30.6.2009 | 16:37
Er liðið í VG alveg orðið veruleikafirrt?
Steingrímur J. Sigfússon viðhafði stór orð um mikilvægi þjóðaratkvæðagreiðslna þegar Kárahnjúkavirkjun var til umræðu á Alþingi fyrir nokkrum árum. Þá vildi hann að þjóðin tæki ákvörðunina í stóru máli.
Hvað sagði Steingrímur J. sjálfur um slíkan málflutning þegar hann var í stjórnarandstöðu og deilt var um virkjunina stóru við Kárahnjúka. Rifjum upp ummæli hans þá:
"Treystum við ekki þjóðinni? Ekki getur það verið vandinn að nokkrum manni í þessum sál, þingræðissinna, detti í hug að þjóðin sé ekki fullfær um að meta þetta mál sjálf og kjósa um það samhliða því að hún kýs sér þingmenn. Stundum heyrist að vísu einstaka hjáróma rödd um að sum mál séu svo flókin að þau henti ekki í þjóðaratkvæði.
Það er einhver allra ömurlegasti málflutningur sem ég heyri. Menn geta alveg eins haft ónefnd orð um gáfnafar þjóðarinnar, og það ætla ég a.m.k. ekki að gera. Það er ekkert í þessu máli sem er þannig vaxið að það sé ekki auðvelt að upplýsa um það og kynna það."
Svo mörg voru þau orð....
![]() |
Þjóðin kaus um Icesave í apríl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.6.2009 | 12:12
Ólafur Ragnar flæktur í málefni sjeiksins
Hann er algjörlega rúinn trausti eftir hrunið og hefur lítinn sem engan trúverðugleika lengur, sérstaklega ef hann er orðinn tengdur rannsókn sérstaks saksóknara. Vandséð er hvernig hann geti farið af valdastóli með hreinan skjöld, enda óneitanlega tengdur hruninu og eiginlega féll hann með útrásarvíkingunum sem hann flaug með á heimsenda.
![]() |
Forsetinn útilokar ekki aðstoð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.6.2009 | 02:37
Ólafur Ragnar mun aldrei stöðva Icesave-dílinn
Ólafur Ragnar er svo tryggur Samfylkingunni, eins og sást af aumri framgöngu hans við stjórnarslitin í janúar, að hann mun ekki taka þessa vinstristjórn úr öndunarvélinni. Forðum daga sagði þó þessi forseti að gjá hefði myndast milli þings og þjóðar um fjölmiðlamálið. Hvað ætli hann segi til að reyna að friða þjóðina þegar hann hleypir þessum díl í gegn?
Þessi forseti er sá lélegasti í lýðveldissögunni, verður minnst fyrir dekur sitt við auðmenn og hafa verið klappstýra útrásarvíkinganna og skjalldúkka þeirra. Hann mun ekki setja þetta mál í uppnám. Örlög þessa máls munu ráðast í þinginu. Nú ræðst hvort samviska vinstri grænna er til staðar eða hvort þeir verða teknir í bóndabeygju af formannavaldinu alræmda.
![]() |
Vilja að forseti synji staðfestingu á ríkisábyrgð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.6.2009 | 00:16
Steingrímur J. leggur allt undir fyrir Icesave
Augljóst er að Steingrímur J. Sigfússon leggur sjálfan sig pólitískt algjörlega að veði fyrir Icesave-málið og samninginn svokallaða sem í raun er eitt stórt skuldabréf. Slík er sannfæring hans og afgerandi tjáning að allt er lagt undir - maðurinn sem sagði eitt sinn að við myndum aldrei beygja okkur. Hann er reyndar orðinn eins og Ragnar Reykás blessaður, fátt eftir af þeim manni sem var í stjórnarandstöðu forðum daga. Hann er að fuðra upp heldur betur.
Tap myndi leggja hann pólitískt í rúst og grafa undan honum... í raun verða til þess að hann sé búinn að vera. Alls óljóst er að málið fari í gegnum þingið. Finnst líklegra að það verði fellt í þinginu, en það veltur á þeim stjórnmálamönnum innan VG sem vildu aldrei semja um Icesave og fara dómstólaleiðina, láta reyna á réttarstöðu Íslands.
Munu þeir beygja sannfæringu sína undir flokksaga Steingríms J? Ekki er annað að heyra á fréttum að mikið sé reynt að snúa mönnum. Sannfæring þingmanna skiptir greinilega ekki lengur svo miklu máli.
Er VG að verða eins og gamli Framsóknarflokkurinn á mettíma? Verður þetta Icesave-mál ekki Íraksmál Steingríms J? Við munum öll hvernig Írak lagði Halldór Ásgrímsson í rúst.
![]() |
Meiri áhyggjur af yfirstandandi glímu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |