Nýjir tímar eða endalokin framundan í Framsókn?

Formannsslagurinn á milli Páls Magnússonar og Höskuldar Þórhallssonar í Framsóknarflokknum er á yfirborðinu augljóst merki kynslóðaskiptanna sem krafist var á flokksstjórnarfundinum fyrir nokkrum vikum, sem leiddi til að bæði Guðni Ágústsson og Valgerður Sverrisdóttir hafa afsalað sér forystusess sínum og leiðtogahlutverki í aðdraganda næstu þingkosninga. Ljóst hefur verið síðan að Halldór Ásgrímsson yfirgaf pólitíska baráttu og Jóni Sigurðssyni mistókst að leiða flokkinn til farsældar í kjölfarið að þar þyrfti kynslóðaskipti til að flokkurinn ætti raunhæfa möguleika á að endurreisa sig.

Skoðanakannanir frá þingkosningunum 2007 hafa staðfest svo ekki verður um villst að gamla valdakynslóðin í Framsóknarflokknum sem var á ráðherrastóli í stjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hefur ekki tekist að byggja flokkinn upp úr þeim brunarústunum í kjölfar þess að Halldór fór af sviðinu. Honum virðist ómögulegt að komast yfir tíu prósent þröskuldinn og þarf sannarlega á nýjum tímum að halda. Þeir sem enn eru eftir í Framsóknarflokknum eru skiljanlega orðnir þreyttir á erfiðri baráttu undir forystu þeirra sem njóta ekki lengur trausts þjóðarinnar.

Formannsframboð Páls og Höskuldar er ein af leiðum Framsóknar til að ná fótfestu að nýju. Þeir eru báðir lausir við byrðar fortíðarinnar og geta fært Framsókn nýtt upphaf. Ef ekki tekst að byggja flokkinn upp undir forystu nýrrar kynslóðar er augljóst að hann er dauðadæmdur og á sér í raun enga framtíð. Höskuldur býr vissulega vel að því að vera þingmaður og með algjörlega hreinan skjöld á meðan Páll er utan þings og er rækilega tengdur S-hópnum, hvort sem svo það er óverðskuldað eður ei að rifja það upp.

Sumir tala um að þessir þingmenn séu báðir tiltölulega óreyndir og skorti þungavigt. Halldór Ásgrímsson var rétt rúmlega þrítugur þegar hann var orðinn varaformaður Framsóknarflokksins og tók að byggja sína stöðu til forystu innan flokksins. Hann varð ráðherra 36 ára gamall og enn tiltölulega nýr sem varaformaður og þá í raun krónprins. Miðað við það er ekkert óeðlilegt að ungir menn vilji forystusess. Þeir verða þá að byggja upp vigt sína og vinna sig upp í hlutverkið.

Þessi landsfundur og formannskosningin er í raun örlagapunktur í langri sögu Framsóknarflokksins. Annað hvort verður þar horft til framtíðar og sagt skilið við forna valdatíð eða hann heldur áfram að hníga og á sér enga framtíð. Þetta er því spurning um endalok eða nýju tímana. Því er ekki óeðlilegt að þeir sem gefið hafa kost á sér séu allir ungir og lausir við byrðar fortíðar. Skilaboðin þar eru sennilega skýr, þau að klippt sé á Halldórstímann fyrir fullt og allt.


mbl.is Jón Vigfús býður sig fram til formanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Ég held að það yrði gæfa framsóknarflokksins að velja Höskuld. Þar fer góður maður.

Hólmdís Hjartardóttir, 6.12.2008 kl. 02:11

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Til að höfða á eðlilegan hátt til (traustra og annarra vinsamlegra) fylgismanna flokks, sem er ekki fæddur í gær, er ekki gott að vera með öllu "laus við byrðar fortíðar," því að trúnaður við a.m.k. ýmislegt úr gömlum, góðum, gildum hugsjónar- og baráttumálum flokks hlýtur að mæla með mönnum til að geta komið fram sem góðir fulltrúar og foringjar þess flokks.

Þú leggur, Stefán, Pál og Höskuld að jöfnu sem unga menn báða, en sá síðarnefndi sýnist mér standa nær góðum og gildum stofnþáttum Framsóknarflokksins, ekki sízt ef í ljós kemur, að Höskuldur sé andvígur þeirri innlimum Íslands í Evrópubandalagið, sem bæði bændasamtök í Eyjafirði og Bændasamtök Íslands hafa varað mjög við nú nýlega. Páll er hins vegar ekki aðeins "rækilega tengdur S-hópnum," eins og þú segir, heldur er hann einnig réttilega talinn tengdur Halldóri Ásgrímssyni, sem teygði flokkinn talsvert út af traustri braut sinni, og Páll er einn ungu, úrbaníseruðu tæknikratanna og raunar evrókratanna í flokknum, sem má heita undarlegt, eins og slíkt eðliseinkenni geti höfðað eitthvað sterkt til grasrótar flokks, sem hefur allt annan hugsjónagrunn, og eins og slíks sé nokkur þörf, þegar við höfum annan flokk, þar sem evrókratisminn á vitaskuld heima (Samfylkinguna) og finnur sér þar farveg og mótar þar sín öflugu vígi. "Úrbaníseraðir" (urbs = borg) merkir hér ekki einfaldlega "borgarvæddir" eða eitthvað þ.u.l., heldur, að þessir menn séu með megináherzlu sína á þéttbýlið fremur en sveitahéruðin og sjávarbyggðirnar utan Reykjavíkursvæðisins, en ekki einungis það, heldur orðnir beinlínis upp á kant við hagsmuni uppistöðustétta landsbyggðarinnar utan SV-hornsins, þ.e.a.s. bænda, sjómanna og útvegsmanna. Þetta sést af andstöðu LÍÚ og Bændasamtaka Íslands gegn EB-aðild.

Hversu mjög sem þetta er augljóst, sem og að gamla grasrótin í Framsókn er hliðholl eða a.m.k. ekki fjandsamleg lífshagsmunum bænda og sjómanna, þá standa Páll Magnússon og aðrir ungir félagar hans, flestir af mölinni, sem og ýmsir aðrir rosknari úr Halldórshópnum (Valgerður, Magnús Stefánsson o.fl. og sennilega Siv), keikir og sókndjarfir fyrir sinn evrókratisma, sem beinist þó gegn þessum umgetnu lífshagsmunum og gegn hinum þjóðlegu fullveldishagsmunum Íslendinga.

Vel má vera, að þessum evrókratísku mönnum takist að smala til sín fylgi í prófkjörum og jafnvel fleiri fulltrúakosningum, EF þau prófkjör eru opin mönnum úr öðrum flokkum eða óflokksbundnum, sem þó eru að upplagi fylgjandi öðrum flokkum (svo sem Samfylkingu), og vel má vera, að þeir komist þannig til meirihlutaáhrifa í Framsókn, en það merkir ekki, að þeir hrífi með sér meira fylgi til Framsóknar í kosningum né í skoðanakönnunum (er þetta síðarnefnda ekki augljóst?). Ástæðan er sú, að lausagoparnir, sem hlaupa inn í kjörklefa Framsóknar í prófkjörum, gera það til þess eins að styðja við sín eigin hugðarefni (t.d. EB-innlimun) þar, en stökkva svo frá þessum flokki í raunverulegu kosningunum, því að í öðrum flokki (einkum Samfylkingu) eiga þeir sinn eiginlega baráttuvettvang.

En þetta gerir Framsókn ekkert gott og dregur úr trúverðugleik hennar gagnvart fastafylginu, sem lengst af var (og taldist traust), en er það greinilega ekki lengur við svo búið. Hins vegar höfða bæði Guðni Ágústsson og Bjarni Harðarson sannarlega til þess fastafylgis og til þeirra í þéttbýlinu sem hliðhollir eru bæði bændum og alþýðu úti á landi. Þess vegna verður svo sannarlega jarðvegur fyrir klofning í nýjan flokk, ef Páll og aðrir Evrópubandalagssinnar sigra á flokksþinginu (sem mig minnir að verði í janúar); sá nýi flokkur verður trúlega í sterkari stöðu en Bændaflokkur Tryggva Þórhallssonar, Þorsteins Briem (ráðherra), Jóns alþm. Jónssonar í Stóradal, Hannesar alþm. Jónssonar á Hvammstanga, Halldórs alþm. Stefánssonar, Magnúsar sýslumanns og alþm. Torfasonar, Sigurðar Sigurðsasonar búnaðarmálastjóra og ýmissa (fleiri) máttarstólpa í Búnaðarfélaginu, m.a. Sveins Ólafssonar í Firði, auk Péturs alþm. Magnússonar, bankastj. og síðar ráðherra, sem kom úr Sjálfstæðisflokki.

Bændaflokkurinn var stofnaður 1933, en náði aðeins 6,4% fylgi í kosningunum 24. júní 1934 (en Kommúnistaflokkurinn 6,0%), og sjálfur Tryggvi féll í Strandasýslu, þar sem Hermann Jónasson náði þingsætinu. Tap Bændaflokksins var að mestu herstjórnarlist Jónasar frá Hriflu að kenna eða þakka (eftir því hvernig menn líta á það!). En Bændaflokkurinn stóð með sjálfseignarbændum, og gegn þeim stóðu hinir "bæjarradikölu" í Reykjavík, "menn með lífsskoðun Eysteins Jónssonar (sósíalistar) sem öllu réðu [í Framsókn], en bændaöldungarnir væru horfnir úr flokknum" (frásögn Tryggva af fundi við Ölfusárbrú í apríl 1934, eins og Guðjón Friðriksson skráir hana óbeint í III. bindi ævisögu Jónasar frá Hriflu, Ljónið öskrar (1993), s. 32 (sbr. og s. 37 og 40, viðhorf Sveins í Firði, og 41 efst).

Þarna er því upp komin viss hliðstæða við núverandi ástand: "borgarradikalarnir" eru að reyna að taka Framsókn yfir, en helzt naumast jafn-vel á fastafylginu og snillingnum Jónasi tókst, ef til viðbótar við lævísi gagnvart bændum (ekki bara sumum, heldur öllum) bætist niðurrifsstarfsemi gagnvart þjóðlegri fullveldishugsjón flestra Framsóknarmanna. Sigri evrókratarnir afgerandi á flokksþinginu í janúar, er viðbúið að Bjarni og Guðni hafi grundvöll til myndunar flokks (sem flygi a.m.k. inn á þing á Suðurlandi), en ef eins skyldi æxlast á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í lok sama mánaðar, er mjög líklegt, að komið sé beint tilefni til miklu breiðari flokksstofnunar bæði hægri- og miðjumanna, þar sem fólk úr síðarnefnda flokknum yrði mun fjölmennara en þeir sem úr Framsókn kæmu.

Jón Valur Jensson, 6.12.2008 kl. 04:25

3 Smámynd: Eysteinn Þór Kristinsson

Þú meinar væntanlega nýir! En annars góðir punktar. Þetta verður hörkubarátta. Sérkennileg rök heyrði ég þó frá varaformanns kandidatnum. "Skýr skilaboð um endurnýjun á forystu og þingliði", sagði kappinn sem er á sínu öðru kjörtímabili og bíður sig svo fram til forystu. Hann á náttúrulega enga sök...... Byrgið hvað!!??

Eysteinn Þór Kristinsson, 6.12.2008 kl. 08:44

4 identicon

Kostulegt og í senn lýsandi fyrir Framsókn að þrír nóboddýs skulu bjóða sig fram til formanns.  Blessuð vertu Framsókn það var gaman að kynnast þér.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 6.12.2008 kl. 11:35

5 identicon

Heill og sæll

Röskir veggjahleðslumenn eru nú kallaðir til verka.Nýir tímar eru því framundan hjá X-B-ekki spurning!

Róbert Trausti Árnason (IP-tala skráð) 6.12.2008 kl. 12:15

6 Smámynd: Óðinn Þórisson

Ég er ekki svo viss um að þetta verði svo mikill slagur eins og menn kanski telja að hann verði.
Vissulega hefur Höskuldur komið sterkur til leiks en ég dreg i efa að hann hafi styrkinn til að verða formaður flokksins.
Það er alltaf ákveðin styrkleikamerki fyrir flokk þegar óþekktir aðilar eins og Jón Vigfús stígur fram og býður sig fram í æðsta embætti flokksins en þetta er vonlaus barátta hjá honum - því miður fyrir hann.
Páll Magnússon er með mikla reynslu og þekkir vel til og held ég að hann sé í raun og veru eini valmöguleikinn og ekki skemmir það fyrir honum að vera Kópavogsbúi.

Ég veðja á Pál en hvort hann muni breyta einhverju með fylgið skal ég ekkert segja til um.
Á Framsókn framtíð - ekki hugmynd - kanski er það rétt hjá BH að ef flokkurinn samþykkir að vilja ESB-aðild að best væri að leggja flokkinn niður og að hann sameinist sf.

Óðinn Þórisson, 6.12.2008 kl. 13:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband