Þolir Susan Boyle frægðina?

Greinilegt er að Susan Boyle hefur algjörlega bugast andlega í öllu því álagi sem fylgt hefur hinni miklu athygli sem fylgdi heimsfrægðinni. Þetta var líka yfirgengileg pressa sem lögð var á þessa fimmtugu skosku konu; konu sem aldrei hafði verið fræg eða sérstök en varð á einni nóttu heimsþekkt og þekkt allt frá Timbúktú til Tálknafjarðar.

Þarf sterk bein til að þola svona velgengni og höndla frægðina ofan á það líf sem Susan Boyle lifði í kyrrþey árum saman. Fyrstu merkin um að Susan væri að bugast komu fram í síðustu viku þegar hún öskraði ókvæðisorðum að ljósmyndurum og fólki sem elti hana út um allt. Hún þurfti svo aðstoð fagmanna til að komast í gegnum úrslitaþáttinn.

Fyrst og fremst vona ég að Susan Boyle fái hjálp til að höndla þessa frægð. Hvað úr frægðinni verður hlýtur að vera aukaatriði.

mbl.is Susan Boyle á sjúkrahús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrottinn á Nesinu fer fljótt í sama farið aftur

Ekki tók það marga daga fyrir einn hrottann á Seltjarnarnesi, sem réðst á eldri mann á heimili hans og rændi hann, að fara strax aftur í sama farið. Væntanlega er þetta ólánsfólk sem er í eiturlyfjaneyslu og er komið í algjöran vítahring. Algjör sorgarsaga.

Þetta mál leiðir óneitanlega hugann að þeirri grimmd sem er í undirheimunum. Þar er allt gert til að fjármagna næsta skammt og til að halda neyslunni áfram. Þetta kom vel fram í málinu í Garðabæ þar sem barnabarn eldri konu beið úti í bíl meðan amman var rænd.


mbl.is Braust strax inn aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju þorir Jóhanna ekki að hitta Dalai Lama?

Mér finnst það algjörlega til skammar fyrir íslensk stjórnvöld að enginn fulltrúi þeirra ætli að hitta Dalai Lama, trúarleiðtoga Tíbeta, í Íslandsför hans. Hvers vegna þorir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, ekki að hitta Dalai Lama? Er hún hrædd við kínversku kommana í Kína og einræðisstjórn þeirra eða er hún bara gunga? Hennar vegna vona ég frekar að hún sé gunga, enda er ekki viðeigandi að stjórnvöld sem vilja láta taka sig alvarlega séu eins og sirkusdýr fyrir einræðisstjórn.

Mikill sómi væri fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur að fylgja í fótspor Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, sem hitti Dalai Lama í Danmerkurför hans. Løkke var djarfur og einbeittur í þessum efnum, rétt eins og forveri hans, Anders Fogh Rasmussen, sem hitti Dalai Lama árið 2003. Mikilvægt er að stjórnvöld tali fyrir mannréttindum bæði í orði og ekki síður verki, séu ekki huglausar gungur.

Ekki er að spyrja að því að forsetinn er flúinn úr landi á fjarlæga íþróttaleika þegar Dalai Lama kemur til Íslands í fyrsta skipti. Er ekki hissa á því enda hefur þessi forseti okkar Íslendinga fyrst og fremst verið að reyna að sleikja kínversku kommastjórnina í Peking og dekstrað þá, bæði tekið á móti Jiang Zemin og Li Peng á Bessastöðum.

En hvað með Steingrím J. Sigfússon? Ætlar hann að láta það spyrjast til sín að hann tali bara fyrir mannréttindum í orði en gufi svo upp eins og gunga þegar á reynir í verki. Hann sem leiðtogi flokks sem hefur skreytt sig með mannréttindaáherslum á tyllistundum ætti að vilja sýna það í verki nú en ekki líta út sem vildarvinur einræðisvalds.

Þögn íslenskra stjórnvalda þegar Dalai Lama kemur til landsins er æpandi hávær. Þetta fólk gengisfellur sig annars með hverjum deginum sem líður frá kosningum og þarf ekki þetta eitt til.

mbl.is Dalai Lama í heimsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband