Tony Blair verður sáttasemjari í Mið-austurlöndum

Tony Blair Það er aðeins sólarhringur þar til að Tony Blair gengur á fund Elísabetar II, drottningar, í Buckingham-höll og lætur af einu valdamesta embætti heims. Það er nú orðið ljóst hvað tekur við hjá þessum umdeilda stjórnmálamanni er þriggja áratuga stjórnmálaferli hans lýkur. Hann verður eins og flestir áttu von á sáttasemjari kvartettsins fræga í Mið-Austurlöndum. Ekki veitir af samningamönnum í vargöldinni þar, sem virðist aðeins magnast með hverjum deginum sem líður.

Það mátti öllum vera ljóst að George W. Bush væri það mjög mikilvægt að halda Tony Blair áfram á landakorti alþjóðastjórnmála, þó að stjórnmálaferli hans í Bretlandi væri lokið. Blair er einn nánasti bandamaður Bush á undanförnum árum og þeir hafa fylgst að í gegnum margar ákvarðanir. Þegar að George W. Bush varð forseti Bandaríkjanna í janúar 2001 var mjög um það deilt hvort að þeir gætu unnið saman, enda höfðu Blair og Clinton verið pólitískir sálufélagar. Það leikur enginn vafi á því að það sama má í raun segja um Bush og Blair.

Það hefur lengi verið velt fyrir sér hvað yrði um Blair að loknum valdaferlinum. Tony Blair er auðvitað á besta aldri. Hann er aðeins 54 ára gamall og er meira að segja tveim árum yngri en Gordon Brown, verðandi forsætisráðherra Bretlands, svo að hann á mörg góð ár eftir enn. Margir hafa hugleitt hvort framtíð Blair myndi liggja í að verða forseti ESB-blokkarinnar eða taka jafnvel við af Barroso sem forseti framkvæmdastjórnarinnar. Margir veltu því fyrir sér hvort hann færi í Alþjóðabankann ennfremur, þó að það sé reyndar fastsett að Bandaríkjamaður er á þeim pósti og því breytir ekki einu sinni George W. Bush.

Tony Blair hefur á stjórnmálaferli sínum alltaf fylgst vel með ástandinu í Mið-Austurlöndum og þekkir stöðuna þar mjög vel, sennilega er hann einn færasti stjórnmálamaðurinn í þeim bransa sem er á landakorti stjórnmálanna. Svo að það liggur beinast við að þar muni hann helga starfskröftunum, nú þegar að hann losnar loks úr valdalimbóinu við Gordon Brown, erjum við vinstrisinnuðustu þingmenn Verkamannaflokksins og miðvikudagsstaglið við David Cameron. Þar getur hann skipt sköpum og helgað sig merkum verkum.

Hann þekkir auðvitað vel til lykilmanna stjórnmálanna á svæðinu. Shimon Peres, verðandi forseti Ísraels, er náinn vinur Blairs, hann hefur margoft rætt við Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, og hefur ræktað gott samband við Mahmoud Abbas, forseta Palestínu. Þannig að hann hefur ræktað tengsl á löngum valdaferli, tengsl sem skipta máli í svo erfiðu máli. Það er alltaf heppilegra að veraldarvanur stjórnmálamaður með öll tengsl í lagi taki við svo flóknu verkefni. Þannig að Tony Blair er þar þrátt fyrir allt á heimavelli.

mbl.is Blair lýsir áhuga á að vinna að friði í Miðausturlöndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband