Slóðin rakin - stund sannleikans að renna upp

Gott er að yfirvöld standi vaktina og reki slóð auðmannanna í skattaskjólin. Fólkið í landinu sættir sig ekki við neitt annað en sannleikurinn verði opinberaður, hversu ógeðfelldur sem hann annars verður varðandi vinnubrögðin. Flest liggur orðið nokkuð ljóst fyrir og augljóst að margt mjög vafasamt var gert, sérstaklega þegar leið að hruni bankakerfisins hérna heima. Þessa sögu þarf að segja og opinbera alla þætti. Þessi stund sannleikans virðist nú í augsýn.

Auðmennirnir eru annað hvort flúnir frá skerinu eða á síðasta hring blekkingarleiksins. Ég sá í vikunni að Jóhannes í Bónus var að reyna að fá þjóðina til að vorkenna Jóni Ásgeiri og var enn í að reyna að mála Davíð Oddsson sem einhvern skratta í þessari hringekju blekkingarleiksins. Allir hafa séð í gegnum þessa þvælu.

mbl.is Rannsaka félög í skattaskjólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrottaskapur og lexían mikla

Frásögnin af árás Heiðmerkurhrottanna á 15 ára stelpuna í Kastljósi í gærkvöldi var ógeðfelld og sláandi. Þetta líkist helst aðförum handrukkarahrotta. Er það kannski svo að þessar ólögráða stelpur sem létu höggin dynja í hópárásinni á stelpuna séu handrukkarar og lifi fyrir ofbeldisverk og árásir sem þessa.

Varla er að sjá að þetta sé þeirra fyrsta alvarlega árás og ofbeldið virðist ekki hafa haft meiri áhrif á þær en svo að þær heimtuðu 150.000 krónur frá þeirri sem þær börðu eins og harðfisk. Þvílík ógeð. Mikilvægt er hinsvegar að tekið verði á þessu máli og reynt að tryggja að þær læri sína lexíu.

Ofbeldi leysir engan vanda, aðeins skapar vanda í þessu samfélagi. Nýjar fréttir af ofbeldi ólögráða ungmenna, hreinn hrottaskapur og grimmd, innan skóla eða utan hlýtur að fá okkur til að hugleiða um á hvaða leið við erum.


mbl.is Hafa játað að hafa haft sig mest í frammi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandræðaleg byrjun hjá Borgarahreyfingunni

Ekki er byrjunin beint góð hjá Borgarahreyfingunni, sem ætlaði að bæta siðferðið og vera ný rödd í pólitísku starfi. Á fyrstu dögunum eru þau farin að eyða mestu púðrinu í að slá skjaldborg um og verja Þráinn Bertelsson, þingmann í liði þeirra, sem ætlar að taka við heiðurslaunum listamanna samhliða þinglaununum. Sumir benda á annað siðleysi til að verja siðleysið þeirra.

Mér finnst reyndar ótrúlegt að Þráinn bjóði þessu siðprúða fólki upp á þessi vinnubrögð og etji þau út í siðleysið með sér. Með því rýrir hann ekki aðeins sig og sín verk heldur og dregur fólk, sem örugglega vildi gera vel og stofna nýja hreyfingu með nýju siðferði, upp úr siðleysinu.

Ég man ekki eftir því að ný hreyfing falli í pyttinn á skemmri tíma og sé farin að verja eitt siðleysi með því að benda á annað. Aumkunnarvert.

mbl.is Lýsa áhyggjum af foringjastjórnmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband