13.11.2008 | 22:17
Björgólfur í móðu - týndi sjálfum sér í græðginni
Vissulega er Björgólfur einlægur og vandaður maður að mörgu leyti. En ég hef miklar efasemdir um hann sem bissnessmann eftir alla þessa hringekju sem við höfum verið í og fylgst með síðustu árin. Þar hefur verið gamblað langt um efni fram og þeir sem tóku þar mestan þátt fóru langt fram úr sjálfum sér. Björgólfur er einn þeirra sem bera þar mikla ábyrgð. Ummæli hans um bankabruðlið og græðgina þar innanhúss eru ekki trúverðug. Hann hefði getað stöðvað þetta rugl.
Ekki gerði hann neitt í því og ber þar mjög mikla ábyrgð - mun meiri en hann var tilbúinn til að kvitta fyrir. En það er þetta með Björgólf og ábyrgðina að ég áttaði mig aldrei á hvar honum fannst hann tapa sálinni í sjálfum sér. Einhversstaðar í partýinu fóru skilningarvitin að gefa sig. Ekki virðist Björgólfur vilja muna eða rifja upp í móðunni hvar það gerðist. En það skiptir svosem ekki máli. Hann ber mikla ábyrgð, mun meiri en svo að hann geti bent á aðra.
Í sannleika sagt trúi ég ekki Björgólfi - ímynd hans, sem hann reyndi að endurreisa með tveimur bókum um Hafskipsmálið, er í algjörri rúst og verður ekki púslað saman svo trúverðugt sé. Svo er það bara öllum öðrum en honum að kenna hvernig fór. Bara ef Seðlabankinn hefði látið hann fá meiri pening, þá hefði allt gengið - svo segir Björgólfur. Eigum við að trúa þessu rugli?
Eigum við þá að afgreiða mat Dominique Strauss-Kahn, Robert Aliber og Vince Cable á stöðunni? Hafa þeir ekki rétt fyrir sér? Ég tel það. Bankakerfið sökkti íslensku þjóðinni, urðu alltof stórir og svo varð ekki við neitt ráðið. Við hefðum betur tekið mark á Aliber. Stjórnmálamenn bera líka mikla ábyrgð því þeir gerðu ekki neitt. Svefninn var dýrkeyptur.
Eitt er þó víst: Björgólfur, hinn iðrandi syndari, lenti í móðu, algjörum villigötum, og týndi sjálfum sér í græðginni. Hann hefði getað gert margt til að snúa málum á annan veg fyrir þónokkru en gerði ekki neitt, sukkaði í botn og iðrast nú.
Ég verð að segja það hreint út að ég ber enga virðingu fyrir þannig liði sem kemur núna með grátstafinn í kverkunum og reyna að væla sér inn samúð hjá þjóðinni sem þeir settu á hausinn.
![]() |
Skuldir lenda ekki á þjóðinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.11.2008 | 18:40
Afturhvarf til fortíðar - fimmtudagsstillimynd
Jæja, þá er stillimyndin komin á Skjá einn. Þetta er táknrænn gjörningur. Með því að setja stillimynd á skjáinn á fimmtudagskvöldi, sem var sjónvarpslaust á Íslandi í 21 ár hjá Ríkissjónvarpinu er verið að senda skýr skilaboð um að frjáls fjölmiðlun sé í hættu og jafnframt minna á að við getum jafnvel endað á sama reit og var áður en fjölmiðlun var gefin frjáls. Þetta er klók og traust markaðssetning og vekur áhorfendur til umhugsunar.
En ég er viss um að slatti af fólki er ósátt við að missa af House og 30 Rock í kvöld, en svona er þetta. Sé að yfir 40.000 hafa skrifað til stuðnings Skjánum. Held að það segi mikið - hvað eru margir búnir að skrifa á kjósa.is? Er það ekki innan við 5000?
![]() |
Stillimynd á SkjáEinum í kvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.11.2008 | 17:09
Vondir kostir - er stjórnarkreppa í landinu?
Verst af öllu finnst mér þó sú kuldalega staðreynd að mér finnst hálfgerð stjórnarkreppa skollin á í landinu. Stjórnarflokkarnir virðast hökta saman af gömlum vana en ekki vegna áhuga á að vinna saman. Mér finnst við vera föst í mjög vondri atburðarás. Enginn stjórnmálamaður er að tala í alvöru lausnum og hugmyndum um framtíðina. Þetta er napur veruleiki og þetta höfum við lifað við í rúman mánuð - í biðinni eftir því að einhver vilji nú vera svo góður að rétta okkur hjálparhönd. Við verðum að redda okkur sjálf. Við stöndum ein eftir.
Mér finnst þetta stjórnarsamstarf minna mig á lélegt hjónaband þar sem aðilar þess búa enn saman undir sama þaki, borða sinn mat við eldhúsborðið en sofa í tveimur herbergjum og geta helst ekki horft framan í hvort annað. Traustið er gufað upp og bakstungurnar ótalmargar. Ásmundur Stefánsson lítur út eins og hjónabandsráðgjafi með hverjum deginum sem líður og verður lítið ágengt. Mér finnst pólitísk forysta þessarar ríkisstjórnar í molum - ekki tekst að þoka málum áfram.
Nú vantar alvöru forystu. Hart er ef það fer svo að eina forystan sem geti tekið við málunum verði fólgin í utanþingsstjórn einstaklinga sem koma hvergi nærri því sem gerist í þingsal. Ef þessi stjórn með sína fjölmennu sveit gefst upp í baráttunni við vandann hefur pólitísk forysta þessa lands í raun gefist upp fyrir verkefninu.
![]() |
Enginn góður kostur í stöðunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.11.2008 | 15:54
Skjár einn setur stillimyndina á skjáinn
Vel sést á undirskriftasöfnunni að Skjár einn hefur markað sé traustan sess í huga fólks, sem vilja ekki án hennar vera. Barátta hennar nú skiptir miklu máli, enda er þetta í raun barátta fyrir traustri frjálsri fjölmiðlum. Skora á alla að fara á heimasíðu Skjás eins og skrifa nafn sitt þar til stuðnings stöðinni og baráttu hennar.
![]() |
Breytt dagskrá á Skjá einum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.11.2008 | 11:15
Skemmdarverk við Valhöll
Kannski er staðan þannig að fólki finnst það eðlilegt að skemma fyrir öðrum með þessum hætti. Ljótt er ef satt er. Hitt er svo aftur annað mál að í þessu árferði er örvænting fólks mikil og reiðin er ekki síður mikil. Reiðin getur oft verið erfið viðureignar ef ekki tekst að koma henni í annan farveg en þennan.
![]() |
Máluðu Valhöll rauða í nótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.11.2008 | 00:02
Jón Ásgeir er gjörsamlega búinn að spila sig út
Ég verð að segja eins og er að ég er búinn að fá gjörsamlega nóg af hrokanum og yfirganginum í þessum manni. Þessi yfirlýsing mun ekki afla honum stuðnings. Gott ef hún gerir ekki endanlega út af við sterka stöðu hans í gegnum fjölmiðlana og þá ímynd sem byggð var upp af ímyndarsérfræðingum í átökunum í Baugsmálinu. Held að margir fari nú að hugsa sitt ráð, og ekki er það seinna vænna.
Ég spyr þó bara; hvað er það sem má ekki komast upp varðandi stöðu mála hjá Jóni Ásgeiri? Eitthvað er það meira en lítið fyrst maðurinn lætur svona. Hvað hefur hann að fela?
![]() |
Fallið verði frá kröfu um upplýsingagjöf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)