Ólafur Ragnar á að segja af sér

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, er rúinn trausti meðal íslensku þjóðarinnar. Hann á að sjá sóma sinn í að segja af sér forsetaembættinu og láta þjóðina velja nýjan forseta í sumar. Hann hefur eyðilagt virðingu forsetaembættisins og sterkan sess þess í huga flestra landsmanna með verkum sínum, sérstaklega dekrinu við útrásarvíkingana sem settu Ísland á hausinn. Skilaboðin til hans eru einföld: hann þarf að segja af sér, sem fyrst.

mbl.is Tæpur þriðjungur ánægður með forsetann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjörsframboð auglýst á stuðningsvef Geirs

Langt er síðan að mér var jafn misboðið og þegar mér barst auglýsing á prófkjörsframbjóðandanum Guðlaugi Þór Þórðarsyni af stuðningsvef Geirs H. Haarde á facebook. Ég gekk í þann félagsskap daginn sem Geir tilkynnti um alvarleg veikindi sín og endalok stjórnmálaferilsins, fyrst og fremst til stuðnings persónunni Geir, sem er mikill heiðursmaður í hvívetna, og til að þakka honum allt hið góða sem hann hefur gert fyrir Sjálfstæðisflokkinn í gegnum árin.

Misnotkun á þessum hóp til auglýsinga fyrir prófkjörsframbjóðanda er of langt gengið. Um leið og ég sá þetta sagði ég mig úr þessum félagsskap og ætla ekki að skrá mig á þennan lista aftur. Þarna gengu stuðningsmenn Geirs H. Haarde og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar of langt að mínu mati - þetta er þeim til háborinnar skammar.

Norski bankastjórinn geymdur á hótelherbergi

Mér finnst frekar fyndið að lesa frásögnina af því að íslenska vinstristjórnin hafi geymt Norðmanninn Svein Harald Øygard á hótelherbergi í Reykjavík alla vikuna. Gisti hann þar og borðaði í boði þjóðarinnar, spyr ég bara? Nú fer maður að skilja af hverju lá svona mikið á að koma frumvarpinu um Seðlabankann í gegnum þingið í vikubyrjun. Þar átti sannfæring og samviska þingmanns að víkja fyrir ráðherraræðinu í Stjórnarráðinu.

Meira að segja þeir sem höfðu talað fjálglega um að auka veg og virðingu Alþingis og minnka ráðherraræðið á þingi stýrðu aðförinni að þingmanninum. Þetta fólk hefur afhjúpað sig sem hræsnara, en kannski var ekki við öðru að búast?

Atburðarásin síðustu dagana fer að verða ansi góð frásögn í farsa, svona inn og út um dyrnar farsi. Ekki þarf miklu að breyta til að það gangi upp. Kannski verður hægt að hlæja að hótelævintýrum norska bankastjórans líka.

Hvernig er það, mátti karlgreyið ekki fara af hótelherberginu og var bundinn þar við hótelbarinn?

mbl.is Bankastjórinn beið átekta á hóteli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norskur stjórnmálamaður settur yfir Seðlabanka

Mér finnst það hálf kaldhæðnislegt eftir allt talið um að stjórnmálamaður megi ekki vera seðlabankastjóri á Íslandi að ríkisstjórnin hafi valið gamlan stjórnmálamann í Noregi, sem vann í embættismannakerfinu og sat sem aðstoðarfjármálaráðherra á valdadögum Gro Harlem Brundtland, sem eftirmann Davíðs Oddssonar. Fyndið, ekki satt?

Hvernig fer þetta heim og saman við 20. grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands? Þar er kveðið á um að "engan megi skipa embættismann, nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt." Skrípaleikurinn heldur áfram í boði þessarar veiklulegu ríkisstjórnar.


mbl.is Nýr seðlabankastjóri settur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband