Framsóknarflokkurinn fikrar sig í Evrópuátt

Mér finnst það mjög merkileg tíðindi að Framsóknarflokkurinn hafi ákveðið hreint út að lýsa yfir stuðningi við aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Með því er áralöngum deilum um málið úr sögunni innan flokksins í þeirri mynd sem þær hafa verið, sem lengi vel einkenndust af persónulegum átökum Halldórs Ásgrímssonar og Guðna Ágústssonar. Þetta markar nýtt upphaf innan flokksins og vekur spurningar um hvort flokkurinn nær einhverjum sóknarfærum á þessari stefnumótun.

Að mörgu leyti ræðst það af því hver á að stjórna stefnumótuninni í þeirri Evrópuátt sem Framsóknarflokkurinn hefur tekið. Formannskjörið á sunnudag ræður enn meiru um það vissulega en þessi kosning. Þar sem formannsefnin þrjú sem eiga raunhæfa möguleika á að taka við formennskunni eru með mismunandi sýn á Evrópu og hvaða fókus eigi að setja á málaflokkinn verður það í raun sú kosning sem ræður ferlinu sem tekur við.

Í raun er sú kosning mun frekar um framtíð flokksins en nokkurn tímann þessi stefnumótun. Hún er í raun svo opin að nýr formaður getur teygt hana og leitt í hana hvaða átt sem hann telur henta sér. Í raun verður sá talsmaður sá áttaviti sem stýrir för flokksins. Þar sem greinilega eru nýjir tímar í augsýn fyrir Framsókn ræður mestu hvaða fókus nýr formaður setur á málin og hvernig hann vill reyna að höfða til kjósenda í þeim rústum sem hann er í nú.

Er Björn Ingi að fara í stjórnmál eða viðskipti?

Ég er ekki hissa á því að Björn Ingi Hrafnsson sé hættur með Markaðinn. Mikið var deilt um verk hans í kjölfar bankahrunsins og þegar við bættist að þáttur hans var færður úr eigin plássi yfir í kvölddagskrána var eðlilega spurt um framtíð hans hjá blaðinu. Óvenju harkaleg skrif Páls Baldvins Baldvinssonar, ritstjórnarfulltrúa Fréttablaðsins, um þátt Björns Inga þóttu líka mjög merkileg, miðað við að Björn Ingi var yfirmaður viðskiptaumfjöllunar blaðsins.

Stóra spurningin er hvort Björn Ingi sé að fara aftur í pólitíkina eða einhver viðskipti. Orðalagið vekur sannarlega athygli, enda var lengi talað um að draumur Björns Inga væri að ná frama innan Framsóknarflokksins, en brotthvarf hans úr framlínusveit flokksins vakti mikla athygli fyrir nákvæmlega ári þegar búmmerang Björns Inga í borgarmálunum snerist honum í óhag.

mbl.is Björn Ingi hættur á Markaðnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur og Árni semja um launalækkun forseta

Nú hafa Ólafur Ragnar og Árni Mathiesen náð saman um að lækka laun forsetans. Ég er hissa á forsetanum að hafa ekki þegar óskað beint eftir því að fjármálaráðherra tæki þetta verkefni að sér, enda vitað mál frá upphafi að Kjararáð myndi aldrei lækka launin eða taka forystuna um það. Ljóst er að laun forsetans eru stjórnarskrárvarin og því augljóst að til þyrfti að koma ákvörðun ráðherra úr ríkisstjórninni, pólitísk ákvörðun semsagt, að lækka launin þar sem kjörtímabil forsetans er nýlega hafið.

Svo verður að ráðast hvort eitthvað mál verði gert úr því að ganga gegn stjórnarskránni. Efast þó stórlega um það. Forsetinn þarf að vera táknmynd sparnaðar eins og aðrir sem leiða för nú. Forsetinn ætti þó að hafa það hugfast að hann verður að spara á öðrum sviðum til að vera trúverðugur í þeim efnum, svo þetta sé ekki eitt leikrit. Eitt dæmið er að lækka ferðakostnaðinn og sennilega að lækka símreikninginn umtalsvert, svo fátt eitt sé nefnt.


mbl.is Laun forseta verða lækkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Launalækkun forsetans ekki samþykkt

Þá er það ljóst sem allir vissu áður, og einkum forseti Íslands sjálfur mátti vita, að ekki er hægt að lækka laun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Hann er eini embættismaðurinn í stjórnkerfinu sem er beinlínis verndaður í stjórnarskránni fyrir launalækkun og tryggt að ekki megi hrófla við kjörum hans á kjörtímabilinu. Ég benti á það í grein þann 22. desember sl. að það væri sýndarmennska hjá forsetanum að fara fram á launalækkun sem hann vissi fyrirfram að væri stjórnarskrárbrot. Þessi úrskurður Kjararáðs var því mjög fyrirsjáanlegur.

Í níundu grein stjórnarskrár stendur: "Forseti lýðveldisins má ekki vera alþingismaður né hafa með höndum launuð störf í þágu opinberra stofnana eða einkaatvinnufyrirtækja. Ákveða skal með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra, sem fara með forsetavald. Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans."

Þetta er eins skýrt og það má vera. Samt sem áður fór Ólafur Ragnar sérstaklega fram á þessa lækkun vitandi mjög vel að það myndi aldrei gerast.

mbl.is Kjararáð getur ekki lækkað laun forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íkveikja á Klapparstíg - tilræði við fólk

Enn einu sinni hefur eldur nú verið kveiktur af mannavöldum í fjölbýlishúsi í Reykjavík. Dapurlegra er en orð fá lýst að kveikt sé í heimili fólks - ótrúleg mannvonska sem í því felst. Heimili fólks er þeirra helgasti staður og er ekkert nema tilræði við þá sem þar búa að reyna að kveikja eld þar um hánótt. Tilgangurinn er enginn nema skaða fólk.

Hvað er að þeim sem kveikja í hjá fólki sem sefur um nótt og gerir tilraun til að brenna það inni.

mbl.is Grunur um íkveikju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kraftaverkið á Hudson-fljóti

Vél US Airways í Hudson-fljóti
Held að það geti ekki talist neitt nema hreint kraftaverk hversu vel tókst til eftir að vél US Airways hrapaði í Hudson-fljót í kvöld. Að allir 155 farþegarnir sleppi lifandi frá svo alvarlegu slysi er stórmerkilegt og sannarlega betri tíðindi en manni óraði fyrir þegar fyrirsögnin um flugvél í sjónum birtist á fréttamiðlunum, neti og sjónvarpsstöðvunum.

Þarna fór sannarlega betur en á horfðist og í raun stórmerkilegt afrek í alla staði.

mbl.is Talið að allir hafi komist lífs af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband