Ótrúlega stórt skip - blíða á Akureyri

Ótrúlega stórt skip á AkureyriÞað var yndislegt veður hérna á Akureyri í dag. Sól og blíða, allt eins og best verður á kosið. Það sem setti þó mestan svip á daginn var skemmtiferðarskipið sem kom til bæjarins í dag, Grand Princess. Ég hef aldrei á ævi minni séð annað eins skip og það var mjög spes að fá sér labbitúr niðureftir Strandgötunni í hádeginu og líta á þetta skip.

Þetta er ótrúlega umfangsmikið og voldugt skip. Það hlýtur að kosta vænar fúlgur að fá sér eina sjóferð um heimsins höf á því. Þetta er stærsta skipið sem hingað til Akureyrar hefur allavega komið og mun koma til landsins í sumar hef ég heyrt. Veit þó ekki hvort þetta sé stærsta skip sem til Reykjavíkur, en ekki yrði ég hissa á því. Held að allir sem hafi séð þennan risavaxna dall í dag hafi orðið gjörsamlega orðlausir.

En í heildina var þetta virkilega góður dagur, sólin setti fallegan svip á daginn. Síðdegis fór ég svo til Hönnu systur. Hún er 39 ára í dag og hún hélt upp á afmælið með fjölskyldukaffiveislu heima. Þar svignuðu borð undan góðum krásum, eins og við er að búast hjá Hönnu minni á svona góðum degi. Það var virkilega gaman að hitta þar ættingja og ræða málin. Innilega til hamingju með daginn elsku Hanna mín!


mbl.is Grand Princess á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil viðbrögð vegna dauða hundsins Lúkasar

LúkasÉg hef fengið talsverð viðbrögð vegna skrifa minna um dauða hundsins Lúkasar og umræðan í samfélaginu hefur verið gríðarlega mikil í gær og í dag. Ég man reyndar sjaldan eftir annarri eins hörku og sterkum viðbrögðum lengi. Ég persónulega fékk ótalmarga tölvupósta og komment hér á vefinn eftir skrifin hjá mér. Mér fannst mikilvægt að skrifa um þetta mál, enda ofbauð mér gjörsamlega hvernig komið var fram við hundinn og þetta er auðvitað að öllu leyti hið sorglegasta mál.

Það má vel vera að hundurinn hafi ekki verið persóna eins og ég og þú, en hinsvegar vekur það athygli þegar að lífinu er murkað úr dýri með svo vægðarlausum hætti. Það hefur kallað á sterk viðbrögð. Eins og ég sagði í dag finnst mér það ekki leysa neinn vanda að ætla þeim sem sakaður er um þetta illvirki ills eða reyna að hræða hann eða ætla að berja hann í klessu. Það eykur bara vandann.

Þetta mál verður auðvitað að hafa sinn gang og ég get ekki betur séð en að umræðan hafi vaknað og það er mest um vert. Þegar að ég heyrði fyrst af þessu máli átti ég ekki von á að það hefði svo gríðarleg viðbrögð. Það hlýtur að vera skelfilegt að vera viðkomandi maður þó að ég hafi mun meiri samúð með aðstandendum þess manns í þessu fjölmiðlafári og miðpunkti umfjöllunar úr öllum áttum.

Það er auðvitað vond staða að vera afhjúpaður gjörsamlega í svona máli og eflaust hefur viðkomandi maður upplifað algjöra martröð. Það er mest um vert að lögregla sé með málið í höndum og taki vonandi á því með sínum hætti. Hinsvegar á dómstóll götunnar ekki að hjóla viðkomandi mann niður. Í heildina er þetta allt hið sorglegasta mál og það bætir ekki úr skák fyrir neinum að berja strákinn í spað.

Það skapar aðeins eitt ofbeldi ofan á annað. Það var mikilvægt að þetta mál kæmist í umræðuna og það tókst. Vonandi mun það hafa þó áhrif að hægt verði að jarða hundinn og ljúka málinu með viðunandi hætti.


Mun Jón Þór Sturluson aðstoða Björgvin G?

Jón Þór SturlusonKjaftasögurnar segja að Jón Þór Sturluson, hagfræðingur og dósent í Háskólanum í Reykjavík, muni verða aðstoðarmaður Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra. Jón Þór hefur lengi verið í starfi Samfylkingarinnar og var virkur í ungliðastarfinu þar. Jón Þór hefur setið í bankaráði Seðlabanka Íslands frá því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði sig úr bankaráðinu 20. október 2005, daginn sem Davíð Oddsson varð seðlabankastjóri.

Það hafði verið í umræðunni að Björgvin ætlaði sér ekki að sækja efnilega stjórnmálamenn eða trúnaðarmenn úr Suðurkjördæmi til starfa í ráðuneytið sér við hlið heldur manneskju með þekkingu úr þessum geira. Björgvin G. er heimspekingur og veitir eflaust ekki af fólki með fagþekkingu á hagfræði- og viðskiptamálum sér við hlið. Hann hefur viljað setja sig vel inn í málin og hefur þegar rætt við valinkunna viðskiptamenn skilst manni.

Margir þingmenn munu víst hafa brosað út í eitt þegar að Björgvin las Viðskiptablaðið og erlent virt viðskiptarit á fyrsta þingdeginum sem viðskiptaráðherra þann 31. maí sl. í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Þá lyfti hann báðum blöðum hátt upp til þess að allir tækju nú örugglega eftir því að viðskiptaráðherrann á ráðherrabekknum væri nú vel að sér í bissness-kreðsunum.


Gordon Brown fær skugga Blair-tímans í arf

Sarah og Gordon Brown Innan við tveim sólarhringum eftir að Tony Blair yfirgaf bresk stjórnmál hefur Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, verið minntur á að hann tekur í arf skugga valdaferils forvera síns. Strax þegar að Brown keyrði frá fundinum með drottningu voru mótmælendurnir sem fylgdu Tony Blair þangað eftir og voru sem skuggi á eftir nýja forsætisráðherranum á leið í Downingstræti 10.

Nýr maður á valdastóli með skugga liðinna tíma á hælum sér í orðsins fyllstu merkingu. Atburðir dagsins í Bretlandi sýna Gordon Brown kristalskýrt að staðan er óbreytt frá 7. júlí 2005 er hryðjuverkin voru framin í London. Það hefur ekkert breyst. Sú ólga sem fylgdi Tony Blair eftir vegna ákvarðana um Íraksstríðið eru enn til staðar og munu jafnvel persónugerast í honum nema að uppstokkun verði í utanríkismálum.

Það er ljóst af ákvörðunum undanfarinna daga að Gordon Brown ætlar sér að vera forsætisráðherra innanríkismálanna og sýna kraft sinn þar. Skuggar utanríkismálanna eru þó vel til staðar og eflaust mun hann ætla að fela David Miliband lykilstöðu þar. En það verður augljóslega mjög erfitt fyrir forsætisráðherrann að gleyma utanríkismálunum og hugsa bara um innanríkismál.

Skuggarnir hans Tonys eru enda enn hróplega áberandi þó að hann sjálfur sé farinn frá og reyni að breyta ófriði í frið á öðrum vettvangi. Kaldhæðni, ekki satt?

mbl.is Lögregla lokar helstu leiðum um miðborg Lundúna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný spútnik-stjarna rís í breskum stjórnmálum

David Miliband Það leikur enginn vafi á því að ný spútnik-stjarna í breskum stjórnmálum er komin til sögunnar með ákvörðun Gordon Brown, forsætisráðherra, að fela David Miliband húsbóndavald í utanríkisráðuneytinu. Miliband er fjórði utanríkisráðherrann í tíu ára valdatíð Verkamannaflokksins. Robin Cook var utanríkisráðherra 1997-2001 og Jack Straw 2001-2006. Báðum var sparkað harkalega með eftirminnilegum hætti af Tony Blair. Margaret Beckett varð utanríkisráðherra fyrir ári, fyrst kvenna í yfir 220 ára sögu ráðuneytisins.

David Miliband er næstyngsti maðurinn sem tekur við völdum í utanríkisráðuneytinu. Aðeins dr. David Owen var yngri. Þegar að David varð utanríkisráðherra í febrúar 1977 í ríkisstjórn Jim Callaghan var hann aðeins 38 ára gamall. Miliband verður 42 ára í næsta mánuði, en lítur reyndar út fyrir að vera miklu yngri. Skipan hans á þennan einn valdamesta póst í breskum stjórnmálum mun efla til muna umræðuna um að hann sé nú orðinn, líkt og Gordon Brown áður, krónprins Verkamannaflokksins og sá sem bíði eftir völdunum síðar meir. Ennfremur mun eflaust verða skrafað mjög áberandi um það að þeir hafi samið um valdaskipti, líkt og Blair og Brown áður.

David Miliband hefur útlit krónprinsins og hann hefur persónutöfra í takt við það sem einkenndi Tony Blair fyrir um þrettán til fimmtán árum. Margir hvöttu hann til að gefa kost á sér til leiðtogahlutverks í flokknum. Þrálátar kjaftasögur eru um að Tony Blair og helstu lykilmenn hans hafi hvatt hann sérstaklega til að fara fram. Þá fyrst er hann útilokaði opinberlega framboð komu Blair og hans lykilmenn fram og lýstu yfir algjörum stuðningi við Gordon Brown. Reynt var að bera á móti kjaftasögunum um að dubba hafi Miliband upp til leiðtogahlutverks, en það hefur ekki beint hljómað sannfærandi í ljósi þeirra öruggu heimilda sem fylgdu fréttum t.d. Guardian af málinu.

Það er eflaust hagur bæði þeirra Browns og Milibands að þeir vinni saman. Brown hefur reynsluna og kraft hins þrautreynda statesman, en Miliand hefur sjarmann og áruna sem einkennir vænlegan krónprins. Saman geta þeir unnið vel, rétt eins og Blair og Brown gerðu saman á sínum tíma í frægu samkomulagi sem í raun tryggði Verkamannaflokkinn sem sterkan valkost og byggði undir veldið mikla sem síðar varð með kosningasigrinum 1997. Hefðu þeir tekið rimmu saman hefði staðan eflaust getað orðið allt önnur og kergjan sem hefði komið með leiðtogaslag þeirra á milli hefði orðið flokknum skaðleg til lengri tíma litið. Samkomulagið tryggði stöðu beggja.

Gordon Brown er auðvitað að eldast. Hann nálgast nú sextugt og er ekki lengur hinn ungi framagjarni maður sem var á tíunda áratugnum er kratarnir komust til valda og honum vantar sárlega ungan og efnilegan arftaka sér við hlið, bæði til að tryggja sína stöðu og eins flokksins á komandi árum. Brown hefur þó náð markmiðum sínum. Hann barðist í þrettán ár fyrir því að hljóta völdin í Downingstræti 10. Hann var líka með leiðtoga og forsætisráðherra fyrir framan sig sem var tveim árum yngri en hann - auk þess varð Tony Blair ekki sammála Brown um hvenær að tími hans væri liðinn.

Í ráðherravali Gordons Browns felast mikil tíðindi að mínu mati. Hann veitir nýju fólki ótrúlega góð tækifæri. Utanríkisráðherratign Milibands markar hann sem alvöru leiðtogakandidat í fyllingu tímans og færir honum gríðarleg völd á alþjóðavettvangi og ennfremur á heimavelli. Það líta allir á hann núna sem krónprinsinn. Samið var um skiptingu valda og því fær hann umbun þess að hafa beðið og öðlast enn meiri reynslu á meðan að sá hinn reyndasti fær loksins að njóta ævimarkmiðsins. Valið á Jacqui Smith sem innanríkisráðherra var ennfremur mjög táknrænt og kom mjög að óvörum.

Þegar að litið er yfir ráðherraval Browns sést best að hann felur yngri mönnum umtalsverð tækifæri. Með öðrum orðum; hann er að byggja upp næstu kynslóð flokksmanna til valda. Þetta gerði Tony Blair ekki. Gott dæmi var þegar að hann sparkaði Jack Straw úr utanríkismálunum. Þá valdi hann hina lífsreyndu Margaret Beckett á póstinn, þrátt fyrir að flestir töldu hennar tíma svo til liðinn. Þá valdi hann ekki Miliband, þrátt fyrir sögusagnir, sem hefði með því getað byggt hann upp sem leiðtogakandidat gegn Gordon Brown. Beckett fékk grimmileg örlög í uppstokkun Browns.

En nú hefur David Miliband fengið tækifærið. Það er samt engin greið og bein leið fyrir hann til valda síðar meir. Utanríkisráðuneytið verður honum mikil eldskírn. Þar mun reyna á hann. Ég held að Gordon Brown ætli honum mikil völd og ég held að hinn ungi utanríkisráðherra verði mun meira áberandi en forverar hans á valdaferli flokksins undanfarin tíu ár, því ég tel að Brown ætli sér að vera leiðtogi innanríkismálanna. En í eldskírn felast tækifæri. Þetta veit hinn ungi og öflugi vel.

Ótrúleg viðbrögð - ungum manni hótað dauða

Viðbrögðin við dauða hundsins Lúkasar hafa verið ótrúlega mikil og reiði fólks virðist gríðarleg vegna málsins. Það er óhætt að segja að sá sem sakaður er um að hafa drepið hundinn hafi fundið fyrir því. Honum hefur verið hótað með morðhótunum og svívirðingum og hann varð að loka bloggsíðu sinni þar sem hún allt að því drukknaði í hótunum og hatursskilaboðum. Nafn hans hefur verið opinberað og stendur hann því algjörlega berskjaldaður í raun. Það er varla hægt að segja allavega að hann eigi náðuga daga.

Það verður fróðlegt að sjá hvað tekur við, en það er alveg ljóst að rannsaka þarf þetta mál og þessi maður þarf að fara yfir sín mál. Það sést vel af þessu máli að fólki býður við málavöxtum og þetta mál hefur kallað á gríðarlega sterk viðbrögð. Það er þó engin lausn að ráðast á manninn fyrirfram og málið þarf að hafa sinn gang. Það er enginn vandi leystur að ráðast að viðkomandi manni með þessum hætti fyrir lok rannsóknar, en það þarf að fara yfir þetta mál með eðlilegum hætti að mínu mati.

Um er að ræða viðkvæmt mál, en það hlýtur að vera komið í ferli eins og staðan er núna. Það er mikilvægt að fara yfir þætti þessa máls og taka á því, enda er þetta það ógeðfellt mál og það er alveg ljóst að lýsingar málsins hafa leitt til ótrúlegrar atburðarásar, enda er fólki nóg boðið yfir þeim hrottaskap sem virðist hafa fylgt drápinu á hundinum.

mbl.is Morðhótunum rignir yfir ungan mann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband