Huldumaðurinn og leynifélagið

Í sjálfu sér er ekki hægt annað en fagna því að huldumaðurinn í Stími hefur loksins tjáð sig um mál þessa leynifyrirtækis sem enginn hefur viljað kannast við. Heldur finnst mér þó þetta mál verða snúnara eftir þessa yfirlýsingu, enda ljóst að Glitnir átti stærsta hlutinn í fyrirtækinu og þeir menn sem sögðust um daginn enga vitneskju hafa um málið virðast hafa vitað allt um það ef marka má þessa yfirlýsingu. Auk þess er Saga Capital þarna með stóran hlut en menn á þeim bænum þögðu um Stím um daginn.

Ég skil ekki af hverju þessar upplýsingar hafi ekki komið fram fyrir þónokkru og þeir sem áttu þar stóran hlut hafi verið í feluleik þetta lengi. Mikilvægt er að kafa dýpra ofan í þetta mál.

mbl.is Yfirlýsing frá Stími
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friðsamleg mótmæli - rólegra á Austurvelli

Ég fagna því að mótmælin á Austurvelli voru friðsamleg og rólegra yfir þeim en um síðustu helgi. Veit ekki hvort það skrifast á að færri mættu eða að skipuleggjendur mótmælanna hafi áttað sig á því að þeim var meiri akkur í að tryggja svona týpu af mótmælum. Kannski er líka kominn jólahugur í þá sem hafa mótmælt og rólegra yfir fólki. Þetta er allavega góðs viti eftir það sem laganeminn sagði í hita augnabliksins um síðustu helgi og þegar Hörður Torfa hvatti fólk til að fjölmenna að lögreglustöðinni.

Margoft hef ég sagt að nauðsynlegt sé að almenningur tjái sig um stöðuna og hafi á því skoðanir. Slíkt er aldrei rangt eða óeðlilegt. Málefnaleg mótmæli geta líka haft mjög mikil áhrif. Traustur málstaður felur í það í sér að hægt sé að tjá hann án ofbeldis. Held að þetta sé gullin lexía fyrir mjög marga.


mbl.is Áttundi mótmælendafundurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfiðir tímar framundan hjá kaupmönnum

Þeir kaupmenn sem ég þekki og hef heyrt í eru hræddir við það sem gerist á næstu vikum. Jólaverslunin er framundan og óttinn ekki aðeins hversu mikið verði selt heldur hvort hægt verði að fylla búðirnar af söluvarningi. Nú eru kaupmenn meira að segja í vafa um að geta tryggt okkur jólafötin, jakkaföt og föt almennt muni hreinlega ekki fást. Svo heyrist mér á þeim í matvöruverslunum að alls óvíst sé með jólaávextina.

Haframjölið kláraðist hér á Akureyri í vikunni, svo dæmi sé tekið, og ég gat ekki keypt mér pakka fyrr en ég hafði farið í allar verslanir í bænum þar og fann einn pakka. Hverjum hefði órað fyrir því fyrir aðeins ári að þetta myndi verða svona? Fleiri eru svosem sögurnar um matvöru sem fæst ekki. Held að flestir upplifi þessa stemmningu einhversstaðar. Þeir sem reka verslanir eru hræddir um sinn hag og ekki undarlegt svosem.

Ef ekki mun takast að tryggja jólaverslunina á þeim hlutum sem við teljum mikilvægt, föt og mat, er erfitt framundan. Sumir óttast reyndar að lifa ekki af jólaverslunina og þeir sem tóra af næstu vikur óttast um sinn hag á nýju ári. Óvissuferðin hjá kaupmönnum er því algjör, rétt eins og hjá flestum landsmönnum.

mbl.is Kaupmenn þrauka fram yfir jól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband