Hryðjuverk í Skotlandi - hæsta viðbúnaðarstig

Hryðjuverk Það er öllum ljóst nú að hrina hryðjuverka vofir yfir Bretlandi eftir að hryðjuverk átti sér stað á flugvellinum í Glasgow í dag þegar að logandi bifreið, fullri af bensíni, var ekið inn í flugstöðina þar. Tveir menn voru í bílnum, á öðrum þeirra fannst svokallað sjálfsmorðsbelti. Hæsta viðbúnaðarstig hefur verið sett á í Bretlandi, í fyrsta skipti frá hryðjuverkunum í London í júlímánuði 2005.

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með bresku fréttastöðvunum í kvöld og fara yfir atburði dagsins og auðvitað dagsins í gær ennfremur, enda er greinilegt að þessi bílsprengjutilfelli sem eru í Glasgow og London tengjast með áberandi hætti. Bresk yfirvöld hafa staðfest líkindi með tilfellunum. Það er auðvitað mikið áhyggjuefni að þetta ástand hefur færst út fyrir London og staðfestir að sótt er að Bretlandi af hryðjuverkamönnum þessa dagana, fyrstu daga forsætisráðherraferils Gordons Brown.

Gordon Brown flutti mjög gott ávarp í kvöld til bresku þjóðarinnar. Þar tilkynnti hann um hækkun viðbúnaðarstigs í hæstu mörk og að árásin í Glasgow væri hryðjuverk. Hann var alvarlegur en talaði mjög skýrt og ákveðið. Það er auðvitað uggur í Bretum nú. Það ætti reyndar að gilda um alla Evrópu. Þessi ógn er orðin of afgerandi og markviss til að ekki sé tekið mark á henni. Þetta er grafalvarlegt mál að öllu leyti. Þetta er líka nýr veruleiki fyrir okkur enda erum við stödd hér í þriggja tíma flugfjarlægð og algjör fjarstæða orðið að tala um að við séum öll óhult á þessum tímum alheimshryðjuverka.

Það reynir mjög þessa dagana á bresk yfirvöld. Gordon Brown var í áratug fjármálaráðherra og ekki í sviðsljósi slíkrar ógnar áður. Sama má segja um Jacqui Smith sem hefur aðeins verið innanríkisráðherra Bretlands í tvo sólarhringa. Það má reyndar segja að nú reyni á almenning allan í Bretlandi við þessi tíðindi. Það eru auðvitað afar vondar fregnir ef svo er að hryðjuverkaógnin sé að færast út fyrir London og svona tilvik í friðsælu Skotlandi er auðvitað stórfregnir og viðbúnaðarstig þar varla verið hærra frá því að Pan Am flugvélinni var grandað í Lockerbie fyrir tveim áratugum.

Það verður vel fylgst með fregnum næstu daga en í Bretlandi er fólk greinilega hætt að tala um að hryðjuverkaváin sé ekki til staðar. Það sanna atvik síðustu tveggja sólarhringa afar vel. Staðan er of óljós til að efast sé um að sönn ógn er til staðar.

Hryðjuverkaógnin vofir sem mara yfir London

mbl.is Fjórir í haldi vegna árása í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttaþulur trompast vegna fréttar um París Hilton

Mika Brzezinski Ég held að allt hugsandi fólk sé búið að fá gjörsamlega upp í kok yfir fréttunum af fangapíslinni París Hilton. Fréttaþulurinn Mika Brzezinski er greinilega ein þeirra en hún trompaðist gjörsamlega þegar að lesa átti eina fréttina enn um Hilton í morgunþætti á MSNBC, og það á undan alvörufréttum að hennar mati.

Það er alveg magnað að sjá klippuna þar sem að hún reynir að kveikja í fréttinni en fer síðar með hana í tætarann. Hvað varðar fröken Hilton hefur hún verið dugleg að halda áfram athyglinni á sér eftir að hún slapp úr fangelsi fyrir "góða hegðun" og hefur t.d. farið í viðtal hjá Larry King á CNN. Mómentið þegar að hún slapp úr fangelsi var kostulegt, en þar voru allir fjölmiðlar og eltu hana eins og þjóðhöfðingja. Flestum gleymist vart mómentið þegar að hún var sótt í beinni, meira að segja á vísir.is.

Mika Brzezinski var huguð að gera þetta og þetta vakti allavega mikla athygli. Eftir því sem fréttirnar segja er París núna á Hawaii með dökka hárkollu og stráhatt svo að enginn þekki hana. Ætli að hún sé líka búin að fá leið á athyglinni?

mbl.is Fréttaþulur neitaði að byrja á frétt um París Hilton
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryðjuverkaógnin vofir sem mara yfir London

Gordon BrownEftir viku eru tvö ár liðin frá hryðjuverkunum í London sem skóku þessa rómuðu heimsborg og minntu íbúa í Evrópu á það að hryðjuverkaógnin er ekki síst til staðar þar á okkar tímum. Í þessari viku hafa íbúar London verið minntir á að sú ógn er enn til staðar í borginni. Lengi vel hefur verið látið í það skína að sú ógn tengist aðeins þjóðhöfðingjum sem hryðjuverkasamtökum líki illa við. Það má vel vera að það sé reynt að höggva að þeim með slíku en ógnin sem slík beinist gegn venjulegu fólki.

Hryðjuverkaárásin í London í júlí 2005 var líkt og hryðjuverkaárásin í Madrid í mars 2004 bæði ófyrirleitin og grimmdarleg. Henni var einvörðungu beint gegn saklausum borgurum. Ætlunin var í senn bæði að myrða og særa óbreytta borgara. Árásunum var ekki beint að þjóðarleiðtogum eða hefðarfólki. Þeir sem féllu í valinn, særðust og urðu fyrir henni að einhverju leyti er saklaust fólk, venjulegt fólk í London og Madríd, af ólíkum uppruna sem ekkert hefur sér til sakar unnið og var aðeins á röngum stað á röngum tíma. Það er hin napra staðreynd slíkra óhæfuverka.

Þetta vitum við annars öll. Það veit enda enginn hver verður fyrir slíku og á hvaða tíma það verður. Ekki heldur að hverjum það er beint. Eflaust átti að tímastilla þessar árásir vegna valdaskiptanna í Bretlandi. Tony Blair hefur látið af öllum pólitískum völdum og er horfinn úr sviðsljósi þess sem gerist á alþjóðavettvangi í raun. Þessar árásir eru skilaboð til Gordons Brown, forsætisráðherra Bretlands, um það að þessi ógn er ekki á enda runnin, ógnin er ekki að baki. Þetta eru reyndar líka skilaboð til hans um að skuggar liðinna tíma fylgja honum eftir við valdaskiptin. Hryðjuverkasamtökin gleyma engu og þó að nýr forsætisráðherra taki við völdum er hann enn andlit sömu ríkisstjórnar og studdi Íraksstríðið með áberandi hætti.

Þessi staða er vissulega mikil eldskírn fyrir Jacqui Smith, nýjan innanríkisráðherra Bretlands, sem er fyrsta konan á þeim valdastóli. Hún var varla búin að koma sér fyrir á ráðherraskrifstofunni í London þegar að ógnin vaknaði aftur, tveim árum eftir hryðjuverkaárásirnar. Hún stóð sig vel í gær við að tjá sig um þessi mál og fara yfir. Hún er nú orðin stjórnmálamaður í sannkallaðri eldlínu. Hún hefur gott fólk sér við hlið. Brown forsætisráðherra hefur valið fjöldann allan af reyndu fólki til að fara yfir þessa ógn og hafði reyndar kaldhæðnislega séð valið þann hóp áður en þessi ógn vaknaði í gær. Það er greinilegt að nýr forsætisráðherra Bretlands ætlar sér ekki að sofa á verðinum.

Það stefndi allt í það að Gordon Brown ætlaði sér að verða leiðtogi innanríkismálanna, vera forsætisráðherra sem hugsaði um málefnin inn á við. Það sást vel af áherslum hans í heilbrigðis- og menntamálum, en hann splittaði upp gamla menntamálaráðuneytinu. Það gæti breyst dramatískt vakni ógnin enn meir en nú er. Þá verður hann að hugsa meira út fyrir Bretland, enda kemur ógnin í raun þaðan þó að henni sé beint til breskra þegna. Hann virðist hafa valið mjög góðan hóp fólks til verka og er viðbúinn öllu.

Það er þegar ljóst á fyrstu dögum forsætisráðherraferils Browns að skuggar liðinna tíma á alþjóðavettvangi eru ekki að baki og sú ógn sem varð í London fyrir tveim árum getur vaknað á ný. Atburðir síðustu daga sýna svo ekki verði um villst að allt getur gerst.


mbl.is "London verður sprengd"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgi Rafn segist ekki hafa drepið hundinn Lúkas

Það hefur eflaust ekki verið nein sæla undanfarna daga að vera Helgi Rafn Brynjarsson. Hann hefur verið sakaður um að hafa drepið hundinn Lúkas og í kjölfarið verið hótað öllu illu með mjög áberandi hætti. Hann þurfti að loka vefsíðu sinni og hefur fengið vægast sagt kuldalegar hótanir í SMS-skilaboðum og tölvupósti. Það er mjög langt síðan að einum manni hefur verið hótað með jafn áberandi hætti og honum. Hann segist vera saklaus af því að hafa drepið hundinn og ætlar að reyna að hreinsa mannorð sitt með öllum tiltækum ráðum.

Helgi Rafn svaraði fyrir sig í Kastljósi í gærkvöldi og fór yfir sína hlið málsins. Ég sá þá klippu fyrst áðan og bendi þeim á sem ekki hafa enn séð að líta á það. Þetta mál hefur kallað á gríðarlega fjölmiðlaathygli. Það er mörgum mjög illa brugðið vegna þess og sitt sýnist hverjum. Eins og ég hef margoft sagt hér er engin lausn að hóta öðrum vegna þessa máls, Helga Rafni eða öðrum. Það er réttast að þetta mál verði rannsakað og öll gögn sem mögulega eru til verði könnuð betur en nú hefur verið gert.

Það leysir engan vanda að hrópa einn mann niður vegna málsins og eða að hóta honum öllu illu. Þetta mál verður að hafa sinn gang.

mbl.is Hreinsa mannorð mitt með öllum ráðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Al Gore gefa kost á sér í forsetakjörinu?

Al Gore Skv. nýjustu skoðanakönnunum vestanhafs á Al Gore raunhæfa möguleika á að vinna tilnefningu demókrata í forsetakjöri eftir sextán mánuði myndi hann sækjast eftir henni. Sá frambjóðandi sem verst færi á framboði hans yrði Hillary Rodham Clinton, eiginkona meðframbjóðanda Gore í tvennum forsetakosningum á tíunda áratugnum. Framboð Gore myndi skv. því koma í veg fyrir sigur Hillary og gera forkosningarnar að slag milli Gore og Obama. Þessi könnun hefur hleypt lífi í vangaveltur stjórnmálaspekinga.

Um þessar mundir eru rúm sex ár síðan að Al Gore hvarf úr miðpunkti stjórnmálaumræðu eftir að hafa naumlega mistekist að verða forseti Bandaríkjanna í jöfnustu forsetakosningum í sögu landsins. Eftir þann langa tíma er enn talað um pólitíska endurkomu hans og hvort hann muni gefa kost á sér í forkosningum demókrata, sem hefjast eftir rúmlega hálft ár, við val á forsetaefni flokksins. Al Gore hlaut fleiri atkvæði í forsetakosningunum 2000 á landsvísu en George W. Bush en mistókst að sigra í fleiri fylkjum Bandaríkjanna og tapaði því í kjörmannasamkundunni.

Eins og flestir vita er forsetakjörið í Bandaríkjunum kosning á kjörmönnum fylkjanna. Þeir sem sigra í sem flestum fylkjum hljóta Hvíta húsið. 270 kjörmenn þarf til að hljóta hnossið. Í 36 daga börðust Gore og Bush hatrammlega eftir kjördag árið 2000 fyrir því að hljóta 25 kjörmenn Flórída-fylkis, sem skiptu sköpum. Hefði Gore hinsvegar sigrað í heimafylki sínu, Tennessee, hefði Flórída engu máli skipt og úrslitin ráðist þar. Gore var framan af örlagaríkri kosninganótt spáð sigri þar. Allar stóru fréttastöðvarnar hlupu á sig og urðu að bakka frá spádómnum. Bush hlaut fylkið er á hólminn kom en með nær engum teljanlegum mun. Flórída varð fylki örlaganna í forsetakosningunum 2000.

Gore ákvað að véfengja þau úrslit er ljóst varð að innan við 1000 atkvæði skildu að. Fór hann fyrir dómstóla með mál sitt og reyndi að hnekkja staðfestum úrslitum í fylkinu og krafðist algjörrar endurtalningar allra atkvæðaseðla. Eftir lagaströggl og deilur í tæpa 40 daga viðurkenndi Gore loks ósigur sinn þann 13. desember 2000 eftir að hæstiréttur Bandaríkjanna hafði fellt þann úrskurð sinn að Bush hefði unnið Flórída og ekki yrði um frekari endurtalningar að ræða. Dómurinn var þó ekki einróma í því mati og skiptist eftir frægum sögulegum fylkingum í forsetatíð William H. Rehnquist í réttinum, árin 1986-2005. Gore fór sár af velli átakanna. Naumari gat tapið ekki orðið.

Richard M. Nixon og Al Gore eiga það sameiginlegt að hafa tapað naumlega forsetakosningum meðan að þeir gegndu embætti varaforseta. Báðir tóku þeir tapið gríðarlega nærri sér. Merkilega margt er líkt með sálrænu áfalli þeirra eftir tapið. Nixon tapaði fyrir John F. Kennedy með svo naumum hætti að lengi vel var óvíst um úrslitin. Deilt var um úrslitin í Illinois meðal annars. Ólíkt Gore véfengdi Nixon ekki stöðu mála þar og bakkaði frá stöðu mála. Ósigur Gore var mun tæpari en Nixons fjörutíu árum áður. Það hefur margt verið rætt og ritað um tap Nixons. Hann var brennimerktur af því alla tíð. Gore gekk í gegnum svipaðan sálrænan öldudal.

Nixon tókst að eiga sér endurkomu. Hann gaf kost á sér í forsetakosningunum 1968. Framan af benti flest til þess að keppinautur hans í kosningunum yrði Robert F. Kennedy, bróðir Kennedys forseta, sem sigraði Nixon átta árum áður. Það hefði orðið söguleg rimma og athyglisverð. Af henni varð ekki. Kennedy var myrtur í Los Angeles eftir forkosningasigur í júní 1968 með sama sjónræna skelfilega hættinum í kastljósi fjölmiðlanna og bróðir hans fimm árum áður. Keppinautur Nixons varð Hubert Humphrey, varaforseti Johnson-stjórnarinnar. Nixon vann kosningarnar naumlega. Forsetaferill hans varð stormasamur en honum tókst að ná endurkjöri árið 1972.

Richard Nixon neyddist til að segja af sér vegna Watergate-hneykslisins árið 1974, fyrstur forseta í sögu landsins. Það voru söguleg endalok en forsetaferill hans lamaðist vegna þessa umdeildasta pólitíska hneykslismáls sögunnar. Það verður seint sagt að Nixon og Gore eigi pólitískt margt sameiginlegt. Um margt voru þeir sem dagur og nótt. Bitur reynsla þeirra við tap í forsetakosningum er þó kaldhæðnislega lík þegar á er litið. Báðir mörkuðust þeir alla tíð af tapinu. Nixon tókst að eiga sér endurkomu og eiga söguleg ár á forsetastóli, með mörgum afrekum á vettvangi utanríkismála. Þau féllu þó öll í skugga pólitískra endaloka hans, en valdaferlinum lauk með skömm.

Al Gore er sagður vera að hugsa stöðu sína. Margir telja hann eitt sterkasta forsetaefni flokksins þrátt fyrir mistækan stjórnmálaferil sem markast af góðum og slæmum dögum í stjórnmálum. Lykiltromp Gore er fyrst og fremst pólitísk reynsla. Hann var varaforseti Bandaríkjanna á tímum Clinton-stjórnarinnar 1993-2001 og hefur reynslu á vettvangi alþjóðastjórnmála og málum í Washington. Barátta hans í umhverfismálum hefur líka markað honum aðra tilveru sem gæti orðið honum drjúg er á hólminn kemur, en honum tókst að hljóta óskarsverðlaunin í febrúar fyrir mynd sína, An Inconvenient Truth.

Það verður fróðlegt að sjá hvort að Al Gore snýr aftur á pólitíska sviðið í aðdraganda kosninganna þar sem eftirmaður keppinautar hans í sögulegustu forsetakosningum Bandaríkjanna frá upphafi verður valinn. Þessi nýja skoðanakönnun sýnir vel að hann á sér möguleika. Færi hann fram gæti hann með réttu haldið því fram að ekki sé eining um kandidata demókrata. Sama virðist vera með repúblikana, þar eru mjög skiptar skoðanir um frambjóðendur og staða flokksins virðist vera mjög slæm í ljósi sífellt meiri óvinsælda Bush forseta.

Það stefnir svo sannarlega í spennandi forsetakosningar í Bandaríkjunum. Slagurinn er löngu hafinn þó að enn séu rúmir sextán mánuðir til kjördags, sem verður þriðjudaginn 4. nóvember 2008. Það er löng leið til þess dags og með öllu óvíst hverjir berjist þá um hnossið og hverjir lifi pólitískt af forkosningarnar sem hefjast í janúar.

Gore could still steal the show
umfjöllun Guardian um könnunina


Bloggfærslur 30. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband