Klókindi Sigmundar Davíðs - vænleg oddastaða

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur spilað snilldarvel úr oddastöðu sinni í íslenskum stjórnmálum og minnir nú á stöðu sína og flokksins í nýju pólitísku landslagi. Hann er með mjög mörg tromp á hendi og hefur með klókindum tekið vinstriflokkana og lokað þá inni saman í ríkisstjórnarsamstarfi og mun passa vel upp á sérstöðu sína og þau mál sem Framsókn getur hugsað sér að styðja eður ei. Minnihlutastjórnin situr upp á náð og miskunn framsóknarmanna svo þeir hafa náð mjög vænlegri stöðu.

Í Kastljósi kvöldsins kom Sigmundur Davíð sem aðalspilarinn í íslenskri pólitík núna; sá sem hefur líf einnar ríkisstjórnar í hendi sér og getur spilað hlutina að sinni vild. Hann talaði gegn skattahækkunum, gegn því að hætta við hvalveiðarnar og því að frysta eigur auðmanna nema fyrir lægi rökstuddur grunur um eitthvað ólöglegt. Augljóst er að gamla Framsókn hefur náð vopnum sínum og mun passa vel upp á landsmálin og hafa vinstriflokkana undir kontról.

Þetta kallar maður kænsku par excellance. Framsóknarmaddaman gamla er lifnuð við og orðinn örlagavaldur í íslenskum stjórnmálum að nýju. Þeirra skilyrði verða vel áberandi á næstunni, enda kemur minnihlutastjórnin engu í gegn nema Framsókn leggi henni lið.

mbl.is Samþykkja stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að velja pólitíska utanþingsráðherra?

Mér líst mjög vel á það að tveir ráðherrar utan þings taki sæti í ríkisstjórn en finnst það mjög óheppilegt að þeir hafi einhver pólitísk tengsl eða séu fyrrum stjórnmálamenn. Nóg er af stjórnmálamönnum á þingi og alveg óþarfi að velja utanþingsráðherra við þessar aðstæður sem eru nýlega búnir að taka ákvörðun um að hætta afskiptum af stjórnmálum og hafa ekki séð ástæðu til að sinna verkum á þeim vettvangi.

Valið á Bryndísi Hlöðversdóttur sem dómsmálaráðherra mun því verða mjög umdeilt, tel ég, ef af verður. Hún var þingmaður í áratug og hluta þess tíma þingflokksformaður Samfylkingarinnar og uppfyllir því varla skilyrðin sem teljast eðlileg við þessar aðstæður, hvað svo sem segja má annað um hana.

Annað gildir um Gylfa Magnússon sem viðskiptaráðherra, en ég tel mjög mikilvægt að sama hvaða stjórn hefði setið fram að kosningum hefði verið valinn einstaklingur utan stjórnmála til verka þar og sama hefði í raun átt að gilda um fjármálaráðuneytið.

Þeir sem töluðu t.d. um það að dýralæknir gæti ekki verið fjármálaráðherra hljóta að vera sérstaklega ósáttir við að jarðfræðingur verði fjármálaráðherra, ef þeir eru sjálfum sér samkvæmir.

mbl.is Tveir ráðherrar utan þings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gaukur sýknaður - merkilegur bloggdómur

Mér finnst merkilegt að Ómar R. Valdimarsson hafi tapað málinu sem hann höfðaði gegn Gauki Úlfarssyni vegna ummæla hans í sinn garð. Þarna er snúið við fyrri úrskurði þar sem ummælin voru dæmd dauð og ómerk og Gaukur þurfti að borga skaðabætur. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að fólk verði að gá að sér þegar að það skrifar á blogg. Eitt er að hafa skoðanir, annað er að ráðast ómerkilega að fólki og með ósmekkleg ummæli.

Mér fannst Gaukur ekki ganga mjög harkalega fram í þessu máli og skil því niðurstöðuna. Of langt hefði verið gengið í að dæma hann harkalega fyrir þetta. Eflaust verða málin fleiri síðar meir en þetta er sögulegur dómur og mjög merkilegur, enda hlýtur hann að setja svolítið fordæmi og hækka standardinn um hversu langt megi ganga í bloggskrifum.

Eflaust er metið hvert mál fyrir sig, en bloggskrif verða sífellt algengari og sumir ganga misjafnlega langt í orðavali. Á næstu árum mun sífellt meira reyna á hversu mikið er að marka bloggskrifin og hversu langt sé hægt að ganga.

mbl.is Sýknaður af ummælum í bloggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna verður heimsfræg vegna einkalífsins

Jóhanna Sigurðardóttir, verðandi forsætisráðherra, er orðin heimsfræg á einni nóttu, þó ekki vegna stjórnmálastarfa eða ummæla um stjórnarmyndun á Íslandi heldur einkalífsins síns. Sú staðreynd að hún verður fyrsti samkynhneigði forsætisráðherrann í heiminum vekur mun meiri athygli erlendis en hvað vinstristjórnin undir forystu hennar ætlar að gera eða að hún sé fyrsta konan sem verður forsætisráðherra á Íslandi.

Ég skrifaði færslu um þetta á þriðjudag en sumir sem kommentuðu þá voru undrandi á skrifunum og voru sumir frekar orðljótir. Síðan hefur þetta orðið heimsfrétt og á öllum fréttamiðlum sem ég hef litið á og sett inn nafn Jóhönnu til að leita eða séð fréttir af einhverju tagi er þetta nær einvörðungu fyrirsögnin. Kannski vekur þetta enn meiri athygli en ella því Jóhanna hefur ekki lifað opinberlegu einkalífi og passað vel upp á það.

Meira að segja Perez Hilton hefur bloggað um Jóhönnu og segir það meira en mörg orð hver verður helsta fyrirsögnin í erlendum fréttamiðlum þegar hún tekur við forsætisráðherraembættinu á laugardaginn.

mbl.is Jóhanna vekur heimsathygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð vildi lækka vextina - stoppað af IMF

Ljóst er nú að IMF stýrir í raun stýrivaxtastigi Seðlabankans og fer með full völd í ljósi samkomulags við þá. Eðlilegt er að yfirstjórn Seðlabankans tilkynni þetta og geri ljóst hver ræður í raun för. Merkilegast af öllu finnst mér að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn telur rétt að halda stýrivaxtastigi háu, t.d. í ljósi stöðunnar í íslenskum stjórnmálum og því sem hefur verið að gerast síðustu dagana. Slíkt gefur til kynna að þeir eru ekki ánægðir með stöðuna, eða vilja sjá til.

Aðstoð IMF er vissulega umdeild. Ljóst er að aðstoðin að utan er dýru verði keypt. Við verðum að sætta okkur við vald þeirra. Fróðlegt verður að sjá hvernig gangi fyrir vinstristjórnina að vinna með þeim, t.d. að hinum mikla niðurskurði á öllum sviðum.

mbl.is Vildu lækka vexti en ekki IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmælabylgjan heldur áfram - vinstrið og NATÓ

Ég verð að viðurkenna að ég átti von á að einhver læti myndu verða vegna NATÓ-málfundarins, enda margir orðnir mjög æfðir í mótmælum og sumir fylgja þeim straumi vegna hitans í mótmælabylgjunni. Atlantshafsbandalagið hefur alltaf verið umdeilt hjá sumum vinstrimönnum. Samt sem áður hafa vinstrimenn aldrei bundið enda á aðild Íslands að því, þó þeir hafi komist í lykilstöðu.

Ekki náðist samstaða um það í vinstristjórninni 1978 þegar Framsókn tókst að spila með vinstriflokkana. Nú virðist reyndar Framsókn hafa tekist að spila með vinstriflokkana aftur og varla búið með það. Eflaust er eðlilegt að skiptar skoðanir séu á NATÓ eins og mörgu öðru, samt sem áður hefur það aldrei haft áhrif á aðildina sem slíka.

Róast hefur yfir mótmælabylgjunni. Eitthvað segir mér að það sé fjarri því búið og enn verði haldið áfram, þegar sigurvíma sumra með vinstristjórnina tekur að dvína.

mbl.is Sex voru handteknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband