yrði mögulega áfram þingmaður.

Það verður því ekki mikið um frí hjá Tony Blair þó að stjórnmálaferli hans ljúki síðdegis á morgun. Ekki vantar verkefnin fyrir sáttasemjara í Mið-Austurlöndum. Allt tal um frí fyrir nýjan sáttasemjara er enda ekki á dagskrá og væntanlega mun Blair halda strax til verka á nýjum vettvangi. Það verður fróðlegt fyrir þá sem hafa fylgst með breskum stjórnmálum alla pólitíska tíð Tony Blair og vanist honum sem þingmanni og forystumanni í flokki og ríkisstjórn að sjá hann sem diplómatsefni á öðrum vettvangi. En á meðan á því stendur reynir á Brown að halda sæti Blairs í Sedgefield, þar sem verða aukakosningar fljótlega.

Bresk stjórnmál fá væntanlega á sig annan blæ með brotthvarfi Tony Blair sem hefur verið risi á þeim vettvangi í raun allt frá leiðtogakjörinu sumarið 1994, enda þá strax ljóst að hann yrði nær örugglega forsætisráðherra. Ferill hans í Downingstræti 10 var litríkur, en engu að síður var hann sterkur leiðtogi lengst af, hann vildi hafa full völd og naut þeirra mjög lengi vissulega. Hann hefði aldrei unað sér sem óbreyttur þingmaður í liði Gordon Brown og tekur því nýtt tækifæri fegins hendi.

Eflaust mun skipan Blairs í verkefnin í Mið-Austurlöndum verða umdeild með sama hætti og öll hans verk á undanförnum árum. En nú verða vistaskipti og nú reynir á Blair á nýjum vettvangi, fjarri öllum skarkala þess sem gerist í London. Nýtt hlutverk Tony Blair mun verða í miðpunkti allra fjölmiðla, þeim blóma sem hann hefur notið sín alla tíð best í. Fyrir Tony Blair verða vistaskiptin því ekki mikil. Enn mun hann skipta máli... þökk sé George W. Bush, auðvitað.

Bloggsíðu lokað - ánægja á Moggablogginu?

Það hefur mikið verið rætt og ritað um lokun bloggsíðu Emils Ólafssonar hér í morgun. Sitt sýnist eflaust hverjum. Mér sýnist vera almenn gleði víðast hvar hér í bloggkerfinu. Það voru ansi margir hér á svæðinu búnir að fá nóg af skrifum þessa manns og það var mjög áberandi farið yfir öll mörk. Það er greinilegt að forsvarsmenn Morgunblaðsins á netinu voru þeirrar skoðunar og þeir gripu inn í. Með þessu eru þeir að senda skýr skilaboð til þeirra sem skrifa. Það er standard á þessu bloggkerfi og fari menn yfir þau mörk sem sett eru er þeim vísað á dyr.

Það er skiljanlegt að þeir hjá blog.is, sem hafa lagt mikla vinnu í þetta vinsælasta bloggkerfi landsins og unnið vel sitt verk vilji halda utan um þennan vettvang og tryggja að hann sé ekki lagður í rúst með mjög áberandi hætti. Þetta verklag í morgun sýnir það og sannar. Þetta vefkerfi er í eigu einkaaðila og þeir leggja mat á þann vettvang sem þeir vilja halda úti og hverjir noti hann. Hér er í raun allt galopið og hver sem er getur farið að skrifa. Það fylgir þó öllu slíku frelsi ábyrgð eins og við höfum séð í þessu máli.

Ég er ánægður með það hvernig haldið er á málum hér og lýsi enn og aftur yfir ánægju minni á stjórnun þeirra sem halda utan um þetta bloggsamfélag. Þetta kerfi á að vera þekkt fyrir eitthvað allt annað en dónaskap og óþarfa skítkast. Það sést vel af ákvörðunum yfirstjórnar þessa bloggkerfis.

Tony Blair verður sáttasemjari í Mið-austurlöndum

Tony Blair Það er aðeins sólarhringur þar til að Tony Blair gengur á fund Elísabetar II, drottningar, í Buckingham-höll og lætur af einu valdamesta embætti heims. Það er nú orðið ljóst hvað tekur við hjá þessum umdeilda stjórnmálamanni er þriggja áratuga stjórnmálaferli hans lýkur. Hann verður eins og flestir áttu von á sáttasemjari kvartettsins fræga í Mið-Austurlöndum. Ekki veitir af samningamönnum í vargöldinni þar, sem virðist aðeins magnast með hverjum deginum sem líður.

Það mátti öllum vera ljóst að George W. Bush væri það mjög mikilvægt að halda Tony Blair áfram á landakorti alþjóðastjórnmála, þó að stjórnmálaferli hans í Bretlandi væri lokið. Blair er einn nánasti bandamaður Bush á undanförnum árum og þeir hafa fylgst að í gegnum margar ákvarðanir. Þegar að George W. Bush varð forseti Bandaríkjanna í janúar 2001 var mjög um það deilt hvort að þeir gætu unnið saman, enda höfðu Blair og Clinton verið pólitískir sálufélagar. Það leikur enginn vafi á því að það sama má í raun segja um Bush og Blair.

Það hefur lengi verið velt fyrir sér hvað yrði um Blair að loknum valdaferlinum. Tony Blair er auðvitað á besta aldri. Hann er aðeins 54 ára gamall og er meira að segja tveim árum yngri en Gordon Brown, verðandi forsætisráðherra Bretlands, svo að hann á mörg góð ár eftir enn. Margir hafa hugleitt hvort framtíð Blair myndi liggja í að verða forseti ESB-blokkarinnar eða taka jafnvel við af Barroso sem forseti framkvæmdastjórnarinnar. Margir veltu því fyrir sér hvort hann færi í Alþjóðabankann ennfremur, þó að það sé reyndar fastsett að Bandaríkjamaður er á þeim pósti og því breytir ekki einu sinni George W. Bush.

Tony Blair hefur á stjórnmálaferli sínum alltaf fylgst vel með ástandinu í Mið-Austurlöndum og þekkir stöðuna þar mjög vel, sennilega er hann einn færasti stjórnmálamaðurinn í þeim bransa sem er á landakorti stjórnmálanna. Svo að það liggur beinast við að þar muni hann helga starfskröftunum, nú þegar að hann losnar loks úr valdalimbóinu við Gordon Brown, erjum við vinstrisinnuðustu þingmenn Verkamannaflokksins og miðvikudagsstaglið við David Cameron. Þar getur hann skipt sköpum og helgað sig merkum verkum.

Hann þekkir auðvitað vel til lykilmanna stjórnmálanna á svæðinu. Shimon Peres, verðandi forseti Ísraels, er náinn vinur Blairs, hann hefur margoft rætt við Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, og hefur ræktað gott samband við Mahmoud Abbas, forseta Palestínu. Þannig að hann hefur ræktað tengsl á löngum valdaferli, tengsl sem skipta máli í svo erfiðu máli. Það er alltaf heppilegra að veraldarvanur stjórnmálamaður með öll tengsl í lagi taki við svo flóknu verkefni. Þannig að Tony Blair er þar þrátt fyrir allt á heimavelli.

mbl.is Blair lýsir áhuga á að vinna að friði í Miðausturlöndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Moggabloggið lokar á Emil Ólafsson

Ég tek eftir því að Moggabloggið hefur lokað á aðgang Emils Ólafssonar hér. Þar stendur nú aðeins að síðu hans hafi verið lokað vegna ítrekaðra brota á skilmálum blog.is. Það kemur mér ekki að óvörum svo sannarlega. Það sást vel í gær að það var að draga mjög til tíðinda í samskiptum Moggabloggsins og þessa Emils. Síðan hans lokaði og sagt var fyrst að það hefði verið að hans frumkvæði. Síðar var opnaði hún þó aftur fyrir dagslok, rétt eins og ekkert hefði í skorist.

Þetta mál opnar margar spurningar um moggabloggið. Það er gott að Mogginn svarar þeim sjálfur með því að sýna að þar er tekið af skarið ef vandamál verða. Ég kvarta ekki yfir því. Ég sá reyndar í gærkvöldi viðtal við þennan Emil í Íslandi í dag. Þar var hann að reyna að svara af hverju hann var á aðgangi í Háskólanum á sínum tíma. Aðgangurinn var falsaður og margt fleira vakti athygli í orðalaginu. Það verður seint sagt að þarna hafi leyndarhjúpurinn minnkað á málum viðkomandi.

Það hefur verið sviptingasamt í bloggsamfélaginu eftir skrif Elíasar Halldórs og eftirleikurinn hefur ekki farið framhjá neinum sem lítur í gegnum bloggkerfið. Þetta hefur verið leiðinlegur tími og sérstaklega ömurlegt með að fylgjast fyrir okkur sem bloggum þarna. Þetta fór yfir öll mörk um helgina og greinilegt að Moggabloggið sjálft tekur af skarið nú endanlega.

Það er í sjálfu sér auðvitað mjög ánægjulegt og ekkert meira um það að segja.


Boðar Gordon Brown fljótlega til kosninga?

Gordon Brown Það yrði mjög klókt hjá Gordon Brown, leiðtoga Verkamannaflokksins og verðandi forsætisráðherra Bretlands, að efna til kosninga í Bretlandi fyrr en síðar. Það hlýtur að vera nýjum forsætisráðherra ofarlega í huga að reyna að sækjast eftir eigin umboði til valda. Það kemur ekki að óvörum að þessi orðrómur hefur kviknað strax eftir að Brown tók við leiðtogahlutverki flokksins af Tony Blair og bíður eftir forsætisráðherratigninni. Það er fyrirsjáanlegt bragð fjölmiðla til að spinna atburðarás.

David Cameron, leiðtogi Íhaldsflokksins, var reyndar skotfljótur og taktískur við að hugsa þennan leik til enda og gaf út sérstaka yfirlýsingu svo til um leið og Sky og BBC hófu fréttaflutning um þennan orðróm um kosningar fljótlega til að fagna sérstaklega því að Brown hugsaði um að sækjast eftir eigin umboði og benti á að Gordon Brown yrði forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Verkamannaflokksins án þess að hljóta eitt einasta atkvæði, hafa fengið embættin því sem næst á silfurfati í raun, þrátt fyrir áralanga plottvinnu vissulega á bakvið tjöldin. Með því sló hann vopnin úr höndum Brown, hafi hann þ.e.a.s. lekið þessu sem er ekki víst reyndar.

Það eru aðeins tvö ár frá síðustu þingkosningum í Bretlandi. Í aðdraganda kosninganna 2005 hét Tony Blair því að gegna embætti forsætisráðherra út þriðja kjörtímabilið, sem hann var kjörinn til að gegna leiðtogahlutverki í. Hann gat ekki staðið við þau orð vegna innri ólgu innan Verkamannaflokksins og allt að því uppreisn Brown-manna og lykilaðila tengdum þeim gegn honum á bakvið tjöldin. Flauelsbylting var í raun gerð gegn Blair í september 2006 og hann gaf upp tímaramma endalokanna sér mjög á móti skapi. Stór þáttur þessa var auðvitað veikur þingmeirihluti en Blair missti ægivald sitt um leið og kosningaúrslitin lágu fyrir í maí 2005. Þau þýddu að tími hans sem hins sterka væri í raun lokið. Það fór enda svo.

Það er reyndar að mínu mati nokkur fjarstæða að telja Gordon Brown með öllu umboðslausan stjórnmálamann er hann tekur við forsætisráðherraembættinu af Tony Blair. Segja má að Gordon Brown hafi verið sigurvegari kosninganna vorið 2005 merkilegt nokk, en ekki Tony Blair, eins og í hinum tveim kosningasigrum flokksins. Blair leiddi vissulega flokkinn áfram til valda í hið sögufræga þriðja kjörtímabil en hann var ekki sá sem varð aðalstjarnan í raun, eins merkilegt og það hljómar. Það var Brown sem halaði inn sigur flokksins og var meginpunktur kosningabaráttu flokksins. Hann fylgdi Blair eftir hvert fótmál og var sá sem mesta athyglin snerist um.

Segja má að Gordon Brown hafi verið eins og skugginn á eftir forsætisráðherranum alla baráttuna og á hann var baráttan markaðssett. Blair var fastur í neikvæðri umræðu, einkum var hann þakinn nöprum skuggum Íraksstríðsins, og beinlínis orðinn óvinsæll og því notuðu menn niðurstöður kannana og drógu Brown fram og tefldu meginpunkta baráttuna á honum. Þetta var merkileg þróun í ljósi þess hvernig Blair var alla tíð fram að því aðalsegull flokksins á kjósendur. Nú varð hann hinsvegar eins og aðskotahlutur. Flokkurinn vissi varla hvernig ætti að auglýsa hann upp og beindu því miðpunktinum að mestu annað og fengu Brown fram í sviðsljósið með Blair.

Eitt merkilegasta slagorð kosningabaráttunnar 2005 í huga gárunganna varð enda; Vote Blair – Get Brown. Svo fór að lokum. Blair gat ekki setið til enda vegna óvinsælda sinna og veikrar stöðu á öllum vígstöðvum. Svo fór að kjósendur fengu Brown. En þrátt fyrir það tekur Gordon við embættinu í krafti kosningasigurs sem verður alla tíð tengdur Tony Blair með einum hætti eða öðrum. Það gæti þó orðið tvíeggjað sverð að boða til kosninga, svo skömmu eftir vond úrslit í byggðakosningum, þó kannanir sýni einhverja bylgju með Brown sem skiljanlegt er með Blair á útleið.

Það verður fróðlegt að sjá hvað Skotinn gerir. Gordon Brown hefur alla tíð reynt að sjá fyrir marga leiki í einu í refskák stjórnmálanna. Þar er hann snillingur. Hann mun eflaust ekki ana að neinu, þó það kitli hann eflaust að leita eftir umboði og reyna með því að snúa hlutunum æ meir sér í hag. Á meðan reynir Davíð Cameron að fella skoska golíatinn. Þetta verða spennandi tímar sem taka við með brotthvarfi Blair og allra augu verða á því hvenær þingkosningar verða í raun. Þar liggur stóra spurningamerkið í upphafi forsætisráðherraferils Gordons Brown.

Ready to serve - skemmtileg klippa

mbl.is Cameron hvetur Brown til að boða til kosninga strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hasta la vista Tony!

Schwarzenegger og Blair Það hefði eflaust einhverjum þótt það óraunverulegt þegar að Tony Blair tók við völdum í Downingstræti 10 í maíbyrjun 1997 að síðasti opinberi gestur hans þar yrði Arnold Schwarzenegger, hinn heimsþekkti kvikmyndaleikari sem síðar varð vinsæll stjórnmálamaður sem ríkisstjóri gullna ríkisins Kaliforníu. En sú verður nú raunin. Blair hefur síðasta embættisdag sinn, á morgun, miðvikudag, með því að taka á móti repúblikananum Schwarzenegger og ræða við hann.

Arnold Schwarzenegger hefur á stjórnmálaferli sínum verið ötull talsmaður umhverfismála og látið þann málaflokk mjög til sín taka. Hann mun fara til London til að sitja umhverfisráðstefnu. Hann sóttist eftir fundi með Tony Blair, sem verið hefur einn nánasti bandamaður George W. Bush, forseta Bandaríkjanna og forystumanns flokks ríkisstjórans, eflaust til að ræða um loftslagsmál og umhverfið almennt. Með því verður hann síðasti opinberi gesturinn sem heimsækir Tony Blair og það aðeins sex klukkutímum áður en forsætisráðherrann heldur til drottningar til að biðjast lausnar. Með öðrum orðum, þetta verður eitt síðasta embættisverk hans í Downingstræti.

Þetta er auðvitað vissulega kaldhæðni. Það væri nú vonandi að Schwarzenegger rifjaði upp frægan kvikmyndafrasa sinn úr myndinni Terminator 2: Judgment Day, Hasta La Vista Baby, er hann kveður forsætisráðherrann fráfarandi í lok heimsóknarinnar.

mbl.is Schwarzenegger síðasti gestur Blairs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband