Einum of langt gengið í mótmælum

Hvaða skoðun sem fólk hefur á innflytjendamálum finnst mér það einum of langt gengið að mótmæla fyrir utan heimili fólks, hvort sem það er forstjóri Útlendingastofnunar, dómsmálaráðherra eða einhver annar í samfélaginu. Heimili fólks eiga að vera friðhelg og það á að nægja þeim sem vilja mótmæla að gera það fyrir utan þær stofnanir sem viðkomandi fólk stýrir.

Skilaboðin sem komið er á framfæri falla alltaf í skuggann sé tjáning þeirra eða aðferðirnar óviðeigandi. Í þessu máli gildir að fólk geri mótmælin ekki of persónuleg gegn þeim embættum sem þau beinast, enda eiga embættismenn rétt á sinni friðhelgi á heimilum sínum.

mbl.is Sjö mótmælendur handteknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómerkilegar dylgjur hjá Ólínu

Framkoma Ólínu Þorvarðardóttur, þingframbjóðanda Samfylkingarinnar, við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, á Bylgjunni í morgun var henni ekki til sóma og vægast sagt ómerkileg. Eðlilega hefur hún beðist afsökunar á dylgjum og ómerkilegheitum sem þar átti að slá sér upp með. Mér finnst þetta ekki merkilegt veganesti í kosningabaráttu og undrast satt best að segja ef þetta er það sem koma skal. Reyndar hefur verið mjög ómerkilega sótt að Sigmundi Davíð úr Samfylkingunni á undanförnum vikum.

Reyndar er það bara þannig að Tryggvi Þór og Sigmundur Davíð hreinlega grilluðu Ólínu í þessum þætti. Þeir mættu undirbúnir og vel skipulagðir til leiks og með góðar tillögur sem Ólína gat engan veginn skotið niður með trúverðugum hætti. Bandalag Tryggva og Sigmundar með 20% tillöguna vekur vissulega athygli, en hún er sannarlega allrar athygli verð og mjög erfiðlega hefur gengið fyrir andstæðinga hennar að skjóta hana niður.

mbl.is Yfir 1000 hafa sótt um greiðsluaðlögun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn fækkar í Frjálslynda flokknum

Ég er ekki undrandi á því að Guðrún María Óskarsdóttir hafi yfirgefið Frjálslynda flokkinn. Henni hefur verið sýnd mikil lítilsvirðing og ráðist ómaklega að henni innan þessa flokks undanfarnar vikur. Ekki aðeins var henni bolað úr formennsku kjördæmisráðsins í Kraganum vegna þess að henni datt í hug að gefa kost á sér til formennsku í flokknum heldur var henni bolað af framboðslista með mjög ólýðræðislegum hætti.

Ég hef þekkt Guðrúnu Maríu í mjög mörg ár. Fyrst kynntist ég henni þegar við vorum að skrifa á innherjavefnum um stjórnmál í upphafi áratugarins og síðar á málefnum. Alltaf var hún málefnaleg og dugleg að tala fyrir sínum skoðunum, en þó án upphrópana og skítkasts. Ég hef dáðst að því hversu ötul hún hefur verið að tala máli flokks sem á það varla skilið.

Framkoman við hana að undanförnu hefur verið mjög dapurleg með að fylgjast og mér finnst það til skammar fyrir frjálslynda hvernig að því var staðið. Ekki þarf að koma að óvörum að sú sómakona sem gmaría er horfi annað í pólitíkinni.

mbl.is Segir skilið við Frjálslynda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fogh hættir og fer til NATO - Løkke tekur við

Fogh
Mér líst mjög vel á að Anders Fogh Rasmussen verði framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins. Bæði er hann mjög traustur valkostur og svo er kominn tími til að Norðurlönd fái yfirstjórn í NATÓ. Fogh hefur gegnt embætti forsætisráðherra Danmerkur með miklum sóma síðustu átta ár og er mjög vel að þessu embætti kominn. Ég tel að NATÓ verði mjög öflug stofnun undir forystu hans, enda hefur hann sem forsætisráðherra sýnt mjög mikla leiðtogahæfileika, bæði með forystu sinni í ráðherraráði Evrópusambandsins og hvernig hann stýrði málum í Múhameðsdeilunni.

Litlu munaði að Tyrkir létu Múhameðsmálið verða til þess að stöðva útnefningu Fogh sem framkvæmdastjóra NATÓ. Í því máli lét hann sannfæringuna ráða og kom fram traust og flott. Hann varði þar eitt mikilvægasta frelsi sérhvers manns, sjálft tjáningarfrelsið, og lét ekki hafa sig út í það að biðjast afsökunar á tjáningu annarra. Stefnufesta hans og forystuhæfileikar komu þar mjög vel í ljós - þeir kostir munu nýtast honum vel í embætti og NATÓ mun njóta þess að hafa öflugan leiðtoga í forystusætinu þegar kemur að mikilvægum ákvörðunum sem þurfa trausta forystu.

Mikið pólitískt tómarúm verður hinsvegar með brotthvarfi Fogh. Hann hefur verið risi í dönskum stjórnmálum allan þennan áratug, sem verður auðvitað í sögubókum nefnd Fogh-tímabilið, rétt eins og tíundi áratugurinn tilheyrir Nyrup og sá níundi Schlüter. Lars Løkke Rasmussen bíður ekki öfundsvert verkefni þegar hann tekur við forystunni í ríkisstjórn borgaralegu aflanna. Fogh hefur stýrt málum innan stjórnarinnar fumlaust og traust - hann hefur verið vægðarlaus verkstjóri og vandað sig við verkið en um leið verið ákveðinn og haldið vel utan um samstarfið.

Skondnast af öllu er að þriðji forsætisráðherrann í röð í Danmörku ber ættarnafnið Rasmussen. Bæði Poul Nyrup Rasmussen og Anders Fogh Rasmussen voru forsætisráðherrar í átta ár og hafa leikið lykilhlutverk í danskri stjórnmálasögu. Nú verður að ráðast hvernig Løkke gengur og hvort lukkan verði honum hliðholl eða hvort hann verði aðeins millibilsleiðtogi áður en jafnaðarmenn taka við með Helle í fararbroddi. Stóra spurningin er hvort Løkke tekst að halda krötunum frá stjórn landsins.


mbl.is Forsætisráðherraskipti í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband