Áfall fyrir Sarkozy - hvað mun Chirac gera?

Nicolas Sarkozy Það er ekki hægt að segja annað en að það sé áfall fyrir Nicolas Sarkozy, innanríkisráðherra Frakklands, að hafa aðeins hlotið 70% atkvæða í eins manns kjöri innan UMP-hægriblokkarinnar um það hver eigi að vera forsetaefni þeirra. Forseti Frakklands verður kjörinn í tveim umferðum, ef með þarf, 22. apríl og 6. maí nk. Stefnir flest í að mesta baráttan um forsetaembættið verði milli hans og Segolene Royal, sem útnefnd hefur verið forsetaefni sósíalista, og er fyrsta konan sem á raunhæfa möguleika á embættinu. Er talað um Sarko-Sego tíma í frönskum stjórnmálum.

Það að Sarkozy hafi ekki hlotið meira afgerandi umboð sýnir vel hversu klofinn hægriarmurinn er í afstöðunni til hans. Þetta er eiginlega mjög alvarlegt mál, enda gæti klofin afstaða til kjörsins komið þjóðernisöfgamanninum Jean-Marie Le Pen mjög til góða og gert að verkum að hann gæti jafnvel komist í aðra umferðina gegn Royal, en flestum er eflaust enn í fersku minni að Le Pen tókst að komast í seinni umferðina gegn Jacques Chirac í forsetakosningunum árið 2002 og felldi sósíalíska forsætisráðherrann Lionel Jospin úr kjörinu og batt enda á stjórnmálaferil hans.

Klofningur hægriblokkarinnar er öllum ljós nú. Hvorki Jacques Chirac, forseti, né Dominique de Villepin, forsætisráðherra, hafa lýst yfir stuðningi við Sarkozy og enn er öllum hulið hvort Chirac forseti muni fara fram, en hann hefur setið við völd í Elysée-höll á forsetastóli allt frá vorinu 1995 og var endurkjörinn í forsetakosningunum 2002 í fyrrnefndum sögulegum slag við Le Pen og hlaut þá stuðning sósíalista til að koma í veg fyrir sigur þjóðernisöfgamannsins. Það þótti kaldhæðnislegt og markaði í raun sætasta pólitíska sigur hins umdeilda Chirac. Flestir spyrja sig um fyrirætlanir Chiracs. Hann hefur ekki enn útilokað forsetaframboð, þó 75 ára gamall verði á árinu.

UMP var byggð upp sem pólitískur heimavöllur Jacques Chirac. Á nokkrum árum hefur Sarkozy tekist að gera hana að sinni með einkar athyglisverðum hætti. Það bauð sig enginn fram gegn honum innan flokksins sem forsetaefni hans er framboðsfrestur rann út um jólin. Þar þarf þó kosning að fara fram. Sarkozy varð felmtri sleginn á svip, ef marka má franska vefmiðla, er úrslitin voru lesin upp. Hann hlaut aðeins 70% atkvæða gildra flokksmanna í netkosningu. Það er mikið áfall, enda segir það með afgerandi hætti að hann er ekki óumdeildur frambjóðandi hægriblokkarinnar. Royal tókst t.d. að ná yfir 60% í baráttu við tvo þekkta baráttuhunda innan flokksins; Fabius og Strauss-Kahn.

Fjarvera Jacques Chirac, forseta Frakklands, á baráttufundi UMP-hægriblokkarinnar í dag, þar sem úrslit kosningarinnar voru tilkynnt, var svo sannarlega hrópandi áberandi að öllu leyti. Hann ætlar sér greinilega ekki að leggja Sarkozy lið. Hann hefur ekki útilokað að fara fram í vor, þó óháður frambjóðandi yrði í slíkri stöðu. Villepin forsætisráðherra hefur ekkert sagt heldur sem flokkast sem stuðningsyfirlýsing við Sarkozy og segist bíða ákvörðunar forsetans. Villepin mætti á fund UMP í dag en kaus ekki. Afgerandi skilaboð það. Það vakti reyndar gríðarlega athygli að Sarkozy gaf kost á sér án þess að fyrirætlanir forsetans væru ljósar.

Það er greinilega kalt stríð þarna milli aðila og fer sífellt versnandi eftir því sem styttist í örlagastund. Jacques Chirac hefur aldrei fyrirgefið Sarkozy að hafa ekki stutt sig í forsetakosningunum 1995 og það verið dökkur blettur í hans huga. Það var til marks um það pólitíska minni Chiracs að hann skyldi ekki velja Sarkozy sem forsætisráðherra í júní 2005 er hann sparkaði Jean-Pierre Raffarin og skyldi velja Villepin. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer. Menn bíða enn einu sinni eftir Chirac, sem er og hefur alla tíð verið pólitískt ólíkindatól. Tekur hann slaginn?

mbl.is Sarkozy formlega útnefndur forsetaframbjóðandi hægrimanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband