Jóhannes í Bónus segist búinn að missa Baug

Merkilegt var að sjá viðtal Björns Inga Hrafnssonar við Jóhannes Jónsson í Bónus á Stöð 2, en þar afskrifaði hann Baug og sagði hann úr höndum fjölskyldunnar. Vissulega eru þetta mikil tíðindi og greinilegt að Jóhannes var í miklu sjokki yfir örlögum útrásarinnar og fjölskylduveldisins mikla. Fátt stendur þar nú eftir og beðið endalokanna.

Viðurkenning Jóhannesar á endalokunum er táknrænn lokapunktur á þann harmleik sem staðið hefur síðustu vikurnar, þar sem Baugur missti endanlega tiltrú þjóðarinnar eftir að hafa keypt hann með pr-ráðgjöf og snilldaruppsetningu á nýjum veruleika.

Endalok viðskiptaveldisins markar þáttaskil í þjóðlífinu. Á síðustu árum hafa fylkingar verið með þeim sem fylgja viðskiptajöfri og hata hann. Þetta heyrir nú sögunni til. Vonandi fáum við heiðarlegra og mannúðlegra samfélag við fall þessara blokka.

mbl.is Landsbankinn gengur að veðum Baugs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott að losna við Elínu - efinn um Ásmund

Ég fagna því að dagar Elínar Sigfúsdóttur á bankastjórastóli Landsbankans eru að líða undir lok. Mikilvægt er að til forystu í bönkunum öllum verði valdir aðilar sem eru alls ótengdir fortíðinni þar, fyrir bankahrunið og hafi trúverðugleika í verkum. Mörg verk í Landsbankanum á síðustu mánuðum eru umdeild og eðlilegt að stokka upp. Ekki mun skapast friður um ríkisbankana fyrr en þeir sem tilheyrðu fyrri eigendum og unnu þar í umboði þeirra hafa vikið og óháðir aðilar hafa tekið við forystunni.

Ásmundur Stefánsson er þó fjarri því óumdeildur því miður, en vonandi getur skapast sátt í samfélaginu um verk hans þar. Eftir að Ásmundur hætti sem forseti ASÍ árið 1992 varð hann millistjórnandi í Íslandsbanka, forvera Glitnis, þar til hann varð ríkissáttasemjari. Þó Ásmundur sé að mörgu leyti vandaður og traustur maður er hann hluti af umdeildum verkum þar á síðustu vikum sem mikið hafa verið um rætt og var þar á vaktinni meðan Tryggvi Jónsson sinnti sínum störfum, of lengi.

En vonandi verður hægt að byggja trúverðugleika hinna föllnu upp á ný - enginn vafi má vera þar um. Landsmenn allir verða að trúa því að þar sé unnið af ábyrgð.


mbl.is Ásmundur bankastjóri um tíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterk staða Sjálfstæðisflokksins - formannskapall

Greinilegt er að fylgi Sjálfstæðisflokksins er að aukast nú eftir að hinu ógæfulega og ómögulega stjórnarsamstarfi, sem var dauðvona nær alla tíð, með Samfylkingunni lauk. Í öllum könnunum að undanförnu mælist fylgi flokksins á uppleið eftir að stjórnin féll, þetta sést vel í lokaviku janúarkönnunar Capacent Gallup, könnun fyrir Stöð 2 og nú hjá Frjálsri verslun. Sóknarfæri Sjálfstæðisflokksins eru sannarlega til staðar í væntanlegri kosningabaráttu, sé haldið rétt á uppstokkun í forystusveit og þingflokknum, sem er nauðsynleg eftir það sem á undan er gengið.

Þeir sem töldu Sjálfstæðisflokkinn hafa misst öll spil af hendi og eiga erfiða tíma framundan geta litið á kannanirnar og dregið sínar ályktanir af því. Vinstriflokkarnir virðast báðir vera að msisa flugið og Framsókn er á uppleið í öllum könnunum. Kannski fer það svo að Framsókn rís upp úr vinstriflokkunum þegar þeir taka á sig óvinsælu og erfiðu verkin í vinstristjórninni sem er eins og allar slíkar án leiðarvísis og í leit að sjálfri sér og eigin stefnu sem taka skal eitthvað mark á.

Miðað við þessa könnun er freistandi að líta svo á að Framsókn muni stórgræða á því útspili sínu að setja vinstriflokkana saman til verka en sitja á hliðarlínunni þó þeir verði að súpa aðeins af ógeðsdrykknum við að staðfesta vinstrimenn í alla nefndarformannsstóla þingsins og því að setja mann með tveggja ára þingreynslu í forsetastól þingsins. Þeir munu kannski svífa upp yfir vinstrið með þessu verklagi. Skondið ef svo fer, ekki satt?

Hvað varðar formannskapal Sjálfstæðisflokksins kemur ekki að óvörum að Bjarni Benediktsson njóti mests fylgis. Þar á eftir er auðvitað Þorgerður Katrín, en eðlilega er velt fyrir sér hvaða afstöðu hún muni taka til formannsmála. Aðrir valkostir eru langt að baki þeim og mælast varla í þessari könnun. Þetta er merkileg skipting og gefur til kynna að staða Þorgerðar sé vænlegri en margir töldu.

Sjálfur hef ég sagt opinberlega að ég muni styðja Bjarna Benediktsson sem næsta formann flokksins, en ég vonast eftir líflegri og góðri baráttu um formannsstólinn. Mikilvægt er að kosið verði á milli góðra frambjóðenda í forystusætin og stokkað hressilega upp. Tækifæri flokksins eru til staðar með góðri uppstokkun og því að hleypa nýrri kynslóð í forystusætin.


mbl.is Bjarni og Þorgerður Katrín oftast nefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J. bugtar sig og beygir fyrir IMF

Mér fannst ansi skemmtilegt að sjá Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra og eitt sinn einn helsta andstæðing Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, bugta sig og beygja fyrir valdi sjóðsins á Alþingi í gærkvöldi. Ekki var annað hægt en hlæja þegar Steingrímur sagði flóttalegur á svip að það væri nú bara hægt að tala við þessa menn eftir allt saman, þessa vondu menn sem hann vildi ekkert með hafa fyrir aðeins örfáum vikum og vildi segja hreinlega stríð á hendur og slíta öllu samstarfi við þá á þessum örlagatímum þjóðarinnar.

Ja sei sei, ekki var vindhaninn lengi að snúast marga hringi í kringum sjálfan sig og skipta um áttir á einni nóttu, svo geyst að hann vissi ekki lengur hvað sneri í vinstri og hvað í hægri. Ekki þurfti annað en hjónasængina hjá Samfylkingunni til að hann myndi skipta um skoðun á einni nóttu og fara að lofsyngja IMF og gleyma hinum margtuggða boðskap um ægivald hins illa sem vinstri grænir nefndu IMF og hlutverk þess við breyttar aðstæður þjóðarinnar.

Nei nú skal spila með og gleyma öllu því sem eitt sinn var sagt. Mikið er nú alltaf gaman að sjá vindhanana snúast marga hringi í logninu.

mbl.is Steingrímur ræddi við IMF í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband