Carlo hennar Sophiu Loren deyr

Sophia Loren og Carlo PontiCarlo Ponti er látinn. Í hálfa öld var þessi heimsþekkti kvikmyndagerðarmaður mun frekar þekktur fyrir að vera Carlo hennar Sophiu Loren en annað. Sophia Loren er ein eftirminnilegasta leikkona kvikmyndasögunnar og án nokkurs vafa þekktasta kvikmyndaleikkona Evrópu síðustu áratugina. Líf hennar og Carlo Ponti hefur verið í miðpunkti slúðurblaða og umtals almennings allt frá fyrsta degi. Þau voru gift í fimm áratugi, giftust þegar að Sophia var 23 ára gömul og hann var 22 árum eldri en hún.

Svo sannarlega umdeild sambúð og hjónaband og það var í kastljósi fjölmiðla nær alla tíð vegna aldursmunar og að því er flestum fannst ólíks bakgrunns þeirra. Það hefur alla tíð vakið athygli að Sophia valdi frekar að giftast Ponti en taka saman við leikarann heimsþekkta Cary Grant, en öllum hefur verið ljóst að hún var stóra ást ævi hans. Ástaratlot þeirra og umdeilt samband var lengi eitt óljósasta ástarsamband kvikmyndasögunnar. Sjálf talaði hún opinskátt um þessa hluti í viðtali fyrir nokkrum árum og sagði þá að mjög litlu hefði munað að þau hefðu tekið saman.

Allir sem sjá kvikmyndina Houseboat nokkru sinni sjá þar chemistry-ið á milli Sophiu og Cary. Ekki aðeins er það ein besta mynd beggja heldur leikur enginn vafi á því að sambandið var meira en bara sýndarmennska tveggja leikara í kvikmynd. Persónulega hef ég alla tíð metið Sophiu Loren mjög mikils. Stórfengleg óskarsverðlaunaframmistaða hennar í kvikmyndinni La Ciociara (Two Women) færði henni endanlega frægð og stöðu í kvikmyndabransanum og telst hennar besta stund í kvikmyndum. Ein sterkasta túlkun leikkonu í kvikmyndasögunni og hún varð fyrsta (enn sú eina) leikkonan sem hlaut óskarinn fyrir að tjá sig á öðru máli en ensku.

Fyrir reyndar aðeins nokkrum dögum sá ég enn og aftur eina litríkustu mynd hennar. Ieri, Oggi, Domani (Yesterday, Today, and Tomorrow) er ein sterkasta ítalska mynd sem ég hef séð utan Cinema Paradiso, Fellini-myndanna og El Ciociara. Þar leikur Sophia þrjú hlutverk og á gríðarlega flottan samleik með Marcello Mastroianni, sem í áratugi var einn besti leikari Ítala og mikill persónulegur vinur Sophiu og þau léku oft saman á löngum ferli. Þrjár flottar sögur um þrjú pör sem þau túlka öll. Alltaf hægt að hlæja að henni og hún er eilífur gleðigjafi.

Sophia Loren hefur alla tíð verið áberandi í kvikmyndaheiminum og í dægurtali almennt, enda verið áberandi á mörgum vettvöngum, utan leiklistar var hún þekkt fyrir matseld og ilmvötnin sín svo fátt eitt sé nefnt. Litrík ævi er sennilega rétta orðið yfir ævi hennar og Carlo Ponti. Ponti var áberandi kvikmyndaframleiðandi á löngum starfsferli. Sennilega er La Strada (mynd Fellinis) eftirminnilegust þeirra mynda sem hann kom að, en sú mynd hlýtur að teljast ein besta mynd Ítala í áratugi.


mbl.is Carlo Ponti látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Sæll Stefán Friðrik,

Er Carlo dáinn?  Ég man alltaf eftir því þegar ég las ævisögu Sophiu Loren fyrst og hvað manni fannst samband þeirra Carlo einstakt, sérstaklega að hafa enst allan þennan tíma.

Sophia er stjarna, orð sem þýddi e-hv á sínum tíma.  Kvikmyndirnar hennar, sérstaklega þær ítölsku voru hreint út sagt frábærar og ég er alveg sammála þér með Yesterday, Today and Tomorrow.  Ég hef enn ekki séð Two women, sem hún fékk óskarinn fyrir, en hún er stöðugt á óskalistanum á Amazon.com

Með bestu kveðju, Eygló Harðar

www.eyglohardar.is

Eygló Þóra Harðardóttir, 10.1.2007 kl. 16:30

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentið. Já, það er víst. Merkileg ævi sem þau áttu. Hef einmitt lesið ævisöguna, það er mjög góð bók. Allt mjög góðar myndir og vel gerðar, Two Women er eðalmynd. Þú verður endilega að sjá hana.

Vona að þér muni ganga vel í prófkjörinu um aðra helgi. Var gaman annars að hittast á fundi Sóknar hér á Akureyri í október 2005. Virkilega fínn dagur þá og gaman að hitta þá sem komu á fundinn.

mbk

Stefán Friðrik Stefánsson, 10.1.2007 kl. 16:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband