Heilög Jóhanna úti á þekju

Mér fannst álíka áhugavert að horfa á viðtalið við Jóhönnu Sigurðardóttur í Kastljósi og framhaldsþáttinn Lost í kvöld. Ég botna í hvorugu og finnst verst af öllu að efnið er teygt þangað til allir eru svo ringlaðir að þeir botna ekki neitt í neinu. Svörin í Kastljósi voru vélræn - margendurtekið frasablaður án innihalds. Ekkert örlar á framtíðarsýn hjá Jóhönnu. Efast um að þau í stjórninni viti sjálf hvað þau eigi að gera.

Stjórnarsáttmálinn er svo galopinn og tómur að enginn botnar í hver staðan eiginlega sé. Kaflinn um ríkisfjármál er rýr í roðinu og enn verra að þau sem hafa fengið umboð þjóðarinnar til að stjórna virðast ekki geta tekið ákvarðanir og fylgt þeim eftir, né heldur upplýst almenning um hver staðan sé. Fólkið í landinu er engu nær um hvað eigi að gera.

Jóhanna situr á kassanum og vill ekki leyfa fólki að gægjast ofan í hann. Hún tekur fólkið með sér í hringekjuna og treystir á það sé svo ringlað þegar hún hættir að snúast að það spái ekkert í hvað sé að gerast.

mbl.is Skattar svipaðir og 2005-2007
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um hvað var samið við myndun stjórnarinnar?

Innihaldsleysi stjórnarsáttmálans kemur sífellt betur í ljós. Hvað var verið að ræða um í tvær vikur í Norræna húsinu? Um hvað var samið við myndun stjórnarinnar? Ekki eru nein merki um aðgerðir til lausnar efnahagsvandanum, heldur óljós og draumkennd fyrirheit um áætlanir til að hugleiða vandann.

Árni Páll og Svandís viðurkenndu hálfvandræðalega á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun að ekki hefur verið samið um nein niðurskurðaráform. Fólkið í landinu er engu nær um hvað þetta fólk ætlar að gera. Þau hljómuðu eins og ráðalausir ferðafélagar í óvissuferð.

Mig grunar hið augljósa í stöðunni; það verði endalausar stjórnarmyndunarviðræður í þessari vinstristjórn. Semja þurfi um hvert mál, hentistefnan verði algjör og engin skýr framtíðarsýn. Eftir hundrað daga hefur ekki nást samkomulag um beinar aðgerðir.

Eftir lestur stjórnarsáttmálans hljómar í huganum orðin... og hvað svo! Ekkert er lagt fram. Um hvað var samið? Var þetta bara tveggja vikna reiptog um ESB og þegar samið var um að vera ósammála hafi þau verið uppgefin og farið í froðusnakkið.

Eflaust verður það rannsóknarefni fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar hvernig það gat gerst að ríkisstjórn mynduð á slíkum örlagatímum gat leyft sér slíkt innihaldsleysi.


mbl.is Mikil þrautaganga framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fær Kolbrún vænan bitling?

Hávær orðrómur er um að Kolbrúnu Halldórsdóttur, fyrrverandi umhverfisráðherra, sé ætlaður stóll Þjóðleikhússtjóra. Sparka eigi Tinnu Gunnlaugsdóttur til að finna pláss fyrir brottrekinn forystumann úr vinstri grænum, sem var hafnað af flokksmönnum og kjósendum. Þetta er ekki góður orðrómur fyrir Katrínu Jakobsdóttur, sem hingað til hefur sloppið alveg við samsæriskenningar um að hygla vinum og vandamönnum í mannaráðningum. Ég neita að trúa því að hún vinni svona.

Mér finnst eðlilegt að Tinna Gunnlaugsdóttir haldi áfram sem þjóðleikhússtjóri. Hefðin er sú að leikhússtjóri fái allavega tvö starfstímabil til verka. Eðlilega sækir Tinna um áfram og ég vona að hún hreppi hnossið aftur. Það er engin þörf á því að gera stól Þjóðleikhússtjóra að pólitískum bitlingi fyrir vinstri græna að moða úr fyrir fallna þingmenn og ráðherra.

mbl.is Kolbrún í Þjóðleikhúsið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gutta sparkað

Ég varð svolítið undrandi yfir því hvernig sparkað var í Guðbjart Hannesson, fráfarandi forseta Alþingis, í stólaleik vinstrimanna. Hann situr eftir með sárt ennið og án hlutverks, fær ekki að fara í ríkisstjórn og missir forsetastól þingsins til HelgarÁstu, sem sér nú fram á lengri helgarfrí en hinsvegar kvöldvökur yfir þingræðum. Ætli kynjakvótinn einn felli hann? Hvað með það. Þá er skiptingin hjá Samfó skrítin. Fjórir ráðherrar af höfuðborgarsvæðinu og svo Möllerinn.

En af hverju kemur þetta mér á óvart. Jú, í sannleika sagt taldi ég að Gutta yrði eitthvað verðlaunað fyrir það hversu liðlegur hann var við Jóhönnu Sigurðardóttur í þingstörfunum í vor. Hann var í vasanum á forsætisráðherranum (þingræðið hvað) og fór marga hringi til að sníða dagskrána fyrir ríkisstjórnina.


mbl.is Sótti forsetaembættið ekki fast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband