Ungliðahreyfingar í þörf fyrir áfallahjálp

Tjarnarkvartettinn fallni Það er svolítið skondið að lesa ályktun ungliðahreyfinga hins fallna vinstrimeirihluta í Reykjavík, sem fer frá völdum eftir hálfan sólarhring. Þar er talað um að upplausn fylgi nýjum meirihluta í borgarstjórn. Ég veit ekki betur en að réttkjörinn borgarfulltrúi hafi myndað meirihluta með öðrum flokki. Til þess hefur hann fulla heimild. Hann þarf ekki að fylgja öðru en eigin sannfæringu og ákvörðunum.

Meirihlutar koma og fara í sveitarstjórnum. Þannig getur hið pólitíska eðli orðið þar sem engum einum aðila eru falin völd með skýrum hætti. Vissulega er þetta sögulegt kjörtímabil í Reykjavík. Í síðustu kosningum náði enginn einn flokkur eða bandalag flokka meirihluta í borgarstjórn í fyrsta skipti frá borgarstjórnarkosningunum 1978 og semja þurfti. R-listinn hafði geispað golunni og Sjálfstæðisflokkurinn fékk ekki umboð til að leiða borgina einn, eins og kannanir höfðu bent til að gæti orðið lengi vel í kosningabaráttunni. Þá þegar var ljóst að staðan öll væri mun opnari og opið á ítalskt ástand þar sem meirihlutar gætu komið og farið, eins og gerist oft í öðrum sveitarfélögum víða um landið.

Staðan í Reykjavík er auðvitað ekki góð. En lýðræðislega kjörnir fulltrúar hafa umboð til verka. Það verður ekki kosið þó að einn meirihluti falli og stuðningsmönnum fallins meirihluta líki ekki valdaskiptin. Umboðið er fjögur ár og kjörnum fulltrúum ber sú skylda að mynda nýjan meirihluta falli sá sem fyrir er og ekkert annað er í stöðunni. Það er fjarstæða að tala um upplausn þegar að kjörinn fulltrúi með fullt umboð úr kosningum sér hag sínum ekki borgið í meirihlutasamstarfi og heldur í aðrar áttir og myndar nýjan meirihluta. Það má vel vera að vinstrisinnuðum ungmennum líki þetta ekki í Reykjavík, en það er fjarstæða að þetta sé eitthvað nýtt í pólitík.

Sjálfstæðisflokkurinn missti völdin fyrir þrem mánuðum. Þá mynduðu lýðræðislega kjörnir fulltrúar, sem höfðu meirihluta, framhjá honum, sem stærsta afli borgarstjórnar Reykjavíkur, nýtt afl til valda. Það var þeirra réttur. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hlaut ekki hreinan meirihluta og varð að sætta sig við, þó sárt væri auðvitað, að valdið gæti færst annað. Þá deildi enginn um umboð Björns Inga Hrafnssonar, sem kjörins fulltrúa, að fara annað og þær hreyfingar sem helst skæla og öskra út í valdamyrkrið nú tóku við völdum með sama hætti og gerist með nýjan meirihluta á morgun. Átta aðalmenn borgarstjórnar mynduðu nýjan meirihluta - sá fyrri féll með skelli.

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík sætti sig við það áfall. Það var ekki hans stíll að fara að starta marklausum netundirskriftasöfnunum þar sem hægt er að falsa inn hvaða nafn sem er, senda út ályktanir án þess að horfa á samhengi hlutanna eða mótmæla á fundarstað valdaskiptanna. Það er einu sinni þannig að þeir sem hafa umboð til valdasetu geta myndað nýjan meirihluta, skipt um skoðun, á hvaða tímapunkti. Það gerði Björn Ingi í október og það gerir Ólafur F. nú. Aðstæðurnar eru þær hinar sömu - nýr meirihluti hefur vald til breytinganna. Það deilir enginn um það vald, þó vissulega séu sárindi. Eðlilegt er að það séu sárindi.

En það verður að hugsa rökrétt og láta ekki eins og smábörn þegar að stjórnmál eru annars vegar.

mbl.is Ungliðahreyfingar „tjarnarkvartettsins" gefa út sameiginlega ályktun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegur íslenskur sigur á Ungverjum

Snorri skorar Það var yndislegt að sjá landsliðið taka Ungverja í kvöld - sigurinn var traustur og góður. Ekkert hik yfir okkar mönnum. Þetta er auðvitað sætur sigur eftir hin skelfilegu töp gegn Frökkum og Þjóðverjum - liðið virtist í molum og sóknarleikurinn alveg afleitur. Það var komið mikið vonleysi í þjóðina, eiginlega skammdegisþunglyndi hreint út sagt, og margir búnir að dæma mótið tapað fyrir okkur og ekkert væri í raun framundan.

Strákarnir tóku sig saman í andlitinu og sýndu okkur að þeir geta þetta alveg. Eftir því sem leið á leikinn jókst sjálfstraust þeirra og kraftur. Seinni hálfleikurinn hófst með miklum krafti og eftir þann góða kafla var aldrei vafi á hver tæki þetta. Það breytir miklu fyrir okkur að sigra í þessum leik - sálrænt séð mikilvægt! Við höfðum aðeins unnið Slóvakana fyrir þennan leik og það var eins og liðið hefði engan neista og væri aðeins skuggi þess sem það var í Þýskalandi á HM í fyrra.

En það er erfiður leikur á morgun. Vonandi náum við að taka Spánverjana og ljúka mótinu með glæsibrag. Það yrði sætt, eftir öll vonbrigðin á mótinu, að geta endað með tveim sigrum. En frábært hjá strákunum okkar og vel af sér vikið. Það er þannig að þjóðin lifir sig inn í handboltann og tap og sigur hefur áhrif á þjóðarstemmninguna. Nú er allavega glatt á hjalla hérna heima og við vonumst eftir sigri á morgun auðvitað.

mbl.is Stórsigur gegn Ungverjum á EM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Margrét Sverrisdóttir byrjuð að mýkjast upp?

Margrét Sverrisdóttir Það vekur athygli að Margrét Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi, er byrjuð að mýkjast upp og er ekki lengur eins vígreif og hún var á mánudag og í gær með yfirlýsingum sínum um að meirihlutinn stæði og félli með setu Ólafs F. Magnússonar í borgarstjórn - færi hún inn myndi hún skipta um meirihluta. Nú segist hún ekki sjá ástæður til að fella meirihlutann nýja og talar af mun meiri stillingu en áður. Það blasir við öllum að Margrét er varamaður í borgarstjórn og svo lengi sem Ólafur F. er í stjórnmálastarfi á hún ekki fast sæti þar.

Það hljómaði mjög kostulega að Margrét ætlaði sér að sprengja meirihluta framhjá kjörnum fulltrúa og ætlaði að manípúlera því umboði sem Ólafur F. hefur sem kjörinn fulltrúi og fara með umboð hans með öðrum hætti en hann myndi vilja. Með þessu er hún farin að gera það sem Gunnar Örlygsson gerði svo illt að hennar mati og hún klagaði til umboðsmanns Alþingis að fara með umboð sitt í aðrar áttir en innan þess og er farin að líta út eins og málefnalaus vindhani, þvert á það sem ætti að fylgja þessum meirihluta þar sem F-listinn er að fá mörg lykilmál sín í gegn.

En Margrét er greinilega eitthvað farin að hugsa og róa tal sitt niður. Það er þó með öllu óvíst hvað hún geri og hver pólitísk framtíð hennar er. Eins og hún bendir sjálf á nú er hún á pólitískum berangri og er farin að horfa í kringum sig eftir nýju pólitísku heimili. Fari svo að hún taki sæti í nefndum borgarinnar í nafni minnihlutans og án styrkleika listans sem hún sat á í kosningunum 2006 hefur hún sagt sig frá honum, eins og hún gerði reyndar með fréttatilkynningu í gær og er þá komin skrefi nær þeim og væntanlega þá í þeim díl að hún fari inn í annan flokk.

mbl.is Sér ekki aðstæður til að fella meirihlutann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skondin sýn á fatamál Framsóknar í Reykjavík

Af öllu sem hefur verið sagt eða myndfært af fatamáli Framsóknarflokksins er þessi mynd hiklaust það allra besta.

Bingi og jakkafatakynningin

Sviplegt fráfall ungstjörnu - sögusagnir um Ledger

Heath LedgerÞað hefur verið mjög óraunverulegt að fylgjast með fréttunum í gærkvöldi og í morgun um andlát Heath Ledger. Það er alltaf sviplegt og sorglegt þegar að einstaklingur í blóma lífsins deyr svo sviplega og eftir séu aðeins spurningar, algjörlega án augljósra svara. Sögusagnirnar og kjaftasögurnar eru það versta í slíkri stöðu og þær grassera núna, vægast sagt. Fjölmiðlarnir eru misjafnlega kurteisir í svona erfiðum aðstæðum, sumir hafa verið frekar ónærgætnir sýnist mér.

Finn mjög til með foreldrum, systkinum, dóttur og fyrrum konu Heath Ledger. Held að allir sem hafa tilfinningataug hugsi til þeirra sem upplifa missi og það svo opinberlega, án svigrúms til að syrgja. Sá í morgun stuttan blaðamannafund þar sem foreldrarnir og systirin komu fram fyrir utan heimili sitt, með sólgleraugu og þerrandi tárin, og faðirinn las upp yfirlýsingu. Styrkur þeirra var alveg aðdáunarlega mikill. Það hefur reyndar komið fram núna að þau heyrðu fyrst af dauða hans í útvarpsfréttum í Ástralíu. Þau fengu ekkert tækifæri til að heyra fregnirnar áður eða melta þær áður en fjölmiðlar birtu fréttina örstuttu eftir að hann hafði verið úrskurðaður látinn.

Mér fannst það mjög ónærgætið að fjölmiðlar skyldu beina til þeirra spurningum. Þeim svöruðu þau auðvitað ekki og héldu beint inn að þessu loknu. En þarna skiptir forsíðuuppslátturinn einn máli. Það er vissulega svo að þetta er stórfrétt og hún fær þann stimpil og ekki einu sinni nánasta fjölskylda fær að heyra fregnina áður en fjölmiðlar opinbera hana og það aðeins andartökum eftir látið. En svona er nútíminn í dag bara og erfitt að breyta gangi fjölmiðlaaldarinnar sem við erum á. Þegar að lík Ledgers var flutt burt frá fjölbýlishúsinu í Soho-hverfinu voru þar allir fjölmiðlar og andrúmsloftið minnti á óraunverulegt atriði úr kvikmynd, þar sem allir börðust um fyrstu fréttina.

Það er mörgum spurningum ósvarað. Vonandi fæst heilsteypt mynd fram á dauða Heath Ledger með rannsókn á málinu og krufningunni. Það er það sorglegasta ef ekkert verður raunar öruggt og ekki verður fengið í ljós nákvæmlega hvað gerðist í þessum mikla harmleik. Það er langt síðan að ég hef séð önnur eins sorgarviðbrögð vegna fráfalls stjörnu, eins og er hvað varðar Heath. Hans er minnst á flestöllum vefsíðum um allan heim og það eru mjög margir undrandi, eðlilega, enda var hann svo lifandi og hress í hugum fólks.

Vinir hans í leikarastéttinni eru auðvitað í rusli. Fannst ein sterkasta kveðjan vera frá Ástralanum Mel Gibson - hann veitti Heath tækifærið mikla í The Patriot, þar sem Heath varð alvöru dramatískur leikari og byggði að mínu mati mest og best undir styrk hans sem leikara og kenndi honum svo mikið. Mel var stóra fyrirmynd Heath og þeir voru mjög nánir. Það eru sannar tilfinningar í hverju orði Mel - leikkonurnar frá Eyjaálfu eru líka heilsteyptar í sínum orðum. Beðið er nú yfirlýsingar Jake Gyllenhaal, náins vinar Ledger.

Við svona aðstæður verður andlát auðvitað óraunverulegt og vafamálin eru hið sorglegasta af öllu hinu sorglega. Vonandi fæst spurningunum áleitnu svarað.


mbl.is Segja Ledger hafa látist af slysförum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorgleg örlög Heath Ledger

Heath Ledger í Brokeback Mountain Mjög sorglegt var að heyra af andláti ástralska leikarans Heath Ledger. Á stuttum leikferli sínum tókst honum að komast í fremstu röð; kom til Hollywood sem vonarstjarna frá fjarlægum slóðum og tókst að fá mörg góð tækifæri og virtist á beinu brautinni með sannkölluðum stjörnurullum í kvikmyndaborginni. Andlát Heath í blóma lífsins er dapurleg örlög fyrir hæfileikaríkan leikara og á eftir að verða mikil umræða um dánarorsök hans.

Heath Ledger fæddist í Perth í Ástralíu í apríl 1979. Hann var ungur og ákveðinn maður, staðráðinn frá æskuárum að verða frægur og skráði sig á leiklistarnámskeið. Þegar að Heath var sautján ára ákvað hann ásamt vini sínum að rífa sig upp og halda til Sydney og freista gæfunnar. Þá stóð hann uppi með tvær hendur tómar og þurfti að vinna sig upp. Hann var eitt af fögru andlitunum, átti auðvelt með að komast langt á þokka sínum og stjörnuljóma. Að vissu leyti var hann ferskt andlit í fjöldanum og fyrstu tækifæri sín fékk hann vegna þess að hann þótti myndarlegur og lofa góðu sem ungstjarna.

Fyrsta hlutverk sitt fékk hann í ódýrri og lítt eftirminnilegri mynd, Blackrock, árið 1997. Rullan var smá og fáum hefði órað fyrir er hún kom út að þessi myndarlegi strákur í jaðarhlutverki ætti eftir að verða heimsfrægur og fá öll heimsins leiktækifæri. Hann vann sig upp hægt og hljótt, fékk fleiri auðgleymanleg aukahlutverk en vakti þó æ meiri athygli í heimalandi sínu og varð kyntákn þar á skömmum tíma, heillaði ástralskar ungmeyjar upp úr skónum og þótti vænn kvenkostur. Stóra tækifærið hans Heath kom árið 1997 er hann lék í framhaldsþáttunum Roar, sem urðu vinsælir um allan heim, t.d. hér á Íslandi, og Ledger varð frægur utan Ástralíu.



Hann ákvað að freista gæfunnar í Bandaríkjunum, rétt eins og margir landar hans sem höfðu náð frægð sem leikarar, stökk í djúpu laugina án þess að vita nema að hann færi kannski með skottið á milli lappanna og niðurlægður aftur heim. Með Roar varð hann heimsþekkt nafn í fyrsta skiptið og vakti athygli. Þættirnir gengu í þrjú ár og urðu aðalstarf hans allan þann tíma og þar til að hann varð stórt nafn í Hollywood. Framundan var átta ára leikferill sem færði Heath öll þau tækifæri sem lífið hefur upp á að bjóða og frægð og frama með öllum pakka stjörnutilverunnar, með hæðum og lægðum - tæplega 20 hlutverk, sem spönnuðu allan skalann og sýndu allar hliðar á persónu hans.

Fyrsta stóra tækifæri hans til að ná heimsfrægðinni langþráðu, utan Roar, kom í kvikmyndinni 10 Things I Hate About You árið 1999. Myndin varð mjög vinsæl og ungt fólk dáði hana mjög, sló í gegn. Heath átti stjörnuleik í burðarhlutverki Patricks og með honum var ungt fólk, sem hefur orðið misjafnlega mikið frægt en hann varð stjarnan í hópnum og óumdeilanlega andlit myndarinnar. Heath sló endanlega í gegn í stjörnurullunni miklu í The Patriot árið 2000. Ástralski leikarinn og leikstjórinn Mel Gibson sá mikið efni í Heath og valdi hann til að leika son karaktersins síns, Gabriel, í myndinni sem hann auðvitað leikstýrði líka.

Myndin færði Heath stjörnuljómann sem varð honum vegarnestið það sem eftir var ferilsins. Á næstu árum tók hann nokkur mjög góð hlutverk, en líka ekkert sérstök. Nægir þar að nefna hlutverk Sir Thatchers í A Knight´s Tale, Sonny í Monster´s Ball, Ned Kelly, Harry í The Four Feathers, Skip í Lords of Dogtown og auðvitað Alex í The Order. Heath hafði er þarna kom sögu rétt fyrir miðjan áratuginn markað sér stöðu í bransanum sem ungi súkkulaðisæti gaurinn með sjarmann og flotta lúkkið sem var hin sterka ímynd karlmennskunnar. Hlutverkin voru þó misjöfn, í mörgum þeirra þurfti hann að sýna tilfinningar. Hann varð ekki bara sæta andlitið, eins og jafnvel var raunin í upphafi, heldur sýndi alvöru tilfinningar og karakter.



Fyrir þrem árum lék Heath í þeirri mynd sem ég tel að verði einn helsti minnisvarði hans. Það þurfti mikið hugrekki fyrir hann að taka að sér hlutverk Ennis Del Mar í Brokeback Mountain. Rullan var allt annað en hann hafði nokkru sinni leikið áður, það var túlkun á öllum skalanum, með sönnum tilfinningum og sálarflækjum. Ástarsaga var það heillin, ekkert nýtt fyrir hann. En þetta var ástarsaga tveggja kúreka sem kynnast er þeir reka sauðfé yfir fjallið Brokeback - falla fyrir hvor öðrum og eiga erótískt ástarsamband í leyni árum saman og búa sér til annað líf, meðfram því sem þeir eiga með konum sínum, með sannri ástríðu.

Ég tel Brokeback Mountain eina sterkustu mynd áratugarins. Hún var sönn ástarsaga, ekkert öðruvísi en margar en hún tók á áleitnu efni og gerði það heilsteypt og svo innilega traust. Það stóð vissulega í mörgum að fjalla um ást í meinum af þessu tagi. Sumir vildu ekki viðurkenna myndina og vildu ekki veita henni verðlaunasess. Sagan mun held ég dæma hana sem tímamótamynd, enda opnaði hún nýjar hliðar á stjörnutilverunni og sýndi tilfinningar samkynhneigðra með öðrum hætti en margar aðrar myndir - og hún fór víðar en margar aðrar slíkar. Það má deila um hvort boðskapurinn sé réttur, en eftir stendur að sagan er heilsteypt.

Heath Ledger fékk mikið lof fyrir glæsilega túlkun sína. Hann snerti mig mjög mikið með leik sínum, enda tók hann þar meiri hæðir en hann hafði nokkru sinni sýnt áður í leiktúlkun sinni og hann toppaði það aldrei í þeim örfáu myndum sem hann gerði síðar á þessum fáu árum sem hann lifði. Hann hlaut enda mörg kvikmyndaverðlaun og var hrósað mjög. Var hin sanna stjarna myndarinnar og sýndi tilfinningar ráðvillts manns með glæsibrag. Ástarsorg er áleitið umfjöllunarefni en það fékk eiginlega nýja meiningu í Brokeback Mountain og samleikur hans og Jake Gyllenhaal var sannarlega sterkur og eftirminnilegur. Yndislegur leikur hjá þeim.



Heath var tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir leik sinn og átti stærstu stjörnustund sína á ferlinum kvöldið sem óskarinn var afhentur fyrir tveim árum í Los Angeles. Deilt hafði verið mikið um hversu mikla möguleika hann átti á verðlaununum. Margir töldu myndina örugga um öll helstu verðlaunin og íhaldssemi kvikmyndaakademíunnar myndi ekki verða fjötur um fót. Þegar á hólminn kom fór svo að akademían treysti sér ekki til að verðlauna Heath og Jake fyrir glæsilega túlkun sína né heldur að veita myndinni verðlaunin sem besta kvikmynd ársins 2005. Aðeins Ang Lee fékk alvöru verðlaun á hátíðinni. En túlkun Heath mun lifa lengi, enda sönn.

Öll heimsins tækifæri blöstu við Heath Ledger á síðustu árum ævi sinnar og hann nýtti mörg þeirra mjög vel. Hann kynntist stóru ást ævi sinnar, leikkonunni Michelle Williams, við gerð Brokeback Mountain árið 2005, en hún lék konu hans í myndinni. Saman eignuðust þau dóttur og virkuðu sæl og loga af lífi og krafti við afhendingu óskarsverðlaunanna fyrir tveim árum. En upp úr sambandi þeirra slitnaði og undir lokin á ævi sinnar var Heath einn á báti, vann mikið og var með nokkrar myndir í vinnslu og á teikniborðinu er hann féll í valinn.

Það verður mikið talað um andlát Heath Ledger á næstu dögum. Hann var stór og skær stjarna á stjörnuhimninum, var vonarstjarna í bransanum. Andlát hans er óvænt og er mjög mikill harmleikur. Það verður rætt um hvað hafi verið banamein þessa hæfileikaríka leikara og þegar eru sögurnar farnar af stað.



En minningin um glæsilegan og traustan leikara með mikla hæfileika mun lifa, þó stjarna hans hafi slökknað alltof fljótt. Af honum er vægast sagt mikil eftirsjá fyrir kvikmyndaáhugafólk um allan heim.

mbl.is Heath Ledger látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. janúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband