6.12.2008 | 16:54
Mótmælin á Austurvelli að fjara út
Svo er ekki undrunarefni að styrking krónunnar hafi haft áhrif á einhverja, en auðvitað hefur verið mjög ánægjulegt að sjá krónuna styrkjast síðustu dagana og gefur sannarlega fyrirheit um að verja megi íslenska lífsafkomu og undirstöður samfélagsins. Svo er einfaldlega mun rólegra í þessari viku en þeim fyrri síðan í október vegna þess að það hefur aðeins birt til og staðan er orðin skýrari að sumu leyti í stað þess að gengið sé í algjöru myrkri.
Mótmælin náðu að vekja marga af svefninum, enda hafði þjóðin verið sofandi í margar vikur áður en hrunið kom, hvort sem kenna megi fjölmiðlum eða stjórnmálamönnum um það, nema hvort tveggja sé.
![]() |
Ábyrgðin er ekki okkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.12.2008 | 13:52
Geir fikrar sig í Evrópusambandsátt

Enginn vafi er á því að forysta Sjálfstæðisflokksins sýnir afgerandi merki þess nú að lagt verði upp með Evrópusambandsaðild á landsfundinum eftir fimmtíu daga og það verði í raun niðurstaða Evrópunefndarinnar. Ummæli Geirs H. Haarde í morgun eru mjög afgerandi stefnubreyting frá því sem verið hefur undanfarin ár og kom t.d. fram á fundi í Valhöll síðast í haust þar sem hann beinlínis lokaði umræðunni með þeim orðum að þetta kæmi ekki til greina. Nú hefur hann sjálfur opnað dyrnar og er augljóslega að feta sama stíg og Friðrik Sophusson talaði um í Moggaviðtali um daginn.
Mér finnst þetta vera mjög hönnuð atburðarás, svo ekki sé nú meira sagt. Geir hefði vissulega getað komið fram á blaðamannafundinum með Þorgerði Katrínu um daginn og sagt hreint út hvert hann vildi að væri veganesti nefndarinnar og um leið sína eigin skoðun nú. Í staðinn kemur það fram í einhverjum skömmtum og fikrað sig í áttina. Um leið verður æ augljósara að niðurstaða nefndarinnar verður í samræmi við það sem Geir og Þorgerður hafa lagt upp með.
Ég á von á mjög líflegum viðræðum um Evrópusambandið á landsfundinum. Þar verður hin endanlega niðurstaða tekin og væntanlega munu ekki allir verða sáttir við hana, ef marka má hin afgerandi skilaboð formannsins. Hitt er aftur á móti alveg ljóst að mikilvægt er að niðurstaða fundarins verði skýr en ekkert hálfkák, hvort svo sem öllum líkar það.
![]() |
Aðildarviðræður koma til greina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.12.2008 | 01:58
Nýjir tímar eða endalokin framundan í Framsókn?
Formannsslagurinn á milli Páls Magnússonar og Höskuldar Þórhallssonar í Framsóknarflokknum er á yfirborðinu augljóst merki kynslóðaskiptanna sem krafist var á flokksstjórnarfundinum fyrir nokkrum vikum, sem leiddi til að bæði Guðni Ágústsson og Valgerður Sverrisdóttir hafa afsalað sér forystusess sínum og leiðtogahlutverki í aðdraganda næstu þingkosninga. Ljóst hefur verið síðan að Halldór Ásgrímsson yfirgaf pólitíska baráttu og Jóni Sigurðssyni mistókst að leiða flokkinn til farsældar í kjölfarið að þar þyrfti kynslóðaskipti til að flokkurinn ætti raunhæfa möguleika á að endurreisa sig.
Skoðanakannanir frá þingkosningunum 2007 hafa staðfest svo ekki verður um villst að gamla valdakynslóðin í Framsóknarflokknum sem var á ráðherrastóli í stjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hefur ekki tekist að byggja flokkinn upp úr þeim brunarústunum í kjölfar þess að Halldór fór af sviðinu. Honum virðist ómögulegt að komast yfir tíu prósent þröskuldinn og þarf sannarlega á nýjum tímum að halda. Þeir sem enn eru eftir í Framsóknarflokknum eru skiljanlega orðnir þreyttir á erfiðri baráttu undir forystu þeirra sem njóta ekki lengur trausts þjóðarinnar.
Formannsframboð Páls og Höskuldar er ein af leiðum Framsóknar til að ná fótfestu að nýju. Þeir eru báðir lausir við byrðar fortíðarinnar og geta fært Framsókn nýtt upphaf. Ef ekki tekst að byggja flokkinn upp undir forystu nýrrar kynslóðar er augljóst að hann er dauðadæmdur og á sér í raun enga framtíð. Höskuldur býr vissulega vel að því að vera þingmaður og með algjörlega hreinan skjöld á meðan Páll er utan þings og er rækilega tengdur S-hópnum, hvort sem svo það er óverðskuldað eður ei að rifja það upp.
Sumir tala um að þessir þingmenn séu báðir tiltölulega óreyndir og skorti þungavigt. Halldór Ásgrímsson var rétt rúmlega þrítugur þegar hann var orðinn varaformaður Framsóknarflokksins og tók að byggja sína stöðu til forystu innan flokksins. Hann varð ráðherra 36 ára gamall og enn tiltölulega nýr sem varaformaður og þá í raun krónprins. Miðað við það er ekkert óeðlilegt að ungir menn vilji forystusess. Þeir verða þá að byggja upp vigt sína og vinna sig upp í hlutverkið.
Þessi landsfundur og formannskosningin er í raun örlagapunktur í langri sögu Framsóknarflokksins. Annað hvort verður þar horft til framtíðar og sagt skilið við forna valdatíð eða hann heldur áfram að hníga og á sér enga framtíð. Þetta er því spurning um endalok eða nýju tímana. Því er ekki óeðlilegt að þeir sem gefið hafa kost á sér séu allir ungir og lausir við byrðar fortíðar. Skilaboðin þar eru sennilega skýr, þau að klippt sé á Halldórstímann fyrir fullt og allt.
![]() |
Jón Vigfús býður sig fram til formanns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |