Lygar Tryggva afhjúpaðar - burt með Elínu

Ljóst er nú að Tryggvi Jónsson laug að landsmönnum um verk sín í Landsbankanum og tók fullan þátt í söluferli fyrirtækja til Baugs og tengdra aðila. Tryggvi reyndi að bera á móti þátttöku sinni og sagðist ekki hafa komið nálægt neinum á vegum Baugs síðan árið 2002. Kastljós flétti ofan af þeirri lygi og nú hefur fréttastofa Ríkisútvarpsins sýnt með afgerandi hætti hvaða verkum Tryggvi sinnti og að hann var virkur aðili þessara mála innan Landsbankans. Þetta vissu reyndar flestir, enda tengingin augljós.

Kominn er tími til að henda út stjórnendum í Landsbankanum og taka þar duglega til. Elín Sigfúsdóttir, bankastjóri, verður að taka pokann sinn sem allra fyrst og þeir sem enn eru eftir af yfirmönnum hinna liðnu tíma. Krafan er einföld: það verður að taka til svo bankarnir fái einhvern snefil af trausti landsmanna aftur. Þetta rugl gengur ekki lengur. Þeir sem voru í forystu Landsbankans með Tryggva á vaktinni verða að fara.

Væntanlega erum við bara rétt að sjá toppinn á spillingarfeninu. Nú verður allt að fara upp á borðið - gera verður upp hina sótsvörtu fortíð í bankakerfinu.

mbl.is Tryggvi hafði bein afskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bitlaus mótmæli marineruð í rauðri málningu

Mótmælin við utanríkisráðuneytið virðast hvorki hafa verið fjölmenn eða markviss. Kannski finnst einhverjum það samt táknrænt eða merkilegt að sletta rauðum lit á vinnustað formanns Samfylkingarinnar eða merkilegt. Má vera. Þetta eru greinilega grímumótmæli, í takt við þau sem eru að komast í tísku núna að því er virðist vera. Eigi þetta að teljast mótmæli gegn ástandinu við Palestínu geta þau varla talist sterk miðað við hversu heitar skoðanir eru á stöðunni þar.

Mjög mikið er talað um grímumótmælin og þá sem velja að tjá sig án þess að standa við skoðanir sínar. Sama hversu mikið þeir reyna að bera á móti því verður alltaf litið öðruvísi á tjáninguna þegar hún er nafnlaus en þegar fólk stendur með skoðunum sínum. Greinilegt er líka að þær stinga í stúf við það sem Hörður predikar. Þessi mótmæli án Harðar sýna vel að mótmælendur eru ekki sammála um aðferðir.

Hvað varðar þessi mótmæli skil ég þau ekki enda hafa ráðamenn hér fordæmt bæði Ísraelsríki og Hamas. Húsráðandi í utanríkisráðuneytinu hefur sérstaklega verið framarlega í flokki þar.


mbl.is Málningu slett á ráðuneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Situr fólk virkilega heima með gjafabréfin?

Ég hélt að það þyrfti nú ekki að vara fólk við því að vera ekki með ónýtt gjafabréf heima og bíða með að innleysa það. Á þessum tímum þegar fyrirtæki eru að fara á hausinn, einkum verslanir sem sligast í vondri stöðu, blasir við að gjafabréfin verða að verðlausum pappír. Þeir sem eiga þannig heima hljóta að reyna að bjarga því sem bjargað verður núna og ná að fá eitthvað fyrir þann pappír.

Hef heyrt af nokkrum dæmum þar sem fólk átti inneignarnótu og gjafabréf og fékk ekkert fyrir það. Auðvitað er vont að sá verðmæti pappír verði á einni nóttu verðlaus en þeir sem eiga þannig eiga sem fyrst að reyna að ná einhverju út úr því, áður en staðan versnar, sem getur auðvitað gerst.

mbl.is Hætta á að gjafabréf brenni inni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband