Standa sömu aðilar að báðum mótmælunum?

Mér líst ekki vel á það ef mótmælin við lögreglustöðina við Hverfisgötu eiga að vera framlengingarsnúra á mótmælin á Austurvelli. Held að það leiði aðeins til þess að mótmælin verði dæmd sem skrílslæti og þaðan af verra, ef talsmenn beggja mótmælanna verða þau sömu eins og sést nú í dag. Þegar Bónusfáninn var settur að húni á þinghúsinu var talað um að það væri alls ekki tengt því sem gerðist á sviðinu á Austurvelli og ekki ættu skrílslæti að vera tengd því sem þar gerðist.

Nú kemur talsmaður Austurvallarmótmælanna fram sem talsmaður þess sem gerist við lögreglustöðina. Finnst það ekki beint styrkja það sem gerist á Austurvelli og í besta falli rýrir það trúverðugleika þess sem hann sagði eftir að fáninn var settur að húni að þar væri annað og óskylt um að ræða en það sem hann stæði fyrir. Er þetta það sama?

mbl.is Mótmæli við lögreglustöðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun allt verða vitlaust 1. desember?

Mótmælendur
Ef marka má stemmninguna á mótmælafundinum á Austurvelli áðan er stefnt að einhverju stóru á fullveldisdaginn 1. desember, minnst var á þann dag sem upphaf að einhverju nýju. Hvað gerist þann dag? Hvernig má skilja orðin á Austurvelli? Á þá að fara í harkalegar aðgerðir gegn stjórnvöldum og eitthvað meira en bara mótmæli orðanna? Mér finnst eðlilegt að spyrja á hvaða leið mótmælin eru.

Sífellt fjölgar í mótmælunum. Er svosem ekki hissa á því. Fólk vill svör og trausta forystu. Við lifum á þeim tímum að þjóðin er í algjörri óvissuferð og vonlaust að ætla að stöðugleiki komist á hér í landinu á næstu mánuðum. Þetta er vissulega vond staða og það mun taka sinn tíma að byggja upp til framtíðar. Ekki mun það gerast á næstu dögum. Uppbyggingarstarfið er aðeins rétt að byrja.

Næstu mánuðir verða erfiðir hér á Íslandi. Mér finnst eðlilegt að almenningur í þessu landi hafi skoðanir á stöðunni og tjái sig hreint út. Vel hefur tekist til með mótmæli þar sem fólk talar hreint út og kemur fram sem samhent, hefur skoðanir á stöðunni og vill að tekið sé á henni. Auðvitað er það bara eðlilegt.


mbl.is Íslendingar láti ekki kúga sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin bakkar upp kosningastefnu ISG

ISG
Augljóst er að flokksmenn í Samfylkingunni bökkuðu upp skoðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um að boða ekki til kosninga með því að klappa svo mjög fyrir ræðu hennar. Því er lýst á vef RÚV að dynjandi lófatak hafi verið á meðan ræðunni stóð. Ekki hægt að túlka það öðruvísi en sem svo að stefna formannsins verði ofan á og hún hafi enn sterka stöðu innan flokksins eftir að hún kom fram með ábyrga afstöðu sína.

Finna mátti fyrir því á bloggsíðum í gær að sumir Samfylkingarfélagar voru ósáttir við skoðun formannsins en þeir hafa greinilega ekki látið það koma fram meðan formaðurinn endurtók sama boðskap á flokksstjórnarfundinum í Garðabæ. Ekki er hægt að túlka það öðruvísi en sem stuðning við hana og orð hennar.

mbl.is Áfallastjórnuninni lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þórðargleði Breta verður þeim dýrkeypt

Ég er hræddur um að Þórðargleði Breta yfir óförum Íslendinga hafi ekki verið réttmæt. Eins og flestum hefur grunað eru þeir í mjög vondum málum sjálfir og geta ekki spilað sig mjög djarft. Ég sá þó í einhverjum könnunum að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hefur öðlast endurnýjaðan pólitískan kraft meðal annars með því að níðast á íslensku þjóðinni og hefur bætt talsvert við sig fylgi, svo mjög að kjaftasögurnar segja að hann stefni að þingkosningunum í júlí 2009, en fimm ára kjörtímabilinu lýkur vorið 2010.

Ég efast um að Íslendingar gleðjist yfir velgengni Browns, eftir ómerkilega framkomu hans við okkur. En sú þórðargleði sem sumir Bretar sýndu þegar íslensku þjóðinni varð á og tók skellinn var miklu táknrænni en svo að hún skrifist bara sem hefndarhugur. Brown nýtti sér veika stöðu okkar til að níðast á íslensku þjóðinni og öðlast endurnýjaðan kraft. Ef allt fer hinsvegar á versta veg í Bretland er hætt við að sá kraftur snúist upp í andhverfu sína.

mbl.is Bretland sömu leið og Ísland?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áætlun um að vernda Jónas hinn ósýnilega

Ég gat nú ekki annað en hlegið þegar ég heyrði að gerð hefði verið sérstök áætlun til að vernda Jónas Fr. Jónsson, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, fyrir fjölmiðlum og koma í veg fyrir að hann þyrfti að tala um bankahrunið og sofandagang stofnunarinnar. Er ekki hissa, enda hefur Jónas verið algjörlega ósýnilegur í þessari kreppu og komist upp með að þegja algjörlega og svara ekki fjölmiðlum. Aðeins fyrir örfáum dögum fékkst Jón Sigurðsson, varaformaður bankaráðs Seðlabankans og stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins í fjölmiðla til að segja eitthvað.

Hvar í siðmenntuðu landi kæmust lykilmenn af þessu tagi upp með að þegja í margar vikur og ekki tjá sig um fjölmiðla. Hlutur Fjármálaeftirlitsins á að vera í umræðunni, enda eru þetta þær eftirlitsstofnanir sem áttu að vera vakandi en brugðust gjörsamlega hlutverki sínu. Þeir sem þarna ráða för hafa sloppið mjög billega, einum of. En það er kannski ekki skrýtið að þeir sleppi frá óþægilegum spurningum þegar byggður er varnarmúr utan um þá og til að koma í veg fyrir að þeir tali hreint út.

Þess ber reyndar að geta að forstjórinn ósýnilegi verður gestur í þætti Björns Inga á morgun. Sá þáttur er að verða athvarf þeirra sem þurfa á skjóli að halda, en meðal þeirra sem þar hafa komið í drottningarviðtöl eru Sigurður Einarsson og Hannes Smárason, fyrrum menn ársins í viðskiptalífinu og útrásarvíkingar með meiru.


mbl.is Forstjóri verndaður?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband