27.1.2009 | 23:08
Kompás með skúbb í Kastljósi - skuggaverk viðskipta
Mér fannst mjög merkilegt að sjá skúbb Kompás-fréttamannsins Kristins Hrafnssonar í Kastljósi í kvöld. Þetta voru vægast sagt skuggalegar upplýsingar og væntanlega toppurinn á glæfraverkum í bönkunum. Sé það rétt að á þriðja hundrað milljarða hafi verið lánaðar til góðvina Kaupþingsmannanna, fyrrum viðskiptafélaga Jóns Ásgeirs, viðskiptaveldis í molum er það skelfilegt í alla staði. Er þetta kannski ástæðan fyrir því að lokað var á Kompás og þeir látnir fara sem ekki pössuðu inn í glansmynd Stöðvar 2 í kreppunni?
Merkilegt er að lesa boðskap Sigurðar Einarssonar, fyrrum stjórnarformanns Kaupþings. Þetta er maðurinn sem var á bakvið öll skuggaverkin í Kaupþingi ásamt fleirum mönnum, skuggaverk viðskipta sem þarf að gera upp og klára með viðeigandi hætti.
Eðlilega er spurt hve lengi vont geti versnað; subban og svínaríi viðskiptalífsins geti haldið áfram að sjokkera og ergja fólkið í landinu. Botnlaus spilling virðist vera eftirmæli þeirra sem fóru um heiminn með forsetanum og þóttust vera alvitrir.
![]() |
Atlaga felldi íslenska kerfið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.1.2009 | 18:18
Hvað fær Framsókn fyrir oddastöðu sína?
Nú reynir á hvað Framsóknarflokkurinn fái fyrir sinn snúð. Kosningar í vor er auðvitað draumavalkostur fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins. Hann vill ná að stimpla sig inn og endurreisa Framsókn og kannanir gefa til kynna að honum hafi tekist að rífa flokkinn upp úr lægðinni. Þeir settu dagsetninguna 25. apríl fram sem kjördag í boði sínu. Þeir munu sækja það fast.
VG og Framsókn ættu að geta sameinast um 25. apríl sem kjördag og Sjálfstæðisflokkurinn getur örugglega gert það líka, þá mánuði eftir landsfund. Spurningin er um Samfylkinguna. Þar er allt í einu talað um 30. maí, miklu síðar en Sjálfstæðisflokkurinn lagði til. En augljóst er að kosið verður mjög fljótlega og sennilega fyrir 9. maí, þó ekki sé það útilokað. Sú er krafa þeirra sem vinna með Samfylkingu nú.
En Framsókn er ekki þekkt fyrir hógværð þó þeir hafi gengið í gegnum vonda og dimma daga. Þeir fá þingforsetann, fyrir annaðhvort Valgerði eða Siv, en munu örugglega sækja sér meiri völd en bara hjásetu og að vera ódýr. Þeir munu sækja sér sín völd með einum eða öðrum hætti og hafa raunhæf völd með oddastöðu sinni.
Enn og aftur eru þeir miðpunktur íslenskra stjórnmála. Hverjum hefði órað fyrir því að það gerðist svo fljótlega eftir að Halldór rann út úr íslenskri pólitík og Jóni Sigurðssyni mistókst að komast á þing og endurreisa flokkinn.
![]() |
Sigmundur Davíð kemur á fund |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.1.2009 | 16:42
Ballið byrjað - VG vill endurskoða IMF-samninginn
Held að þetta verði spennandi ríkisstjórn fyrir pólitísku áhættufíklana, þá sem hafa gaman af núningu og spennu - sama fólkið og naut þess að sjá endalok Þingvallastjórnarinnar í hægspilun. Ef vinstri grænir gera alvöru úr öllum sínum málum mun ekki vanta fréttir og spennu í íslensk stjórnmál, þegar við bætist niðurskurðurinn á öllum sviðum sem þeir þurfa að leiða má búast við að allt geti gerst.
En uppstokkun samnings við IMF er greinilega lykilmál vinstri grænna og væntanlega mun fjármálaráðherra vinstri grænna fara með veganesti til verka um að breyta honum. En það getur gengið erfiðlega, samningaviðræður við IMF verða eflaust snúnar. Erfitt verður að fara af þessari vegferð nema fórna samningnum algjörlega.
![]() |
Munu leita eftir endurskoðun á IMF-samningi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.1.2009 | 15:40
Ágúst Ólafur hættir í pólitík - grafið undan honum
Ég er ekki hissa á því að Ágúst Ólafur Ágústsson hafi ákveðið að hætta í stjórnmálum, enda hefur svo markvisst verið grafið undan pólitískri stöðu hans æ ofan í æ innan Samfylkingarinnar. Maður sem er varaformaður stjórnarflokks en hefur ekki stuðning til að verða ráðherra innan ríkisstjórnar og er svo lofað þingflokksformennsku sem sárabót en líka svikinn um það er augljóslega í pólitísku tómarúmi og hefur ekkert traust til verka. Hann er auðvitað núlleraður í pólitík.
Merkilegast í yfirlýsingu Ágústs Ólafs í dag, um að hætta sem varaformaður og fara af þingi, er að hann hafi ákveðið um helgina að hætta sem þingmaður og sækjast ekki eftir ráðherrastól. Miðað við þetta er augljóst, sem blasir við öllum, að viðræður Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins á heimili Geirs H. Haarde voru pólitískt sjónarspil eftir að völdin höfðu verið tekin af Ingibjörgu Sólrúnu og hún stóð frammi fyrir stjórnarslitum þegar hún kom frá Svíþjóð.
Ágústi hlýtur að vera létt. Nú verður ekki hægt að grafa meira undan honum, sennilega ómögulegt sjálfu sér.
![]() |
Ágúst Ólafur hættir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.1.2009 | 13:16
Fyrsti samkynhneigði forsætisráðherrann
Hverjum hefði órað fyrir því þegar Jón Baldvin niðurlægði Jóhönnu á flokksþingi Alþýðuflokksins árið 1994 að hún ætti eftir að verða forsætisráðherra, þó án þess að verða flokksformaður fyrst. Hún sagði þá að sinn tími myndi koma og það gerist nú heldur. Hvernig ætli Jóni Baldvini lítist á væntanlegan forsætisráðherra Samfylkingarinnar?
Væri ekki verðugt fyrir einhvern sagnfræðinginn að skrifa bók um endalaust hatur þeirra hvort á öðru og markvissar tilraunir beggja til að grafa undan hvoru öðru í vægðarlausu valdastríði á tíunda áratugnum?
![]() |
Minn tími mun koma, sagði Jóhanna 1994 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.1.2009 | 00:50
Gamaldags hrossakaup með baktjaldamakki
Eftir margra ára stjórnarandstöðuvist reynir nú í fyrsta skipti fyrir alvöru á bardagamanninn Steingrím Jóhann Sigfússon og vinstri græna í ríkisstjórn. Einn helsti andstæðingur lánsins frá IMF verður nú fjármálaráðherra og þarf að fara í það merkilega verkefni að skera niður og dekstra við samninginn við IMF, ekkert annað blasir við á næstunni. Enn hefur mesta höggið ekki riðið yfir í þeim efnum. Vinstri grænir þurfa nú að hætta týpísku tali sínu á móti öllu og fara í verkin. Þar reynir á hvernig flokkurinn standi sig í alvöru verkum.
Mér finnst fall ríkisstjórnarinnar og myndun nýrrar stjórnar vera týpískt fyrir gamaldags pólitík og vinnubrögð sem einhverjir vonuðust eftir að væru hluti af fortíðinni. Þetta eru týpísk gamaldags hrossakaup með baktjaldamakki og stólaskiptum. Enn kemur það í ljós að allir eru tilbúnir að gera allt fyrir stólana sína. Nema kannski Sjálfstæðisflokkurinn. Hann hefði getað haldið völdum með því að sætta sig við forsætisráðherra úr Samfylkingunni en afþakkaði það og heldur þess í stað í stjórnarandstöðu.
Ekki verður vart við neinn fögnuð með fall ríkisstjórnarinnar nema hjá mjög fámennum hóp. Engin umskipti verða í pólitíkinni. Vinstri grænir setjast bara að kjötkötlunum og fara í stólamakk til að maka eigin krók. Nema hvað. Þetta er pólitískur hráskinnaleikur eins og hann bestur, eða kannski verstur frekar, sennilega betra orðað þannig. Þetta er gamaldags pólitík eins og við þekkjum svo vel. Hugsað er um stólana fram yfir málefnin. Hvaða málefni munu nýjir stjórnarflokkar ná samstöðu? Þetta verður einhver stuttur stikkorðalisti og svo samningar um stólana, eins og við sjáum þegar glitta í.
Erfiðir tímar eru framundan. Við blasir að skera þarf niður á öllum sviðum í takt við samninginn við IMF. Vinstri grænir blótuðu þeim samningi í sand og ösku en fara nú í það merkilega verkefni að hlúa að honum. Verður eflaust gaman fyrir þá að vera blóðugir upp fyrir axlir í niðurskurði. Hlakka til að sjá Ögmund Jónasson, nýjan heilbrigðisráðherra, koma með töfralausnirnar sínar þar sem áður þurft að spara sjö milljarða bara á þessu fjárlagaári.
Og enn á ástandið eftir að versna og vondar ákvarðanir framundan. Held að enginn sé öfundsverður að þessu nema vinstri grænir sem loksins geta sýnt hvað í þeim býr. Þeir eru þegar gengnir valdinu á hönd - byrjaðir að gefa eftir og makka með.
![]() |
VG leggur línurnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)