Guðni sigrar með yfirburðum - Hjálmar fallinn

Guðni Ágústsson Það er enginn vafi að Guðni Ágústsson, höfðingi hinna sunnlensku sveita, hefur unnið með yfirburðum í prófkjöri framsóknarmanna í Suðurkjördæmi. Hjálmar Árnason er þriðji og því fallinn af þingi miðað við það. Bjarni Harðarson, ritstjóri, er í öðru sætinu og virðist stefna í að hann hljóti það. Það er mjög athyglisvert hversu mikinn skell Hjálmar er að fá í þessu prófkjöri miðað við að hann hefur verið þingflokksformaður Framsóknarflokksins í fjögur ár og áhrifamaður þar.

Guðni leiddi flokkinn í kjördæminu í síðustu kosningum og sóttist eftir því áfram, enda verið þingmaður í tvo áratugi, ráðherra í átta ár (lengst allra núverandi framsóknarmanna í ríkisstjórn) og varaformaður Framsóknarflokksins í sex ár. Það virðist hafa verið mjög misráðið hjá Hjálmari að sækjast eftir leiðtogasætinu og hann fær nokkuð þungan skell, enda hefur hann verið þingmaður flokksins í tólf ár og áberandi í innra starfi flokksins. Hann virðist standa í sömu sporum og Kristinn H. Gunnarsson eftir þetta prófkjör. Heldur verður það að teljast ólíklegt að hann taki þriðja sætinu og annaðhvort horfi í aðrar áttir eða hætti þátttöku í stjórnmálum.

Hjálmar Árnason Mörgum að óvörum lagði Hjálmar til við Guðna. Það voru stór tíðindi á framsóknarmælikvarða, enda hefur Guðni verið einn vinsælasti stjórnmálamaður landsins síðustu árin og var undir lok stjórnmálaferils Halldórs mun vinsælli en hann og er vinsælli en nýi formaður flokksins líka. Þarna lyktaði af fyrri væringum og átakalínurnar virtust vera nákvæmlega þær sömu. Guðni og hans stuðningsmenn voru eflaust vel meðvitaðir um þetta.

Guðni hefur verið sem óskoraður héraðshöfðingi Framsóknarflokksins á Suðurlandi síðan að Jón Helgason, fyrrum dómsmála- og landbúnaðarráðherra, hætti í stjórnmálum árið 1995. Varla voru sunnlenskir bændahöfðingjar ánægðir með mótframboðið við Guðna og þeir hafa greinilega passað vel upp á "sinn mann" enda er Guðni vinsæll til sveita fyrir verk sín. Það mátti eiga von á spennandi rimmu en munurinn virðist afgerandi og enginn vafi að umboð Guðna sé afgerand sterkt til forystu.

Eins og ég benti á hér á föstudag voru allmiklar miklar líkur á að sá sem myndi tapa slagnum gæti fallið niður í þriðja sætið, enda er greinilegt að stuðningsmenn Guðna hafa stutt Bjarna í annað sætið. Þetta eru allavega stórtíðindi. Báðum þingflokksformönnum stjórnarflokkanna hefur nú verið hafnað í leiðtogakjöri í prófkjöri. Arnbjörg Sveinsdóttir tapaði fyrir Kristjáni Þór Júlíussyni í prófkjöri sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi eins og flestir muna. En allra augu verða nú á því hvað verður um Hjálmar í Suðrinu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband