Jökulkalt stríð á milli Samfylkingar og VG

ISG Það verður ekki betur séð en að jökulkalt stríð sé á milli Samfylkingarinnar og VG í aðdraganda þingkosninga. Lítt dulbúin skot ganga þar á milli og það þarf ekki útlærða stjórnmálaspekinga til að sjá að kaffibandalagið höktir og er ekki sannfærandi blanda í aðdraganda kosninga. Það vakti mikla athygli að Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, gat ekki lofað Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, leiðtogahlutverki í samstarfi þeirra í Kryddsíld á gamlársdag.

Ingibjörg Sólrún kipptist við þessi tíðindi eins og sjá mátti í þættinum. Það er alveg greinilegt að hjá VG er ekkert lengur til sem heitir viðurkenning á yfirburðum Samfylkingarinnar á vinstrivængnum. Þar horfa menn til þess að VG hefur verið í sókn. Ef marka má kannanir nú myndi VG enda bæta við sig tíu prósentustigum en Samfylkingin droppa um svipað magn prósenta. Það eru stórtíðindi að Samfylkingin sé nú að mælast með aðeins 15 þingsæti og frekar veika stöðu. Samfylkingin er enda minni en VG í tveim kjördæmum nú, jafnstór þeim í einu kjördæmi, og minnst allra flokka í einu kjördæmi. Vond staða það fyrir Ingibjörgu Sólrúnu.

Í byrjun vikunnar pantaði Ingibjörg Sólrún viðtöl á báðum sjónvarpsstöðvum og fór með bölbænir til handa krónunni og tók af skarið um að Samfylkingin vill taka upp evru. Væntanlega mun þá Samfylkingin gera Evrópumálin að kosningamáli, eða hvað? Hún þorði því ekki síðast með ISG sem forsætisráðherraefni og yfirformann yfir Össuri eins og flestir muna væntanlega vel. Það hlýtur að hafa orðið henni áfall ð strax eftir þessi komment kemur Steingrímur J. Sigfússon fram í hádegisfréttum Útvarps í dag með þá yfirlýsingu að allt tal um að taka upp evruna sem lausn á núverandi hagstjórnarvanda hér á landi sé út í loftið.

Steingrímur J. Í merkilegu viðtali sagði Steingrímur J. að mikilvægt sé að gera krónuna ekki að blóraböggli. Hann semsagt stekkur algjörlega gegn ISG og gerir lítið úr henni og ESB-spádómunum. Enn einn vitnisburður þess að ekki verður "ESB-paradís Samfylkingarinnar" að veruleika hjá kaffibandalaginu. En hvernig líður kaffibandalaginu annars? Finnst fólki það bandalag orðið trúverðugt eftir atburði síðustu tíu til fimmtán dagana? Varla. Flest bendir nú til þess að mesti núningur kosningabaráttunnar verði milli VG og Samfylkingarinnar. Mörgum Samfylkingarmönnum hlýtur að finnast nóg um yfirlýsingar og takta vinstri grænna. 

Pirringurinn milli aflanna sést langar leiðir. Ofan á allt sem sést hefur fyrr blasir við að VG sé að færa Ögmund yfir í kragann til að hjóla í Samfylkinguna vegna stækkunar álvers Alcan. Litlir kærleikar verða þar milli flokkanna. Það má sjá langar leiðir. Tilfærsla Ögmundar, sem verið hefur þingmaður Reykvíkinga í tólf ár í kragann segir allt sem segja þarf, enda hefur hann aldrei tekið þátt í neinu flokksstarfi á kragasvæðinu eða verið fulltrúi flokksins þar. Það bendir margt til þess að umræðan um stóriðju og átök Ögmundar og Gunnars Svavarssonar, leiðtoga Samfylkingarinnar í kraganum, sem er forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, verði áberandi þar nú á næstunni.

Það verður gaman að sjá hversu heitt kaffið verður í kaffibandalaginu er til kjördags kemur og stjórnarmyndunarviðræðna falli sitjandi ríkisstjórn. Það verður væntanlega freistandi fyrir vinstriöflin að gleyma hvoru öðru og horfa til Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, um vist í tveggja flokka sterkri ríkisstjórn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Páll Þórðarson

Mæli eindregið með því að kjósendur sem ekki eru búnir að gera upp hug sinn varðandi kosningar í vor rýni ofan í tímabil vinstri stjórna á Íslandi og sjái þar afar skýrt slakan árangur þeirra.

Steingrímur Páll Þórðarson, 11.1.2007 kl. 20:54

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Tek svo sannarlega undir þessi skrif þín. Það er öllum hollt (nema vinstrimönnum kannski sérstaklega) að rifja upp tímabil vinstristjórna hér á gamla góða fróni.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 11.1.2007 kl. 21:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband