Hvað mun Ágúst Einarsson gera?

Ágúst Einarsson Það eru nokkuð merkileg tíðindi að Ágúst Einarsson, prófessor við Háskóla Íslands, fái ekki launalaust leyfi frá HÍ til að halda til starfa sem rektor Háskólans á Bifröst, en hann á að taka við embættinu formlega á morgun. Hvað mun Ágúst gera? Ágúst virtist vera svo sleginn í gær að hann gat ekki sagt hvorn kostinn hann muni velja, enda liggur augljóslega fyrir að hann verður mjög fljótlega annaðhvort að halda á Bifröst og segja upp störfum við HÍ eða halda við fyrri stöðu og afþakka Bifröst. Afarkostir það.

Skipan Ágústs í rektorsstöðu á Bifröst gerðist innan við tveim árum eftir að hann tapaði fyrir Kristínu Ingólfsdóttur í rektorskjöri í Háskóla Íslands. Kaldhæðnislegt var annars að heyra í Kristínu um málefni Ágústs í fréttatímum í gær. Barátta þessara tveggja var mjög harkaleg og einbeitt, eiginlega fyrsta fjölmiðla- og netbaráttan um rektorsstöðuna. Flestir muna enda eflaust eftir því að Ágúst var sérstaklega með öfluga baráttu á sínum tíma og opnaði vefsíðu þar sem hann kynnti áherslur sínar og verk með áberandi hætti. Tap Ágústs í kjörinu var honum eflaust mikið áfall.

Ágúst hefur verið prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskólans frá árinu 2000. Hann var virkur stjórnmálamaður til fjölda ára áður en hann hélt til starfa í Háskólanum. Hann var tvívegis alþingismaður; 1978-1979 fyrir Alþýðuflokkinn og 1995-1999 fyrir Þjóðvaka, flokk Jóhönnu Sigurðardóttur. Hann gaf kost á sér fyrir Samfylkinguna í Reykjaneskjördæmi í kosningunum 1999 en náði ekki öruggu þingsæti í prófkjöri og féll af þingi í kosningunum. Ágúst var fyrsti formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar 1999-2001 en hætti sem slíkur til að helga sig verkum í Háskólanum. Ágúst er faðir Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar.

Hann situr nú í stjórn Landsvirkjunar fyrir Samfylkinguna og var eitt sinn formaður bankastjórnar Seðlabankans, en sagði af sér sem slíkur árið 1994 í kjölfar þess að flokksbróðir hans, Sighvatur Björgvinsson, þáv. viðskiptaráðherra, skipaði Steingrím Hermannsson þáv. formann Framsóknarflokksins og fyrrum forsætisráðherra, sem seðlabankastjóra. Var hann á móti pólitískri skipan í embætti bankastjóra. Ennfremur var Ágúst um tíma formaður samninganefndar ríkisins, af hálfu Alþýðuflokksins, sem hann vann fyrir þar til hann gekk til liðs við Jóhönnu.

Ágúst Einarsson mun að mér skilst taka við rektorsstarfinu á Bifröst á morgun en Bryndís Hlöðversdóttir, aðstoðarrektor, hefur verið starfandi rektor skólans frá því að Runólfur Ágústsson hætti störfum þann 1. desember sl. Bryndís og Ágúst kannast vel hvort við annað. Þau sátu saman á Alþingi kjörtímabilið 1995-1999 og voru saman í fyrsta þingflokki Samfylkingarinnar í aðdraganda þingkosninganna 1999. Bryndís sat á þingi í áratug, 1995-2005, og var þingflokksformaður Samfylkingarinnar 2001-2004. Það má því segja að reynsluboltar frá Samfylkingunni stýri skólanum til verka. Þau þekkjast allavega mjög vel.

Mér finnst líklegra en ekki að Ágúst fari í Bifröst og segi skilið við HÍ. Eða hvað? Erfitt svosem um að segja. Þetta er væntanlega mikið val fyrir Ágúst. Það verður fróðlegt hvort hann velur rektorsstöðu í Borgarfirðinum eða prófessorsstöðu í höfuðstaðnum.

mbl.is Fær ekki launalaust leyfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Egill Óskarsson

Mér finnst reyndar alveg ótrúlegt að Ágústi hafi dottið í hug að hann gæti fengið launalaust leyfi í 4 ár hið minnsta, til þess að stýra skóla sem er í samkeppni við HÍ.

Egill Óskarsson, 14.1.2007 kl. 14:49

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Tek undir það með þér, en skiljanlegt svosem að hann vilji láta á þetta reyna. Þetta er merkileg niðurstaða. Fróðlegt að sjá hvað hann gerir nú.

Stefán Friðrik Stefánsson, 14.1.2007 kl. 15:02

3 Smámynd: Davíð

Rektor á Bifröst er í svipaðri stöðu og að vera þingmaður, því hann er ráðinn í 4 ár og þarf þá að fá undanþágu frá háskólastjórn til að halda áfram eða finna sér nýtt starf að þeim tíma liðnum. Hér er því einungis um tímabundna ráðningu að ræða og ekkert skrítið að láta reyna á það að fá gamla starfið sitt aftur þegar því starfi er lokið.

Davíð, 14.1.2007 kl. 17:00

4 Smámynd: Davíð

Ástæðan fyrir því að þessi háttur er hafður á við ráðningu til fjöurra ára er sá að Bifröst er sjálfseignarstofnun og er þetta gert til þess að sá sem gegnir þessari stöðu eigni sér ekki stöðuna og skólann.

Davíð, 14.1.2007 kl. 17:10

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir góð komment Dabbi og að bæta þessum punktum í umræðuna.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 14.1.2007 kl. 17:17

6 Smámynd: Egill Óskarsson

Já  ég skil það alveg Dabbi en afstaða HÍ er líka mjög skiljanleg. Af hverju eiga þeir að veita honum leyfi til að fara að stjórna samkeppnisaðila og halda stöðunni lausri á meðan?

Egill Óskarsson, 14.1.2007 kl. 19:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband