Hryðjuverk í Skotlandi - hæsta viðbúnaðarstig

Hryðjuverk Það er öllum ljóst nú að hrina hryðjuverka vofir yfir Bretlandi eftir að hryðjuverk átti sér stað á flugvellinum í Glasgow í dag þegar að logandi bifreið, fullri af bensíni, var ekið inn í flugstöðina þar. Tveir menn voru í bílnum, á öðrum þeirra fannst svokallað sjálfsmorðsbelti. Hæsta viðbúnaðarstig hefur verið sett á í Bretlandi, í fyrsta skipti frá hryðjuverkunum í London í júlímánuði 2005.

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með bresku fréttastöðvunum í kvöld og fara yfir atburði dagsins og auðvitað dagsins í gær ennfremur, enda er greinilegt að þessi bílsprengjutilfelli sem eru í Glasgow og London tengjast með áberandi hætti. Bresk yfirvöld hafa staðfest líkindi með tilfellunum. Það er auðvitað mikið áhyggjuefni að þetta ástand hefur færst út fyrir London og staðfestir að sótt er að Bretlandi af hryðjuverkamönnum þessa dagana, fyrstu daga forsætisráðherraferils Gordons Brown.

Gordon Brown flutti mjög gott ávarp í kvöld til bresku þjóðarinnar. Þar tilkynnti hann um hækkun viðbúnaðarstigs í hæstu mörk og að árásin í Glasgow væri hryðjuverk. Hann var alvarlegur en talaði mjög skýrt og ákveðið. Það er auðvitað uggur í Bretum nú. Það ætti reyndar að gilda um alla Evrópu. Þessi ógn er orðin of afgerandi og markviss til að ekki sé tekið mark á henni. Þetta er grafalvarlegt mál að öllu leyti. Þetta er líka nýr veruleiki fyrir okkur enda erum við stödd hér í þriggja tíma flugfjarlægð og algjör fjarstæða orðið að tala um að við séum öll óhult á þessum tímum alheimshryðjuverka.

Það reynir mjög þessa dagana á bresk yfirvöld. Gordon Brown var í áratug fjármálaráðherra og ekki í sviðsljósi slíkrar ógnar áður. Sama má segja um Jacqui Smith sem hefur aðeins verið innanríkisráðherra Bretlands í tvo sólarhringa. Það má reyndar segja að nú reyni á almenning allan í Bretlandi við þessi tíðindi. Það eru auðvitað afar vondar fregnir ef svo er að hryðjuverkaógnin sé að færast út fyrir London og svona tilvik í friðsælu Skotlandi er auðvitað stórfregnir og viðbúnaðarstig þar varla verið hærra frá því að Pan Am flugvélinni var grandað í Lockerbie fyrir tveim áratugum.

Það verður vel fylgst með fregnum næstu daga en í Bretlandi er fólk greinilega hætt að tala um að hryðjuverkaváin sé ekki til staðar. Það sanna atvik síðustu tveggja sólarhringa afar vel. Staðan er of óljós til að efast sé um að sönn ógn er til staðar.

Hryðjuverkaógnin vofir sem mara yfir London

mbl.is Fjórir í haldi vegna árása í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Já þetta er alveg ferlegt. Vonandi nær lögreglan að vera alltaf skrefi á undan til að koma í veg fyrir þessa hryðjuverkaöldu sem virðist vera skollin á. 

Marinó Már Marinósson, 30.6.2007 kl. 23:03

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentið Marinó. Vonandi mun þetta allt fara vel.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 1.7.2007 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband