Ódýra myndin fellir tekjuhæstu mynd sögunnar

Sigur stríðsmyndarinnar The Hurt Locker og leikstjórans Kathryn Bigelow á stórmynd James Cameron, vísindaskáldsögunni Avatar, er táknrænn og sögulegur í senn: þar fellir ódýra myndin, sem komin er út á DVD og vakti mun minni athygli kvikmyndaáhugamanna, tekjuhæstu mynd sögunnar, sem var talin örugg um sigur á hátíðinni fyrir nokkrum vikum, einkum eftir að hún vann Golden Globe-verðlaunin.

Kathryn Bigelow kemst í sögubækurnar með því að vera fyrsta konan til að vinna leikstjóraóskarinn í 82 ára sögu akademíunnar. Löngu tímabært að akademían heiðraði kvenkyns leikstjóra. Aðeins þrjár konur höfðu fengið tilnefningu í leikstjóraflokknum á undan Bigelow; Lina Wertmüller, árið 1976, Jane Campion, árið 1993, og Sofia Coppola, árið 2003.

Ljóst varð þegar Hurt Locker tók óskarinn fyrir handritið að hún myndi sópa til sín stærstu verðlaunum og vakti raunar mesta athygli þegar Hurt Locker vann hljóðverðlaunin í baráttunni við Avatar. Raunar hafði barátta Cameron og Bigelow um óskarinn verið í sviðsljósinu, einkum vegna þess að þau voru gift 1989-1991.

Jeff Bridges vann loksins óskarinn, seint og um síðir, tæpum fjórum áratugum eftir að hann sló í gegn í Last Picture Show og varð þekktur fyrir eitthvað annað en vera sonur Lloyd Bridges. Túlkun hans á drykkfellda sveitasöngvaranum í Crazy Heart hefur verið rómuð mjög. Bridges hefur átt glæsilegan leikferil og átt margar flottar leiktúlkanir - löngu búinn að vinna fyrir gullnu styttunni. Ræðan hans var traust og flott - sæt minning um mömmu og pabba.

Sandra Bullock náði að vinna hið merkilega afrek að vinna bæði Óskar og Razzie sömu helgina. Sandra hefur verið umdeild leikkona alla tíð, bæði fyrir að geta ekki leikið og vera lítt fjölbreytt í leiktúlkun. Hún átti góða takta í Speed og Crash, en ég hef ekki verið meðal hennar mestu aðdáenda í gegnum tíðina.

Hefði frekar viljað að Meryl Streep, besta leikkonan í Hollywood, fengi óskarinn. Það eru orðin 27 ár síðan Meryl hlaut óskarinn fyrir Sophie´s Choice, en hún vann fyrri óskarinn þrem árum áður fyrir Kramer vs. Kramer. Enginn leikari í sögu akademíunnar hefur hlotið fleiri tilnefningar, sextán talsins. Meryl hefði átt að fá styttuna.

Mo'Nique og Christoph Waltz voru með gullnu styttuna trygga. Öruggustu veðmál kvöldsins að þau myndu sigra, bæði tvö mjög verðskuldað fyrir flotta túlkun. Þegar ég sá Waltz í Inglourious Basterds var ég viss um að hann tæki óskarinn, glæsileg frammistaða.

Útsendingin var frekar þurr og þreytt. Það þarf að stokka uppsetninguna á hátíðinni eitthvað verulega upp. Baldwin og Martin voru ekkert spes sem kynnar, góðir brandarar voru mjög fáir. Langhundurinn í upptalningu þegar kom að aðalleikflokkunum var einum of og seinkaði dagskránni og bætti litlu við. Svo vantaði fleiri lífleg tónlistaratriði. Slappt að tilnefnd lög væru ekki spiluð.

Svo fannst mér snubbótt og leitt að heiðursverðlaunin voru ekki afhent á sviðinu á hátíðinni. Lauren Bacall átti þau skilið og gott betur en það: ein af síðustu leikkonum gullna tímans í Hollywood sem enn lifir, er ekkja Humphrey Bogart, og hefur verið traust leikkona alla tíð.

Akademían átti að veita henni leikverðlaunin fyrir Mirror Has Two Faces á sínum tíma. Fannst það frekar leitt að Bacall væri ekki sýndur meiri sómi þegar hún hlaut heiðursverðlaunin. Þetta var of snubbótt.



Hugljúfasta augnablikið á hátíðinni var þegar minnst var látinna listamanna. James Taylor söng Lennon/McCartney-lagið In My Life... sætt og vel gert. En hvar var Farrah Fawcett? Alveg til skammar að hún var ekki í klippunni!



Toppar samt ekki minningarklippuna á síðasta ári þegar Queen Latifah söng I´ll Be Seeing You... það var sko stæll yfir því. Fagmennska yfir þeirri klippu.

mbl.is Bigelow stjarna kvöldsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband