Sterk staða Seðlabankans í breyttu samfélagi

Lagasetning um gjaldeyrismál breytir miklu í íslensku samfélagi. Sett verða mikil höft á hreyfingar á fjármagni og skilaskylda á gjaldeyri. Með þessu eru Seðlabankanum færð mjög mikil völd, allt að því verkstjórnarhlutverk í að byggja upp nýtt samfélag og koma böndum á vandann. Við yngra fólkið í þessu samfélagi höfum aðeins heyrt um höft í sögubókunum og slík mörk en nú verða þau hinn blákaldi raunveruleiki.

Ég ætla rétt að vona að ekki þurfi lengi að hafa þessi lög í gildi og þetta fyrirkomulag, en það er sannarlega nauðsynlegt núna. Ekki er annað hægt þegar þessi lagasetning er að fara í gegn en velta því fyrir sér hvernig næstu mánuðir verða. Margt mun breytast og við horfumst í augu við mun þrengri skorður en settar hafa verið á samfélagið í áratugi. Við komumst í gegnum það, þó erfitt verði.

Fyrst og fremst ætti með þessu að vera hægt að stjórna betur því ferli þegar krónan verður sett á flot. Greinilegt er að stjórnvöld skipuleggja það ferli vel og vilja vera viss um að gera allt hið rétta miðað við erfiðar aðstæður. Nú er að vona að rétt hafi verið að málum staðið og við getum náð viðspyrnu úr vandanum.

mbl.is Geta stöðvað gjaldeyrisflutninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Allt í kringum "hreinsunina" og ráðstöfun lána erlendis frá, er það flókið mál, að ég er meðmælt því að fá utanaðkomandi eða innanlandsfrá, hagfræðing og lögfræðing með yfirgripsmikla þekkingu á málefnum og öllu því sem ríkisstjórnin er að gera, henni til ráðgjafar, til að forðast seinni tíma lagasóknir og alls konar vesen sem getur hlotist af fljótfærnislegum björgunarráðstöfunum. Bankahrunið er það yfirgripsmikið, að það er ólíklegt að venjulegt fólk eins og ráðherrar nái utan um það. Svo er eins og verið sé að flýta sér að klára sem mest fyrir jólafrí Alþingis.

Nína S (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 00:54

2 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Virðist vera algjör viðsnúningur frá lausbeislaðri stjórnun sem áður tíðkaðist.

Þetta er kannski eitthvað sem menn hefðu þurft að vera klárir með um leið og EES tók gildi. Okkur veittist frelsi til athafna, gjörólíkt því sem áður þekktist og alls óvíst að menn hafi kunnað fótum sínum forráð.

Hér gildir kannski það sem prestarnir tala gjarnan um: Það er munur á frelsi og hömluleysi.

Flosi Kristjánsson, 28.11.2008 kl. 09:08

3 identicon

Vandamálið við þessa lög er sama og með flest annað sem hefur verið gert eftir bankahrunið.  Það er verið að færa sífellt meiri völd til manna sem eru búnir að missa allan trúverðuleika.

muggur (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 10:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband