Sterk staða Seðlabankans í breyttu samfélagi

Lagasetning um gjaldeyrismál breytir miklu í íslensku samfélagi. Sett verða mikil höft á hreyfingar á fjármagni og skilaskylda á gjaldeyri. Með þessu eru Seðlabankanum færð mjög mikil völd, allt að því verkstjórnarhlutverk í að byggja upp nýtt samfélag og koma böndum á vandann. Við yngra fólkið í þessu samfélagi höfum aðeins heyrt um höft í sögubókunum og slík mörk en nú verða þau hinn blákaldi raunveruleiki.

Ég ætla rétt að vona að ekki þurfi lengi að hafa þessi lög í gildi og þetta fyrirkomulag, en það er sannarlega nauðsynlegt núna. Ekki er annað hægt þegar þessi lagasetning er að fara í gegn en velta því fyrir sér hvernig næstu mánuðir verða. Margt mun breytast og við horfumst í augu við mun þrengri skorður en settar hafa verið á samfélagið í áratugi. Við komumst í gegnum það, þó erfitt verði.

Fyrst og fremst ætti með þessu að vera hægt að stjórna betur því ferli þegar krónan verður sett á flot. Greinilegt er að stjórnvöld skipuleggja það ferli vel og vilja vera viss um að gera allt hið rétta miðað við erfiðar aðstæður. Nú er að vona að rétt hafi verið að málum staðið og við getum náð viðspyrnu úr vandanum.

mbl.is Geta stöðvað gjaldeyrisflutninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður byltingarástand á Austurvelli um helgina?

Ég skil yfirlýsingu Geirs Jóns Þórissonar sem svo að lögreglan sé tilbúin til að grípa til aðgerða fari ástandið úr böndunum á mótmælafundunum á Austurvelli. Verið er að búa almenning undir að þetta gerist ef áður friðsamleg mótmæli snúast upp í andhverfu sína. Ég veit svosem ekki við hverju er að búast.

Mér finnst samt staðan vera þannig að sé fólk tilbúið í alvöru ofbeldi gegn stjórnvöldum muni það gerast um helgina eða á mánudaginn, fullveldisdaginn 1. desember, þegar laganeminn vildi grípa til byltingar, ef ég skildi hana rétt. Við verðum að sjá til hvað gerist. Löggan virðist minna á sig.

mbl.is Á ekki von á byltingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð þarf að segja frá vitneskju sinni

Mér finnst mjög mikilvægt að Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, segi hvað hann viti sem við vitum ekki um af hverju íslenska þjóðin lenti á hryðjuverkalistanum margfræga frá Bretum. Efast ekki um að það komi fram fyrr en síðar. Eftir þessum upplýsingum verður kallað, enda mikilvægt að öll púslin í þessari heildarmynd komi fram.

Ég velti þó fyrir mér hvort Davíð hafi með yfirlýsingu sinni verið að tala til einhvers í gegnum myndavélarnar og hópinn á morgunverðarfundinum? Hvers þá? Einhvers af ráðherrum Samfylkingarinnar?

mbl.is Davíð frestar komu sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skiljanleg óánægja með ræðu Katrínar

Ég er ekki hissa á því að ræða Katrínar Oddsdóttur verði áberandi meðal nemenda við HR og fleiri í samfélaginu. Hún gekk þar mjög langt og allt að því hótaði valdaráni og ráðist yrði með hreinu ofbeldi inn í stofnanir á vegum ríkisins. Mér finnst það einum of og finnst það furðulegt að hótað sé ofbeldi á fundi sem átti að vera friðsöm mótmæli og haldinn undir formerkjum friðsamlegrar samstöðu almennings. Þetta orðaval er ekki beint líklegt til að það merki haldist lengur á mótmælunum.

Hef reyndar heyrt ólíkar skoðanir á ræðunni. Sitt sýnist auðvitað hverjum. En mér finnst það of langt gengið að hóta ráðamönnum ofbeldi og gefa í skyn að valdarán og bylting sé rétta svarið í vanda íslensku þjóðarinnar. Slíkt er ekki vænlegt fyrir þá sem fóru af stað með friðsöm mótmæli á Austurvelli og rýrir boðskap þeirra.

mbl.is Óánægð með ræðu á heimasíðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband