Oddur Helgi styður Sigrúnu Björk

Sigrún Björk Jakobsdóttir Það kom mér, og eflaust mörgum fleirum, skemmtilega á óvart að Oddur Helgi Halldórsson skyldi styðja Sigrúnu Björk Jakobsdóttur, bæjarstjóra, í kjörinu á bæjarstjórnarfundi í gær þegar að hún var kjörin eftirmaður Kristjáns Þórs Júlíussonar. Kannski kemur það ekki að óvörum í ljósi þess að þau hafa lengi unnið saman í nefndum og ráðum bæjarins og voru t.d. saman í menningarhússverkefninu umfangsmikla og hafa átt þægilegt og gott samstarf. Oddur Helgi er að mínu mati maður að meiri fyrir að hafa tekið þessa afstöðu.

Það hefur verið gaman fyrir okkur stjórnmálaáhugamenn að spá og spekúlera í pólitík og starfsháttum Odds Helga sem bæjarfulltrúa allt frá því að hann bauð fram Lista fólksins árið 1998 og klauf Framsóknarflokkinn, sem aldrei hefur borið sitt barr síðan og er nú t.d. hornreka flokkur í bæjarmálunum, sem er söguleg staða. Oddur Helgi hefur tryggt að hver bæjarstjórnarfundur er jafnan skemmtun og hefur þorað að vera öðruvísi en allir aðrir og segja hlutina með allt öðrum hætti. Þó að ég sé oft ósammála honum finnst mér gaman af Oddi Helga, heilt yfir.

Oddur Helgi varð fyrir áfalli í fyrra er Listi fólksins varð minnst flokka í bæjarstjórn Akureyrar. Með því missti Oddur Helgi vægi sitt sem bæjarráðsmaður og nefndavægi sitt umtalsvert. Hann er nú bara áheyrnarfulltrúi í bæjarráði og er mun minna áberandi í ljósi þess í nefndakerfi bæjarins. Hann er þó ekki minna áberandi á bæjarstjórnarfundum og passar ávallt upp á að halda meirihlutanum við efnið. Þó að hann sé stundum spes og þorir að vera á móti er hann þó trúr sínu og getur verið með góð komment og pælingar. Það er alltaf þörf á nýjum vinklum í umræðuna og það er alltaf þarft að minnihlutinn sé beittur og afgerandi. Þó Oddur Helgi sé minnstur afla í minnihlutanum finnst mér hann samt beittastur allra fulltrúa þeirra.

Í ljósi alls er því merkilegt að Oddur Helgi hafi greitt bæjarstjóranum á Akureyri atkvæði sitt og það sýnir bara heilindi hans að þora að vera sammála verkum og forystu meirihlutans. Það er merkileg staða og mjög góð, heilt yfir séð.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband