Mun Ólafur Ragnar halda áfram á forsetastóli?

Ólafur Ragnar Í dag er ár þar til að þriðja kjörtímabili Ólafs Ragnars Grímssonar á forsetastóli lýkur. Hann hefur nú verið forseti Íslands í ellefu ár, eða frá 1. ágúst 1996. Spurningar eru því farnar að vakna um hvort að hann muni sækjast eftir endurkjöri að vori eða draga sig í hlé. Ólafur Ragnar verður 65 ára á næsta ári, eða ári yngri en Vigdís Finnbogadóttir var er hún ákvað að gefa ekki kost á sér í forsetakosningunum 1996.

Fari Ólafur Ragnar fram aftur mun hann feta í fótspor Ásgeirs Ásgeirssonar og Vigdísar Finnbogadóttur, sem gáfu kost á sér fjórum sinnum á forsetastól. Ólafur Ragnar Grímsson sagði í kosningabaráttunni 1996 reyndar að átta ár væru hæfilegur tími á forsetastóli en sóttist engu að síður eftir að sitja hið þriðja. Eins og flestir vita hafa nú verið lögð drög að ævisögu Ólafs Ragnars sem eigi að koma út fyrir jólin. Margir þykjast telja að þar verði um uppgjörsbók að ræða á atburðum forsetaferilsins umfram allt.

Persónan sem er miðpunktur hennar hefur búið á forsetasetrinu að Bessastöðum nú í ellefu ár og hefur upplifað sorgir og gleði þar. Ólafur Ragnar Grímsson hefur alltaf verið umdeildur maður. Honum tókst að kasta af sér grímu umdeilds stjórnmálamanns árið 1996 með athyglisverðum hætti og hljóta atkvæði fólks úr ólíkum áttum, meira að segja þeirra sem aldrei hefðu kosið hann í þingkosningum, eftir skrautlegan stjórnmálaferil í forystu Alþýðubandalagsins og sem óvinsæll fjármálaráðherra sem sýndur var í gervi Skattmanns í Áramótaskaupi ein áramótin er hann sat á ráðherrastóli. Honum tókst að byggja nýja ímynd, allt í einu varð pólitíski klækjarefurinn að reffilegum statesman sem lækkaði röddina og breytti sér úr vígreifu ljóni í ljúfasta lamb.

Stóra stjarna forsetakosninganna 1996 var þó ekki síður Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, fyrri eiginkona Ólafs Ragnars, sem lék lykilrullu í sigrinum mikla. Þau voru saman í forsetaframboði og hún markaði sér annan sess en eiginkonur fyrri forsetaframbjóðanda og var þungamiðja í baráttunni, einkum þó sem formaður stuðningsmannafélags hans sem hélt utan um baráttuna. Guðrún Katrín sló í gegn og tók virkan þátt í baráttunni uns yfir lak. Hún var ekki síður hinn afgerandi sigurvegari júníkvöldið þegar að Ólafur Ragnar tók kjöri eftir að hafa tekist að vinna kosningarnar með glæsibrag.

Guðrún Katrín varð stór hluti forsetaembættisins við forsetaskiptin - hún hafði lykilstöðu og var ekki bara settleg eiginkona forseta, hún var ólík fyrri forsetafrúm þjóðarinnar. Hennar naut þó ekki lengi við. Hún greindist með hvítblæði rúmi ári eftir kjör Ólafs Ragnars og eftir erfiða meðferð við meininu virtist henni hafa tekist að yfirstíga veikindin. Bakslagið kom í júní 1998. Hún greindist aftur og hélt til Seattle þar sem hinsta vonin var til staðar á krabbameinsstofnun. Allt kom fyrir ekki. Guðrún Katrín lést í október 1998. Hún var íslensku þjóðinni harmdauði.

Þjóðarsorg var í landinu þessa októberdaga er komið var með líkkistu hennar heim í haustkaldri snjókomu og hún var kvödd. Andlát hennar var gríðarlegt áfall fyrir forsetann og hann gekk þá í gegnum sína erfiðustu daga á embættisferlinum. Það verður fróðlegt að lesa umfjöllun um þessa dimmu daga er forsetinn kvaddi eiginkonu sína í kastljósi fjölmiðlanna. En hann fann hamingjuna að nýju hjá Dorrit Moussaieff nokkru eftir lát Guðrúnar Katrínar og þau giftust við rólega athöfn að Bessastöðum á sextugsafmæli forsetans.

Pólitísk átök hafa orðið á forsetaferli Ólafs Ragnars. Allir muna eftir örlagadeginum mikla 2. júní 2004 þegar að hann synjaði fjölmiðlalögum staðfestingar og beitti málskotsréttinum margfræga, 26. grein stjórnarskrár, í beinni sjónvarpsútsendingu á dramatískum blaðamannafundi á Bessastöðum. Hinn dauði bókstafur laganna, eins og Ólafur Ragnar kallaði hann árið 1977, lifnaði við í örlagaríkri ákvörðun hans. Áralöng átök Davíðs Oddssonar og Ólafs Ragnars urðu umfjöllunarefni í fréttatímum og fræg gjá myndaðist milli aðila.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur vissulega frá mörgu að segja. Árin ellefu á Bessastöðum hafa verið örlagaríkur tími á ævi hans og verið eftirminnilegur tími, einkum pólitískt, í sögu landsins. Eflaust mun frásögn af þeim verða áhugaverð í bókaskrifum. En bókin kemur á þeim tímapunkti að þriðja kjörtímabil Ólafs Ragnars Grímssonar rennur brátt sitt skeið. Ákvörðun um framhaldið er handan við hornið.

Er bókin uppgjör við litríkan forsetaferil að leiðarlokum eða er hún hinn dramatíski upphafspunktur þess að Ólafur Ragnar Grímsson feti í fótspor Ásgeirs Ásgeirssonar og Vigdísar Finnbogadóttur; horfi til fjórða kjörtímabilsins? Þegar að stórt er spurt verður víst æði oft fátt um svör. Það eru þó örlagaríkir tímar framundan fyrir húsbóndann á Bessastöðum hvort sem verður ofan á að lokum.

Bloggfærslur 1. ágúst 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband