15.12.2008 | 21:57
Trúverðugleiki Reynis stórlega skaddaður
Eftir öll orð Reynis Traustasonar um það hversu ótrúverðugur þessi blaðamaður ætti að vera og ómerkilegur fær hann þetta allt framan í sig. Segir meira að segja í spjallinu að Jón Bjarki sé einn af þeirra bestu mönnum. Þvílík niðurlæging. En þessi uppljóstrun vekur spurningar um hversu óháðir og frjálsir fjölmiðlar eru, sérstaklega DV sem löngum hefur flaggað þessu slagorði, allavega síðan Jónas og Ellert voru þar við stjórnvölinn fyrir margt löngu.
Litli landsímamaðurinn varð landsþekktur í fréttaskrifum Reynis Traustasonar fyrir nokkrum árum. Greinilegt er að litli maðurinn á DV sem fékk nóg hefur heldur betur látið til sín taka og sýnt mátt sinn í baráttunni við ritstjórann, sem er stórlega skaddaður á eftir. Hann hefði frekar átt að segja hið rétta í dag en fara ekki í þennan feluleik sem lauk með uppljóstruninni miklu í Kastljósi.
![]() |
Upptaka af útskýringum ritstjóra DV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.12.2008 | 19:55
Jón Bjarki kemur upp um lygar Reynis
Ekki hægt að segja annað en Jón Bjarki Magnússon hafi bundið enda á vafann í DV-málinu með því að birta nokkurra vikna einkasamtal sitt og Reynis Traustasonar í Kastljósi, þar sem Reynir staðfestir allt sem Jón Bjarki hefur sagt í dag. Með því hefur Reynir verið staðinn að lygum, þar sem hann reyndi að búa til útgönguleið út úr umfjölluninni fyrir DV með því að fegra sjálfan sig og stöðuna. Eiginlega er það kuldalega ógnvekjandi að heyra Reyni segja sjálfur að blaðið hefði verið tekið niður ef ekki væri farið eftir skipunum utan úr bæ eftir að hafa neitað því margoft í dag.
Jón Bjarki má eiga það að hann spilar eftir sinni sannfæringu - lét ekki bjóða sér þessi vinnubrögð og ljóstrar upp um málið þegar Reynir reynir að slökkva eldinn. Þetta er sannarlega fjölmiðlun á rauntíma, skúbb af besta tagi. Hann getur verið stoltur af framgöngu sinni, koma með sannleikann og afhjúpa atburðarásina endanlega eftir frekar máttlausir tilraunir til að þagga umræðuna niður.
Eftir standa tvær spurningar. Hver ætlaði að stjórna DV með því að hóta ritstjóranum og hver er það sem stjórnar í raun þessu blaði?
![]() |
Segja blaðamann í herferð gegn DV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.12.2008 | 19:14
Derrick kveður

Í minningunni voru þættirnir um lögregluforingjann Stephan Derrick með því besta sem hægt var að sjá í sjónvarpinu. Undirstaðan í þáttunum var eftirminnileg túlkun Horst Tappert á Derrick. Við andlát Tapperts minnast íslenskir sjónvarpsunnendur þáttanna og leikarans sem var heimilisvinur okkar svo lengi. Þættirnir fjölluðu um lögregluforingjann Stephan Derrick og aðstoðarmann hans, Harry Klein, sem leystu sakamál í München í Bæjaralandi.
Horst Tappert er mjög eftirminnilegur í hlutverki nafna míns, Stefáns Derricks. Ég er svo heppinn að eiga nokkra þætti á spólu sem ég horfi stundum á. Fjarri því eru þetta bestu þættirnir af öllum þessum 25 árum - en Derrick var alltaf góður og fáir voru betri á þessu sviði. Þættirnir voru enda þeirrar gerðar að þeir voru ekki að stæla um of bandaríska þætti svipaðrar gerðar - farið var eigin leiðir.
Ég held að enginn sakamálaþáttur hafi orðið vinsælli í íslenskri sjónvarpssögu og um leið var Tappert mjög vinsæll hérlendis, svo mjög að hann kom hingað í sérstaka heimsókn vegna þáttanna á níunda áratugnum. Aðall þáttanna að mínu mati var að þar var sálfræðin í glæpnum aðalefnið og jafnan var vitað allan þáttinn hver hinn seki var. Farið var í kringum fléttuna af tærri snilld.
Stóri kosturinn við Derrick og þættina var að ekki var verið að stæla þekktar klisjur, heldur voru þeir frumlegir og sterkir í karaktersköpun og sakamálafléttunni. Þeirra verður því minnst lengi og væri reyndar ekki svo amalegt ef einhver stöðin myndi sýna valda þætti og rifja upp forna frægð þáttanna og sterka karaktertúlkun Tapperts.
![]() |
Derrick látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2008 | 10:22
Hverjir stöðvuðu fréttina um Sigurjón í DV?
En þetta er hið vandræðalegasta mál fyrir Reyni og DV. Þetta hlýtur að vekja spurningar um hversu oft hafi verið passað upp á fréttaflutninginn þar og reynt að hafa áhrif á hann.
![]() |
Frétt DV stöðvuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.12.2008 | 10:19
Hillary Clinton selur gjöfina frá Ólafi Ragnari

Mér finnst það mjög fyndið að gjöfin sem Ólafur Ragnar gaf Hillary Rodham Clinton, verðandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og þáverandi forsetafrú, í Íslandsförinni árið 1999 sé komin á ebay. Niðurlæging forsetans getur varla orðið meiri. Þetta er með því vandræðalegra sem maður hefur séð í samskiptum forsetans við erlenda spekinga í stjórnmálastarfi. Þessi saga hefði nú sómt sér vel í nýju forsetabókinni.
Þessi ebay-saga er skemmtileg viðbót við hina frægu sögu um að forsetinn hafi allt að því haldið Hillary í gíslingu á Bessastöðum í dágóðan tíma daginn sem hún kom til landsins haustið 1999 gagngert til að hún kæmi of seint í kvöldverðarboð forsætisráðherra í Perlunni. Þar varð Hillary að mæta í ferðadragtinni, sem hún hafði verið í frá brottför í Washington, á meðan aðrar konur í veislunni voru í sínu besta pússi.
Reiðisvipurinn á Hillary við lok fundarins á Bessastöðum er mörgum eftirminnilegur.
![]() |
Gjöf forseta til Hillary Clinton á Ebay |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.12.2008 | 01:35
Bush verður fyrir skóárás í síðustu Íraksferðinni
Mér fannst það kaldhæðnislegt að George W. Bush skyldi næstum því fá skó í hausinn í síðustu ferðinni til Íraks sem forseti Bandaríkjanna og það á þeim degi þegar fimm ár voru liðin frá því að Bandaríkjamenn handtóku Saddam Hussein. Bush hefur verið mjög umdeildur forseti og lætur af embætti sem einn óvinsælasti þjóðhöfðingi í sögu Bandaríkjanna. Ljóst er að sögulegur sess hans er tryggur og væntanlega munu bókafyrirtækin keppast við að gefa út ævisöguna frá hans sjónarhóli þegar Bush flytur til Texas.
Ég hugleiði reyndar hvað muni eiginlega breytast þegar George W. Bush lætur af embætti. Kannski verður veröldin önnur og ógnirnar aðrar þegar hann lætur af embætti. Hver veit. Ég efast samt um að Osama Bin Laden hætti að minna á sig þó Bush fari af hinu pólitíska sviði. Barack Obama hefur enn ekki gefið neitt til kynna að utanríkisstefna hans verði mjög frábrugðin því sem var í tíð George W. Bush og fékk fyrstu hótunina frá Bin Laden innan við sólarhring eftir forsetakjör sitt. Sú ógn vofir enn yfir.
Obama valdi varnarmálaráðherra Bush-stjórnarinnar sem varnarmálaráðherra sinn. Engin merki eru um mikla uppstokkun á málum í Írak, þó kannski verði fókusinn meiri á Afganistan í forsetatíð Obama en hún var hjá Bush. Obama er farinn að draga í land með brottflutning bandaríska heraflans og hefur sett fram ítarlega stefnumörkun til að verja Ísrael gegn árásum frá Íran. Þar er hótað gjöreyðandi kjarnorkuárásum á Íran ráðist þeir á Ísrael.
Engin merki eru um að Palestína verði stórmál hjá Obama. Tryggðin við Ísrael verður algjör. Svo er auðvitað táknrænt að á öllum póstum í utanríkispólisíu Obama eru einstaklingar sem studdu innrásina í Írak. Utanríkisstefnan virðist við fyrstu sýn mjög lík þeirri sem hefur verið við lýði. Væntanlega verður bara skipt um haus á hatursgrímu Bandaríkjanna sem mögnuð hefur verið fyrir botni Miðjarðarhafs.
![]() |
Bush varð fyrir skóárás |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |