21.2.2009 | 16:23
Vinstrimenn hættir að mótmæla
Æ betur sést að mótmælin voru aðeins valdaplott hjá vinstrimönnum. Um leið og þeir náðu völdum dóu mótmælin. Þau snerust ekki um neitt nema það að tryggja eigin stöðu og komast til valda. Nú eru vinstriflokkarnir meira að segja farnir að gæla við að fresta þingkosningunum í vor. Stólarnir eru víst mjög notalegir. En eitthvað er farið að kárna gamanið í stjórninni enda sakar formaður Framsóknarflokksins Samfylkingarmenn um aðför að sér í blöðum í dag. Hann mun væntanlega tryggja kjördaginn í sessi. Ef vinstrimenn réðu einir yrðu engar kosningar strax.
En ég velti samt fyrir mér þessum mótmælum. Hvað stendur eftir að þeim loknum? Aldrei var þeim beint að forseta útrásarvíkinganna sem situr enn á sínum stóli þrátt fyrir afglöp sem forseti allra landsmanna og alvarleg mistök í erlendum fjölmiðlum. Mótmælin teljast varla trúverðug í ljósi þess lengur.
![]() |
Tuttugasti útifundurinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.2.2009 | 00:30
29 í prófkjörið í Reykjavík - öflugir kandidatar
Ég er mjög ánægður með það hversu margir frambjóðendur verða í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eftir tæpan mánuð. 29 manns hafa gefið kost á sér og augljóst að mikil barátta verður um efstu sætin, enda gefa þrír þingmenn í forystusveitinni ekki kost á sér til endurkjörs, þar af forystumenn í flokknum í tæpa tvo áratugi, þeir Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, og Björn Bjarnason, fyrrverandi dóms- og menntamálaráðherra, auk Guðfinnu Bjarnadóttur, sem kom ný inn í prófkjöri haustið 2006 og varð forystukonan í framboði í borginni í stað Sólveigar Pétursdóttur.
Þegar litið er yfir hópinn finnst mér sérstaklega ánægjulegt að sjá að Guðrún Inga Ingólfsdóttir, vinkona mín úr flokksstarfinu, einkum innan SUS í denn, gefur kost á sér í framboð og er á heimleið frá Boston. Mér finnst hún mjög sterkur frambjóðandi og tel að það væri sterkt fyrir flokksmenn að velja hana ofarlega á lista. Ólöf Nordal, vinkona mín úr kjördæmastarfinu hér í Norðausturkjördæmi, er farin suður í framboð og ég bind miklar vonir við að hún nái sæti ofarlega á lista í borginni, enda svo sannarlega mjög traustur valkostur.
Auk þess eru þarna forystumenn úr ungliðastarfinu á undanförnum árum og góðir vinir, Þórlindur Kjartansson og Erla Ósk Ásgeirsdóttir, auk Valdimars Agnars Valdimarssonar, en við höfum þekkst mjög lengi og vorum saman í stjórn SUS um tíma. Svo er auðvitað ekki síður gaman að sjá að Sigga Andersen sækist eftir sæti ofarlega á lista og Siggi Kári ætlar sér stóra hluti, sem eðlilegt er. Pétur Blöndal kom flestum á óvart með að halda áfram og fróðlegt að sjá hvernig honum gengur ásamt öðrum sitjandi þingmönnum.
Krafan um endurnýjun verður væntanlega mikil og því verður helst fylgst með hvernig sitjandi þingmenn koma út úr þessu prófkjöri. Þrír þingmenn, allir ofarlega á lista síðast, víkja og fróðlegt að sjá hvort sitjandi þingmenn færast upp eða aðrir blanda sér í slaginn. Nú er Jón Magnússon aftur kominn heim, eins og segja má svosem, enda var hann formaður Heimdallar í tvö ár og formaður SUS í fjögur ár, forveri Geirs H. Haarde á þeim stóli.
Var reyndar mest hissa á að Ingi Björn Albertsson færi í framboð, en hann fór af þingi fyrir fjórtán árum en kom þangað inn fyrst í framboði föður síns Alberts Guðmundssonar, Borgaraflokknum, árið 1987. Svo er auðvitað svolítið skondið að sjá t.d. Guffa bílasala þarna. Einhverjir gárungar munu segja að það sé merki um lélega tíð í bílabransanum þegar bílasalar fara í framboð og vilja komast í þingsæti.
Í heildina er þetta góður hópur frambjóðenda og engu að kvíða með framtíðina. Verður gaman að fylgjast með hvernig þetta fer.
![]() |
Geir gefur ekki kost á sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)