18.1.2008 | 21:50
Kaupa framsóknarmenn fötin handa Birni Inga?
Fyrstu viðbrögð mín við þessari frétt í kvöld voru eiginlega hlátur, langt hláturskast. Þessi flokkur þarf ekki andstæðinga tel ég. Hann er að klára sig alveg innbyrðis. Er nokkur furða þó að pólitískir sérfræðingar séu hættir að velta þessum flokki fyrir sér. Hann er nær algjörlega valdalaus orðinn í samfélaginu utan við lykilstöðu Björns Inga í borgarmálunum, sem hann hélt þrátt fyrir að fara í fjögurra framboða meirihluta í Reykjavík og vera mun minni en leifarnar af Frjálslynda flokknum í borgarstjórn. Einu sinni var þetta virtur flokkur valdanna, naut virðingar víða og margir voru hræddir við hann. Nú virðist hann vera á leiðinni fyrir ætternisstapann.
Það virðist vera að Framsóknarflokkurinn sé í sjálfsmorðsherferð þessa dagana. Það er freistandi að halda það sé tekið mið af ásökunum Guðjóns Ólafs í garð Björns Inga Hrafnssonar. Þetta er deyjandi flokkur, hann er að taka síðustu andköfin. Kannski brotnar hann endanlega upp þegar að tekist verður á um formennskuna á næsta flokksþingi. Það vita það allir að það verður harkalegt uppgjör þar, kannski síðasta einvígið, þegar að hjólað verður í Guðna. Það mun gerast rokki Framsókn áfram í tíu prósentum eða minna, sem er söguleg afhroðsmæling fyrir Framsókn, hvað þá verandi í stjórnarandstöðu.
Það vakti athygli mína að Björn Ingi neitaði engu í málflutningi Guðjóns Ólafs. Þetta var svona ámótlegt væl líkt og rétt áður en hann faðmaði Alfreð Þorsteinsson á flokksfundi eftir meirihlutaslitin í Reykjavík. Það virðist vera að hitna undir Birni Inga innan eigin flokks. Það er greinilegt að ólgan með hann er ekki bara bundin við andstæðinga hans, hann ætti kannski að fara að passa sig á því hverjir eru í biðröðinni eftir því að taka í hann innan eigin raða.
Kannski verður það stóra baráttan, eftir allt saman, sem hann á framundan. Ætli hann verði gerður upp innan eigin raða fyrir næstu kosningar, þegar að þetta þingmannslausa flak í borginni ætlar sér að reyna að ná borgarfulltrúasæti aftur? Ja, spennandi verður það að sjá maður minn!
![]() |
Gagnrýnir fatapeninga framsóknarmanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.1.2008 | 16:46
Svandís Svavarsdóttir slasast - lélegur aðbúnaður

----
Mér finnst það nú heldur lélegur aðbúnaður fyrir farþega hjá Flugfélagi Íslands þegar að sæti farþeganna losnar í flugferðinni með þessum hætti. Nógu dýrt er fargjaldið í innanlandsfluginu þó að farþegar eigi það ekki á hættu að lenda í svona aðstæðum í ferðinni eða slasast vegna þess, allt vegna þess að búið er illa að fólki. Það verður allavega áhugavert að sjá hvað kemur út úr rannsókn á þessu atviki, enda blasir við öllum að það er fjarri því eðlilegt að svona gerist.
Þegar að við kaupum okkur flugmiða erum við flest að velja öruggan ferðamáta og vonumst væntanlega eftir því að búið sé vel að okkur sem farþegum, öryggi okkar sé tryggt eftir fremsta megni - allavega að sætin sem við sitjum í geti ekki losnað. Þegar að það gerist er eðlilegt að kanna öryggið og hvað hafi farið úrskeiðis í eftirliti.
![]() |
Sæti losnaði í flugvél |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.1.2008 | 12:33
Bobby Fischer látinn
Bobby Fischer, fyrrum heimsmeistari í skák, er látinn, 65 ára að aldri. Það verður ekki um það deilt að Bobby var einn fremsti meistarinn í skáksögunni og markaði söguna er hann varð heimsmeistari í skák í Reykjavík á hinu sögulega heimsmeistaramóti gegn Boris Spassky í september 1972, er hann varð fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að vinna titilinn. Fischer var þó sérlundaður meistari sem fór eigin leiðir og lét aldrei vel að stjórn.
Fyrst vildi Fischer ekki koma til Íslands og tefla og þurfti atbeina Nixons Bandaríkjaforseta og Henry Kissinger til að hann færi hingað og tæki slaginn. Þetta var litrík saga og eftirminnileg, en henni lauk með sögulegum sigri Fischers. Í seinni tíð var skákmeistarinn upp á kant við bandarísk stjórnvöld. Bandarísk yfirvöld óskuðu eftir því að fá Fischer framseldan til Bandaríkjanna, þar sem hann átti yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsi fyrir að brjóta viðskiptabann Bandaríkjanna gegn Júgóslavíu með því að tefla við Boris Spassky í Belgrad haustið 1992. Eftir að þau átök hófust fór hann ekki til Bandaríkjanna.
Deilurnar tóku á sig dramatíska mynd er hann var hnepptur í varðhald í Japan sumarið 2004. Í kjölfarið ákváðu íslensk stjórnvöld að leggja Fischer liðsinni sitt og hlaut hann dvalarleyfi á Íslandi í desember 2004. Það dugði þó ekki til að Fischer væri sleppt úr varðhaldi. Lauk málinu með því að Davíð Oddsson, þáverandi utanríkisráðherra, beitti sér sérstaklega fyrir því að Fischer hlyti íslenskan ríkisborgararétt og fór það endanlega í gegn á Alþingi í mars 2005. Í kjölfar þess var Fischer sleppt úr varðhaldi og hann kom til Íslands sem íslenskur ríkisborgari á skírdag, í mars 2005. Frá þeim tíma og til dauðadags dvaldi Fischer í sínu nýja föðurlandi, Íslandi.
Það er kaldhæðnislegt að Bobby Fischer skuli deyja á sama degi og Davíð Oddsson, fyrrum utanríkis- og forsætisráðherra, fagnar sextugsafmæli sínu. Fáir menn leiddu betur og af meiri krafti þá ákvörðun í gegnum stjórnkerfið að Fischer yrði íslenskur ríkisborgari og kæmi hingað til lands, yrði hnepptur úr varðhaldi, en Davíð. Í þeim efnum sýndi Davíð eftirminnilega forystu og það má fullyrða að Fischer hefði varla fengið ríkisborgararéttinn með þessum hætti nema að það hefði verið leitt af þeim krafti sem einkenndi forystu Davíðs.
Var það umdeild ákvörðun, en að mínu mati sú rétta er á hólminn kom. Við getum verið stolt af því að hafa lagt þessum sögufræga skákmanni, þeim besta til þessa að mínu mati, lið á örlagastundu. Það sem var þó til skammar á þeim tímapunkti var fjölmiðlaumgjörðin utan um heimkomu hans en þar var farið einum of langt í markaðssetningu vissra aðila á skákmeistaranum, en honum var flogið hingað heim af eigendum sömu stöðvar. Skrifaði ég langan pistil um það á þeim tíma.
Með Bobby Fischer er fallinn í valinn goðsögn í lifanda lífi - sannur meistari skákheimsins, maður sem markaði söguleg skref á ferli sínum og fetaði eigin leiðir. Hann var eigin herra, vissulega uppreisnarsinni sem lét ekki vel að stjórn. Hann stóð og féll með sannfæringu sinni og krafti og það framlag verður að virða, þó ekki hafi mögulega allir verið sammála honum.
Ég vil votta fjölskyldu og vinum skákmeistarans, þeim sem studdu Bobby Fischer í gegnum síðasta kafla ævi hans - er gaf á bátinn og hann þurfti virkilega á aðstoð að halda, innilega samúð mína við andlát hans. Það er ánægjulegt að Fischer gat dáið hér á Íslandi sem frjáls maður en ekki fangi í fjarlægu fangelsi.
Minningin um mikla goðsögn og meistara skáklistarinnar mun lifa.
![]() |
Bobby Fischer látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.1.2008 | 09:50
Sorglegt

Það var fastur liður í ferðum á Krókinn að fara á Kaffi Krók og fá sér að borða, enda mjög flottur veitingastaður og maturinn jafnan mjög góður. Fór þar síðast fyrir aðeins nokkrum vikum og fékk mér ljúffengan BBQ-borgara með alles. Frábær staður og sá besti að mínu mati á Króknum. En fleiri verða ferðirnar ekki á Kaffi Krók í bráð, en það er vonandi að eigendur staðarins láti þessa hörmung ekki stöðva sig.
Það er alltaf sorglegt að heyra af eldsvoðum, en þegar að hús með merka sögu fuðra upp með þessum hætti verður það enn dapurlegra og vonandi verður það endurbyggt í einhverri mynd.
![]() |
Stórbruni á Sauðárkróki í nótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2008 | 01:11
Skuggaleg katastrófa hjá landsliðinu
Það leikur enginn vafi á því að tap landsliðsins fyrir Svíum í kvöld er eitt hið versta á síðustu árum. Það er orðið nokkuð langt síðan að við höfum séð aðra eins katastrófu, þar sem einhvern veginn allt klikkaði og lánleysið var algjört. Greinilegt er að þjóðin var undrandi, svo skömmu eftir góðan árangur og flott samspil leikmanna gegn Tékkum. Í kvöld var liðið varla skugginn af þeirri sigursveit.
Það er þjóðargleði þegar að landsliðinu gengur vel en að sama skapi leggst yfir þjóðarþunglyndi, eða allt að því á skammdegisdögunum þegar að þessi janúarmót eru, ef illa gengur. Þessi leikur var hið versta sem ég man eftir lengi, sennilega frá mótinu 2005, þar sem við fórum heim á vondum tímapunkti og klikkuðum svakalega. Það sem var verst við kvöldið var að það var enginn ljós punktur og flatneskjan var algjört. Þetta var liggur við eins og að horfa á stillimyndina, slow-motion hreyfingarnar og þreytumerkin, lánleysið og tómleikinn, skein í gegn. Þetta var skuggalegt upphaf á mótinu.
Það eru orð að sönnu hjá Guðjóni Val, íþróttamanni ársins 2006 og handboltasnillingi, að nú þarf liðið í naflaskoðun og finna sig aftur. Það er þó ekki langur tími til stefnu fyrir þá vinnu, þar eru aðeins nokkrir dagar undir og greinilegt að nota verður vel þá tvo sólarhringa sem eru fram að næsta leik að snúa ógæfunni í lukku. Vonandi tekst þeim það. Tíu mínútna kaflinn sem sýndi alla bestu leikmenn okkar í rusli og átakanlegt markaleysi ætti að vera þeim lexía um að gera betur og reyna að sýna sitt besta. Öll vonum við það besta og sendum bestu kveðjur út til Noregs.
![]() |
Guðjón: „Spiluðum eins og kjánar“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)