Björgólfur í móðu - týndi sjálfum sér í græðginni

Eins einlægur og Björgólfur Guðmundsson var í Kastljósviðtalinu í kvöld velti ég fyrir mér hversu mikið af því sem hann segir er satt eða logið. Eitt er þó víst: hann var sleipur eins og áll og átti ekki erfitt með að snúa hlutunum á hvolf til að henta málflutningi sínum. Mér fannst athyglisvert hvað hann vildi bera litla ábyrgð á bankahruninu þó hann talaði mikið um ábyrgð sína og fór svo í hringi sem erfitt var að fylgja eftir. Stór hluti af þessu hljómar eins og afneitun í mínum eyrum og ég get ekki annað en sagt það bara hreint út að ég trúi mátulega þessum yfirlýsingum hans.

Vissulega er Björgólfur einlægur og vandaður maður að mörgu leyti. En ég hef miklar efasemdir um hann sem bissnessmann eftir alla þessa hringekju sem við höfum verið í og fylgst með síðustu árin. Þar hefur verið gamblað langt um efni fram og þeir sem tóku þar mestan þátt fóru langt fram úr sjálfum sér. Björgólfur er einn þeirra sem bera þar mikla ábyrgð. Ummæli hans um bankabruðlið og græðgina þar innanhúss eru ekki trúverðug. Hann hefði getað stöðvað þetta rugl.

Ekki gerði hann neitt í því og ber þar mjög mikla ábyrgð - mun meiri en hann var tilbúinn til að kvitta fyrir. En það er þetta með Björgólf og ábyrgðina að ég áttaði mig aldrei á hvar honum fannst hann tapa sálinni í sjálfum sér. Einhversstaðar í partýinu fóru skilningarvitin að gefa sig. Ekki virðist Björgólfur vilja muna eða rifja upp í móðunni hvar það gerðist. En það skiptir svosem ekki máli. Hann ber mikla ábyrgð, mun meiri en svo að hann geti bent á aðra.

Í sannleika sagt trúi ég ekki Björgólfi - ímynd hans, sem hann reyndi að endurreisa með tveimur bókum um Hafskipsmálið, er í algjörri rúst og verður ekki púslað saman svo trúverðugt sé. Svo er það bara öllum öðrum en honum að kenna hvernig fór. Bara ef Seðlabankinn hefði látið hann fá meiri pening, þá hefði allt gengið - svo segir Björgólfur. Eigum við að trúa þessu rugli?

Eigum við þá að afgreiða mat Dominique Strauss-Kahn, Robert Aliber og Vince Cable á stöðunni? Hafa þeir ekki rétt fyrir sér? Ég tel það. Bankakerfið sökkti íslensku þjóðinni, urðu alltof stórir og svo varð ekki við neitt ráðið. Við hefðum betur tekið mark á Aliber. Stjórnmálamenn bera líka mikla ábyrgð því þeir gerðu ekki neitt. Svefninn var dýrkeyptur.

Eitt er þó víst: Björgólfur, hinn iðrandi syndari, lenti í móðu, algjörum villigötum, og týndi sjálfum sér í græðginni. Hann hefði getað gert margt til að snúa málum á annan veg fyrir þónokkru en gerði ekki neitt, sukkaði í botn og iðrast nú.

Ég verð að segja það hreint út að ég ber enga virðingu fyrir þannig liði sem kemur núna með grátstafinn í kverkunum og reyna að væla sér inn samúð hjá þjóðinni sem þeir settu á hausinn.


mbl.is Skuldir lenda ekki á þjóðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Algjörlega sammála. Ég hef ekki einu sinni geð í mér til að skrifa sérstaka færslu um þetta Björgólfs-viðtal, svo flökurt er mér. Vísa til fyrri skrifa minna sem nægum í bili.

Friðrik Þór Guðmundsson, 13.11.2008 kl. 22:49

2 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Sjarmerandi höfðingi hann Björgúlfur. Honum tókst vel upp í kastljósviðtalinu fannst mér en auðvitað var ekki allt rökrétt sem hann sagði. Hann vafði sig í liðlega kringum Sigmar og tókst að vera sæmilega auðmjúkur.

Auðvitað sáu menn innan kerfisins þegar á þessu ári að allt var ekki með felldu, bankinn riðaði til falls og ekkert mátti bregða útaf á hinum alþjóðlega markaði til að íslenskir bankar kæmust ekki í greiðsluþrot. Seðlabankinn var of veikur þeir gerðu sér ekki grein fyrir að Island var allt undir í spilinu. Margt fleira má tína til en fyrir mér hefur hann stöðu manns sem fremur alvarlegan glæp af gáleysi.

Gæskan er einmitt galli Björgúlfs þegar hann er kominn í svona stórt prójekt. Hann hafði undir sér menn sem voru blindir af græðgi og teymdu hann áfram í áhættufíkn fram á ystu nöf. Skapmikill kjarkmaður hefði stoppað þessa vitleysu.

Guðmundur Pálsson, 13.11.2008 kl. 23:09

3 identicon

Þetta er það nákvæmlega sama og með Davíð Oddsson, sá maður er löngu búinn að tapa sjálfum sér. Björgólfur vælir ... ok ... sem og margir aðrir. Ég trúi honum mátulega líka. En miðað við menn sem reyna að hlaupast undan ábyrgð, getur ekki verið að það sama eigi við Geir og félaga hans? Davíð Oddsson, sem þú lofaðir í hástert eftir viðtal í Kastljósi fyrir nokkrum vikum, ... ber hann enga ábyrgð? Hvað með ráðherrana sem stýra þessum ráðuneytum er málið varðar? Hvað með alla "undirmenn" bankastjóranna, sem fengu að græða mikinn pening og fengu skuldir mögulega felldar niður? Ábyrgðin er mikil hjá Björgólfi, en gerði hann eitthvað ólöglegt? Gerði hann þetta án þess að ríkisstjórn Íslands hafi nokkurn tíma sagt eitthvað?

Af hverju muna Geir og Árni ekki eftir umræðum um aðkomu IMF í mars-apríl? Af hverju vissi Björgvin ekki um stöðu mála? Af hverju má forseti ASÍ ekki hafa sínar hugmyndir um það sem hann vill að gerist hjá ríkisstjórn? Af hverju er Bjarni Harðarson grýttur fyrir netpóstinn sinn og nauðugur segir af sér, á meðan margir í ríkisstjórn og stjórnarflokksþingmennirnir eru sekir um gáleysi og afskiptaleysi?

 Mér þætti gaman að sjá færslu hjá þér hvernig þér finnst Davíð hafa verið að standa sig upp á síðkastið og einnig hvort hann sé ekki meistari að snúa út úr líka þegar fjölmiðlar taka upp á því að tala við hann...

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 23:56

4 identicon

Jæja Stefán

Vonandi sleppur þetta komment mitt í gegnum síu ritskoðunar þinnar, þ.e. reynsla mín er sú, að ef þú ert ekki sáttur við athugasemdir mínar, þá sleppir þú þeim bara. Málið er að ég dauðvorkenndi Björgólfi í Kastljósi í kvöld. Held hann hafi endurtekið "ég er ábyrgur", "ég sýni ábyrgð" "ég er skítblankur" o.s.frv. Hins vegar voru útskýringar hans ómarkvissar og í mörgum tilfellum neitaði hann að svara beinum spurningum með beinum, afdráttarlausum svörum. Ég vorkenndi honum vegna þess að hann talaði niður fyrir sjálfan sig, spilaði sig meira fákunnáttandi og grandvaralausari en hann er í raun og veru. "Ég sit bara í bankaráði", veit varla hvað var að gerast í kringum mig. Ég styð hitt og styð þetta, bara maður að dútla fyrir sín einföldu laun í sínu litla starfi. En þegar kom að skýringunni í kringum fall Glitnis, varð hann allt í einu harðsvíraður buisnessmaður, sté út úr sínu litla saklausa starfi og lýsti því hvernig hann lagði heildarmynd sína og manna sinna á borðið fyrir stjórnina og seðlabankann þessa afdrifaríku helgi, reyndi að fá þá til að skilja þankagang risastórra bankastjórnar- og viðskiptamanna, en, því miður, ó, var ekkert hlustað á hann og tillögur hans. Varðandi spurningar um eignir á móti skuldum voru svör hans loðin og samt það skýr, að eignirnar eru að hluta til háðar því hvort einhverjir erlendir (og innlendir) aðilar geti staðið við skuldbindingar sínar. Í heildina fannst mér hann niðurbrotinn maður sem reyndi að halda reisn sinni og koma fram til að skýra sín sjónarmið. En samt hálfmúlbundinn (af öllum þessum trúnaði sem hefur klingt í eyrum okkar frá fleirum en honum undanfarnar vikur) Það þarf enginn að segja mér að hann sé skítblandkur, stórskuldugur og jaðri við gjaldþrot. Maður með reynslu eins og hann hlýtur að hafa haft vit á að leggja einhvern ellisparnað til hliðar, einhvers staðar. Því, ef svo hefði ekki verið, hefði hann hreinlega tárfellt.Þetta viðtal við hann var þannig heiðarleg tilraun miðað við aðstæður til að láta hlutina líta betur út en þeir eru í raun og veru.  

Nína S (IP-tala skráð) 14.11.2008 kl. 00:03

5 Smámynd: haraldurhar

   Tek eftir því að þú sleppir að fjalla um áskorun Björgúlfs til Davíðs Oddsonar, að birtir nafnalista yfir þá er hann kallaði óráðsíumenn. Tek heilshugar undir með Björgúlfi það er nauðsynlegt að hann birti þennan nafnalista.

   Stefán ég held þú ættir að hlusta aftur á viðtalið, og vita hvort þú sjáir ekki margt í öðru ljósi, en þú hefur verið að halda fram á undanförnum vikum.

haraldurhar, 14.11.2008 kl. 00:12

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kommentin. Ágætt að heyra í öðrum.

Hvað varðar afstöðu mína, svo vísað sé til síðasta innleggs, er ég alveg traustur á þeirri skoðun að bönkunum var leyft að vaxa uns þeir voru orðnir of stórir fyrir þetta samfélag. Enginn gerði neitt og skaðinn er skeður. Við getum hlustað á Robert Aliber sem góðan áttavita um það hvernig við höfum lifað um efni fram og sukkað í botn án raunverulegrar innistæðu. Nú blæðir þjóðin fyrir allt sukkið, líka þeir sem eru saklausir af útrásarvitleysunni. Hvað er útrásin annað en innistæðulaus tékki, svikamylla.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 14.11.2008 kl. 00:14

7 Smámynd: haraldurhar

Sammála nær öllu er þú segir nú, nema því að útrásin var ekki svikamilla, margir góðir hlutir voru gerðir, en vitaskuld einning margir arfavitlausir hlutir, það bara fylgir og af því verðum við að læra.  Okkur tekst vonandi betur til næst er við förum í víking.

haraldurhar, 14.11.2008 kl. 00:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband