31.1.2009 | 23:58
Snörp og ódýr 83 daga kosningabarátta
Ný ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem tekur við völdum á morgun, mun aðeins hafa 83 daga til að láta verkin, óvinsæl verk væntanlega í ljósi efnahagsástandsins, tala. Allt tal um velferðarstjórn hljómar hjákátlegt. Í ljósi þess að kjördagur er eftir innan við þrjá mánuði er ljóst að kosningabaráttan verður snörp en væntanlega ekki síður ódýr. Varla verður stemmning fyrir rándýrum glamúr og glansspjöldum af frambjóðendum að þessu sinni, því verður yfirbragðið öðruvísi en í kosningunum fyrir tæpum tveimur árum.
Stemmningin í samfélaginu er líka önnur og baráttan mun styttri. Fróðlegt verður að sjá hvort stutt kosningabarátta komi sér vel eða illa. Síðustu tvo áratugina hið minnsta hefur kosningabaráttan staðið í hálft ár eða meira. Um leið og haustþing tekur til starfa í október hefur baráttan hafist og staðið fram til kjördags í apríl eða maí. Í fyrsta skipti frá árinu 1979 er kosið í pólitískri óvissu og með minnihlutastjórn, með mjög takmarkað umboð, vinstrimanna við völd. Stemmningin mun því verða sennilega svipuð og þá.
Ný framboð fá ekki mikið svigrúm til að koma fram. Mikil vinna fylgir framboði á landsvísu og má ekkert út af bregða í þeim efnum, einkum í ljósi þess að framboð verða að ná 5% atkvæða á landsvísu til að geta hlotið jöfnunarsæti á þingi. Aðeins kjördæmakosning getur ella tryggt þeim þingsæti - slíkt er mikill þröskuldur fyrir nýtt framboð sem hefur takmarkaðan tíma til að undirbúa sig.
Mun betra hefði verið að kjósa í haust. Þá hefðu flokkarnir fengið lengri tíma til að undirbúa sig og ný framboð til að hugleiða sín mál. En það er tómt mál um að tala og verður að halda í verkefnið sem blasir við. Nú verður öll þessi vinna unnin í kapphlaupi við tímann. Nú reynir á hverjir af hinum hefðbundnu fimm þingflokkum, sem hafa verið þar frá árinu 1999, séu lýðræðislegastir í vali sínu.
Auðvitað væri eðlilegast að prófkjör væri um allt land hjá öllum flokkunum svo flokksmenn geti metið þá og þeirra störf. Hjá Sjálfstæðisflokknum stefnir t.d. í prófkjör um allt land og mikilvæga uppstokkun, flokksmenn verða að geta metið þá sem fyrir eru og nýliða sem hafa áhuga á framboði og koma nýjir til verka.
Held að þetta verði áhugaverð kosningabarátta og lífleg, þó styttri verði hún og ódýrari. Kannski mun hún þá betur snúast um hinn sanna kjarna stjórnmála, málefnin, heldur en glys og glamúr.
![]() |
Ný stjórn hefur 83 daga til stefnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.1.2009 | 19:38
Bjarna Benediktsson í formannsembættið
Ég hef ákveðið að styðja Bjarna Benediktsson í formannskjöri á landsfundi Sjálfstæðisflokksins eftir tvo mánuði. Mikilvægt er fyrir Sjálfstæðisflokkinn að stokka vel upp í forystusveit sinni á þeim tímamótum sem verða í stjórnmálum nú. Ég tel eðlilegast að þeir forystumenn sem leiddu flokkinn á undanförnum mánuðum og í aðdraganda og eftirmála bankahrunsins víki og kosin verði ný forysta sem geti litið fram á veginn án þess að vera of tengd fortíðinni.
Í kjölfar brotthvarfs Geirs H. Haarde, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, gefst sjálfstæðismönnum gott tækifæri til að velja fulltrúa annarrar kynslóðar og þeirra sem ekki hafa verið í forystusveit á umbrotatímum til forystu í flokknum. Ég hef verið þeirrar skoðunar um nokkuð skeið að Bjarni sé einn af framtíðarforingjum Sjálfstæðisflokksins og hann sé sterkasti fulltrúi hinna nýju tíma í flokknum.
Nú þegar full þörf er á endurnýjun víða, einkum í pólitíkinni, er mikilvægt að fulltrúar nýrra tíma stígi fram og sækist eftir forystunni. Mikilvægt er að nýta það tækifæri sem flokknum gefst núna, ekki aðeins til að endurnýja forystusveit sína í sem flestum kjördæmum landsins heldur og einnig í flokksforystunni.
![]() |
Bjarni staðfestir framboð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.1.2009 | 16:41
Klækjabrögð og lélegt PR hjá Samfylkingunni
Hver átti hugmyndina að því að kynna nýju stjórnina við styttu Jóns Sigurðssonar? Sá hinn sami hlýtur að hafa labbað á hurð eða vegg einhversstaðar. Þvílíkt rugl.
![]() |
Samfylking beitti klækjabrögðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.1.2009 | 16:30
Biðin lengist eftir stjórnarmyndun
Án gríns, þessi stjórnarmyndun er hætt að vera fyndin meira að segja fyrir vinstrimenn. Þetta er bara pínlegt.
![]() |
Hlé gert til að ræða málin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.1.2009 | 13:15
Erfið fæðing hjá nýrri ríkisstjórn
Eftir heitstrengingar um að stjórnarmyndun ætti ekki að taka langan tíma hefur Samfylkingin boðið þjóðinni upp á heila viku af stjórnleysi í landinu. Þeirra er ábyrgðin á því að heil vika hefur glatast í skynsamlegum aðgerðum á örlagatímum. Sé það rétt að málefnasamningurinn hafi verið almennt orðaður og ekki með neinum marktækum lausnum hlýtur það að vekja spurningar um að þar hafi aðeins verið hugað að fljótvirkum lausnum en ekki raunhæfum. Framsókn hefur því skotið tillögurnar niður.
Mér finnst samt Framsókn gera þetta vel og fagmannlega. Þeir hafa á fundum sínum sérfræðinga sem hafa greinilega hafnað plagginu sem sýndarmennsku og pólitískum sjónhverfingum að hætti vinstrimanna. Enginn getur dregið í efa heilindi Jóns Daníelssonar og Ragnars Árnasonar, síst af öllu vinstriflokkarnir, svo vel sé. Þetta þrátefli er því pínlegt fyrir vinstriflokkana að öllu leyti.
En mikilvægt er að lausn komi svo stjórnleysið í boði vinstriaflanna standi í sem stystan tíma. Þetta er varla boðlegt.
![]() |
Stjórnin mynduð á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.1.2009 | 12:34
Magnús hættir - mikil endurnýjun hjá Framsókn
Magnús hefur ekki verið einn af þeim sem tekist hafa harkalegast á um völd í Framsóknarflokknum og því er brotthvarf hans merkilegt á þeim forsendum. Hinsvegar er greinilega kallað eftir nýjum tímum í Framsókn og þeir sem hafa verið á sviðinu á árunum þegar flokkurinn hrundi og missti völdin eiga lítinn sem engan séns. Því er augljóst að við sjáum mikið af nýjum frambjóðendum á vegum flokksins og hann muni ferðast með lítið af byrðum fortíðarinnar í kosningabaráttunni.
![]() |
Magnús Stefánsson hættir í stjórnmálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |