1.11.2008 | 11:09
Getur Baugur bjargað sér eða þjóðinni?
Greinilegt er að Baugsmenn eru hvergi bangnir í kreppunni, þó frekar sé farið að dofna yfir sælunni hér heima á Fróni. Mér fannst fréttin í gær um nýja verslunarmiðstöð í London mjög sérstök, enda virtist þar sem ekkert hefði bitið á þá félaga þó ekki sé langt um liðið síðan raunir þessa risa voru raktir í fjölmiðlum hér heima.
Enn er þó spurningum ósvarað um hver verði framtíð Baugs. Af breskum blöðum að dæma er erfitt að sjá hvort þar verði hægt að bjarga nokkru nema sjálfum sér við þessar aðstæður, þó reynt sé að mála litina regnbogans merkjum.
Nú ræðst allavega hvort þeir eru aflögufærir að leggja þjóðinni alvöru lið, sem eftir verður tekið, eða hvort þetta sé ein fjölmiðlakeppni við að halda andlitinu.
![]() |
Baugur getur staðið veðrið af sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.11.2008 | 11:01
Brown vissi af vandanum - sáu hrunið fyrir?
Annars er ágætt að vita hver vissi hvað og hvenær. Ég held að flestir hafi vitað mun fyrr en hrunið varð að af því myndi verða. Frásagnir af þessum fundi gefa til kynna að umræðuefnið hafi verið mun beinskeyttara en gefið var í skyn þegar fullyrt var að þetta hefði verið settlegt tespjall í Downingstræti?
![]() |
Aðvörunin verði rannsökuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.11.2008 | 10:26
McCain vs. Obama > 3 dagar

Skoðanakannanir í Bandaríkjunum sýna mjög misvísandi skilaboð nú þegar þrír dagar eru til forsetakosninga. Í föstudagskönnun Zogby hefur McCain náð forystunni, 48-47, en er enn undir þegar teknir eru fleiri dagar inn í þá mynd. Eins og fyrr hefur komið fram hefur Obama leitt allar kannanir mjög traust og virðist eiga trausta stöðu í fylgismælingum í mörgum lykilríkjanna. Munurinn virðist þó vera að minnka á lokaspretti kosningabaráttunnar og hafa birst ríkismælingar sem sýna þá jafna víða á meðan Obama hefur náð að saxa á forskotið t.d. í Arizona, heimaríki McCain.
Barack Obama missti stjórn á skapi sínu í gær þegar paparazzi-ljósmyndarar eltu hann og dóttur hans Söshu um götur Chicago-borgar þegar Sasha fór í grímubúningi að syngja fyrir trick or treat á hrekkjavökunni, sem er nú um helgina. Eftir að ljósmyndarar höfðu náð nokkrum myndum sagði Obama að þeir væru búnir að ná sinni mynd og bað um að þau fengju að vera í friði. Ljósmyndararnir virtu þau tilmæli að vettugi og eltu þau þar til Obama sagði reiður að þetta væri orðið nóg. Lauk eltingaleiknum með því að Obama-feðginin fóru í hús til vinafólks síns.
John McCain kom fram á kosningafundum í Ohio í gær með píparanum Joe, sem margfrægur hefur orðið og setti mark sitt á þriðju og síðustu kappræðurnar. Virðist McCain leggja mikla áherslu á að virðast alþýðlegur og ná til alþýðufylgisins, sem var einn traustasti stuðningsmannahópur Hillary Rodham Clinton. Samkvæmt Zogby-könnuninni sem fyrr er nefnd hefur hann náð að bæta mikið við fylgi sitt í þeim markhópi og ennfremur meðal óháðra kjósenda. Eftir flokksþingið náði hann að bæta fylgið en missti það aftur í efnahagsþrengingunum í haust.
Frænka Barack Obama frá Kenýa komst í fréttirnar í gær. Hún hefur verið ólöglegur innflytjandi í landinu síðustu fjögur ár. Fjölmiðlamenn hafa stokkið á fréttina sem alvöru og hún verið mikið í sviðsljósinu. Kannanir gefa annars til kynna að hálftíma auglýsing Obama hafi ekki styrkt stöðu hans. Fylgið hafi ekki aukist með henni eins og sumir í Obama-hópnum áttu von á. Hún hefur verið umdeild og nefnd til skiptis snilld og peningabruðl.
Ferðadagbókin
McCain verður á ferð um nokkur ríki í dag en verður í kvöld í Saturday Night Live í New York - hann tekur semsagt á sig nokkurn krók frá kosningabaráttunni stóran hluta dagsins fyrir síðasta viðtal sitt við skemmtiþátt í kosningabaráttunni, þátt á kjörtíma, sem skiptir miklu máli.
Obama verður í dag í Nevada, Colorado og Missouri; ríki sem eru öll mikilvæg fyrir hann í baráttunni. Ef hann sigrar í þeim öllum er æ líklegra að hann muni vinna í Ohio, en þar ætlar að hann vera allan morgundaginn, t.d. á fjöldafundi með rokksöngvaranum Bruce Springsteen, en hann kom fram með John Kerry fyrir síðustu kosningar á lokasprettinum þá.
George W. Bush sést ekki á lokasprettinum í kosningabaráttunni frekar en fyrri daginn. McCain hefur aðeins komið fram þrisvar með honum síðan Bush studdi hann formlega í Rósagarði Hvíta hússins í marsmánuði, er hann hafði náð útnefningunni. Bush sést heldur ekki í þingslagnum. Enginn vill láta sjá sig nærri honum. Bush heldur sig fjarri miðpunkti átakanna og bíður í Washington eftir því sem verða vill.
![]() |
John McCain á enn möguleika |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.11.2008 | 02:38
Brúðguminn drottnar yfir Edduverðlaununum
Mér sýnist nokkuð gefið mál að Brúðguminn fái Edduverðlaunin að þessu sinni sem besta myndin. Væntanlega mun hún fá slatta af fleiri verðlaunum með og einkum í leikflokkunum. Mér finnst stærsti gallinn við verðlaun eins og Edduna hvað það koma fáar myndir til greina og hvernig t.d. ein mynd getur tekið allt heila dæmið, enda stundum ein mynd dómínerandi í tilnefningunum. Mér finnst þó gleðiefni að hætta eigi að verðlauna saman leik í aukahlutverki í karla- og kvennaflokki. Þvílík vitleysa sem það var.
Annars er mikið af góðu efni tilnefnt. Leikna efnið í sjónvarpi hefur sjaldan verið meira spennandi og alvöru barátta þar um hnossið á milli Dagvaktarinnar, Svartra engla, Pressu og Mannaveiða. Loksins er alvöru úrval þar af góðu efni. Samt er óvissutími framundan í kreppunni en vonandi verður hægt að halda dampi í framleiðslu góðs efnis á næstu árum.
![]() |
Brúðguminn með 14 tilnefningar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)