Frú Dorrit á forsetavakt segir sína sögu

Dorrit Moussaieff Viðtal Evu Maríu Jónsdóttur við Dorrit Moussaieff, forsetafrú, í Kastljósi í gærkvöldi var mjög áhugavert. Þar kynntust landsmenn enn betur annarri hlið á Dorrit og fengu að fræðast um bernsku hennar og bakgrunn, áður en hún giftist Ólafi Ragnari Grímssyni. Þetta var því áhugaverð stund og forsetafrúin fór yfir margt sem lítið hefur verið rætt um áður. Var ennfremur rætt við tvær vinkonur hennar, önnur þeirra er gift leikaranum Michael Caine.

Mikla athygli mína í viðtalinu vakti að þar var frekar athyglisverð kynning á álverinu í Straumsvík, sem er eins og flestir vita ekki svo fjarri Bessastöðum. Talaði Dorrit fallega um fyrirtækið og forstjórann Rannveigu Rist. Var þar meira að segja viðtal við Rannveigu og sýndar myndir frá heimsókn forsetafrúarinnar í álverið. Þetta var fróðlegt innlegg í þáttinn, en nú er ekki langt þar til að greiða á atkvæði um hvort stækka eigi álverið. Þetta er því merkileg tímasetning þessa innleggs í viðtal við forsetafrúna að mínu mati. Þetta var mjög áberandi allavega.

Dorrit Moussaieff hefur í tæpan áratug verið áberandi fulltrúi íslenska forsetaembættisins. Hún kom þar til sögunnar eftir andlát Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur, forsetafrúar, fyrri eiginkonu Ólafs Ragnars Grímssonar, sem lést úr hvítblæði í október 1998. Hún var stór hluti forsetaembættisins er hún féll frá, enda ekki verið minna áberandi í forsetakosningunum 1996 en Ólafur Ragnar. Það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir Dorrit að koma þar til sögunnar, svo skömmu eftir lát Guðrúnar Katrínar og raun bar vitni, en henni hefur tekist að verða fulltrúi á vegum forsetaembættisins með sínum hætti og hefur ekki reynt að fara í fótspor ástsællar forsetafrúar, sem Guðrún Katrín var.

Mér fannst að heyra á þessu viðtali að Dorrit telji Ólaf Ragnar Grímsson eigi margt eftir í embætti forseta Íslands, þó hann hafi setið á Bessastöðum í tæp ellefu ár. Það má kannski marka af þessum orðum að Ólafur Ragnar stefni á fjórða kjörtímabilið, eins og Ásgeir Ásgeirsson og Vigdís Finnbogadóttir en láti ekki tólf ár duga eins og dr. Kristján Eldjárn. Mér fannst ummæli hennar um framtíðina athyglisverð. Þau mátti merkja á báða vegu en mér fannst þau þó skýrari merki í þá átt að hún telji Ólaf Ragnar eiga enn nokkuð eftir á forsetastóli.

Dorrit hefur verið í kastljósi fjölmiðla allt frá sögufrægum útreiðartúr þar sem forsetinn axlarbrotnaði og hún birtist við hlið hans í samlitum fötum við útgang Landsspítalans. Þar var hún hin framandi kona sem fáir þekktu en allir vissu að hafði fangað hug og hjarta þjóðhöfðingja sem var að jafna sig eftir erfiðan ástvinamissi. Áratug síðar er hún enn framandi og segir enn sögu sem við þekkjum ekki. En eitt er víst; ævi Dorritar á forsetavakt er athyglisverð.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Karl Ólafsson

Ég er alfarið þeirrar skoðunar að Alcan hafi farið talsvert yfir strikið undanfarið og sé of augljóslega með PR herferð í gangi vegna fyrirhugaðra kosninga um deiliskipulag Hafnarfjarðar. Þetta þykir mér gilda hvoru tveggja um 'jákvæð' atriði eins og gjafir til Hafnfirðinga og 'neikvæð' eins og lítt dulbúnar hótanir um að fyrirtækið pakki saman og fari verði niðurstaða kosninganna því ekki í hag. Styrkveitingar til íþróttafélaga og annarrar samfélagsstarfsemi sem nokkuð hefur verið agnúast út í undarfarið held ég að líta verði öðrum augum, enda hafa þær viðgengist í áratugi í sumum tilfellum og verða að teljast eðlilegar hjá fyrirtæki eins og Alcan, hvar sem það er í heimi statt.

En verðum við svo ekki að gæta okkar á því að stimpla hverja frétt eða jákvæða tilvísun til fyrirtækisins eða forráðamanna þess sem 'PR stunt'?

Nú hef ég ekki hugmynd um hvort Alcan 'styrkti gerð þessa þáttar', þ.e. kom eitthvað að gerð þessa viðtals við Dorrit. Ef það er tilfellið, þá kann hér að hafa verið á ferðinni ósvífið 'PR stunt'. En ef svo er ekki, höfum við þá einhverja ástæðu til að ætla að Eva María og Dorrit hafi sammælst um að mæra fyrirtækið til þess að hafa áhrif á hvernig Hafnfirðingar greiði atkvæði í vor, eða hvenær sem kosningarnar verða?

Heimsókn Dorritar í álverið var að mínu mati ekki það athyglisverðasta í viðtalinu. Ég er sammála lokaorðum þínum um forsetafrú vora, en eigum við ekki að fara að láta umræðurnar um álversstækkunina færast yfir á málefnalegra plan?

Karl Ólafsson, 16.1.2007 kl. 10:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband