Aumingjaskapur ríkisstjórnarinnar

Stóra niðurstaðan í öllum fundahöldum stjórnvalda um niðurskurð og stöðu ríkisfjármála er ekta vinstrisinnuð. Ekki verður lagt í niðurskurð af neinu tagi heldur verða skattar nær einvörðungu hækkaðir upp úr öllu valdi. Ekki þarf að efast um að allar hækkanirnar fara beint út í vísitölu neysluverðs og hringavitleysan verður algjör.

Þetta er algjör aumingjaskapur, algjör uppgjöf í verkefninu framundan. Er betra að lengja vandann og þora ekki að takast á við verkefnið? Hversu miklar byrðar geta heimilin í landinu tekið á sig í viðbót við allt annað?

mbl.is Skattahækkanir úr ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gunnar víkur af bæjarstjórastóli

Gunnar Birgisson hefur nú tekið hagsmuni bæjarbúa og sjálfstæðismanna í Kópavogi fram yfir sína eigin með því að víkja sem bæjarstjóri. Örlögin voru ráðin í raun eftir fund framsóknarmanna á fimmtudag. Þar var ljóst að Framsókn gæti ekki stutt Gunnar lengur án þess að sitja uppi með leiðindamál tengd Frjálsri miðlun á kosningavetri. Þeir hefðu átt erfitt með að styðja Gunnar áfram með þau mál ókláruð í kjölfar skýrslu Deloitte.

Nú er það verkefni Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi að velja nýjan bæjarstjóra og velja leiðtoga flokksins án prófkjörs og sveitarstjórnarkosninga. Vel hefur komið í ljós að engin afgerandi samstaða er um leiðtoga úr bæjarfulltrúahópnum. Fróðlegt verður að sjá hvort niðurstaðan verði sú að einstaklingur utan bæjarstjórnar taki við bæjarstjórastólnum eða hvort samstaða náist, þrátt fyrir deilur bak við tjöldin síðustu dagana.

mbl.is Gunnar hættir sem bæjarstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterk staða Gunnars - verður meirihluta bjargað?

Stóra niðurstaða fulltrúaráðsfundar Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi er hversu gríðarlega sterk staða Gunnars Birgissonar er í flokkskjarnanum. Hann gnæfir þar yfir og augljóst að erfitt verður að ná samstöðu um eftirmann, ef Gunnar víkur ekki sjálfviljugur af stóli, án prófkjörs eða kosningar. Hann hefur reyndar afgerandi stöðu sem forystumaður í bæjarmálunum í Kópavogi sama hversu hefur verið sótt að honum með skýrslum eða árásum andstæðinga hans.

Vandamál Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi er að örlög Gunnars ráðast hjá samstarfsflokknum. Muni Framsóknarflokkurinn gera honum að hætta, eins og útlit var fyrir nær alla síðustu viku, er honum ekki sætt áfram og þá er vandi Sjálfstæðisflokksins að leysa úr því áður en þeir missa atburðarásina úr hendi sér. Fundurinn með leiðtoga Framsóknar er að reyna til þrautar að leysa málið með einhverjum hætti án þess að það verði að velja nýjan leiðtoga.

Nú reynir væntanlega á allan styrkleika og allt afl Gunnars Birgissonar í samningaviðræðum við samstarfsflokk til tveggja áratuga. Ef eitthvað eitt hefur komið í ljós, fyrir utan að nýr leiðtogi er í Framsókn sem þarf að búa sér til stöðu sem hentar kannski ekki Gunnari Birgissyni, er að þreyta er komin í samstarfið. Gunnar Birgisson þarf að berjast fyrir sínu og væntanlega verður það erfiðara en að þjappa Sjálfstæðisflokknum að baki sér.

En nú reynir á hversu sterkt lím heldur saman þessum þaulsetna og árangursríka meirihluta sem hefur ráðið í Kópavogi, allan þann tíma með Gunnar Birgisson sem risann í Kópavogi, allt frá árinu 1990.

mbl.is Falið að ræða við Framsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband