Bæjarstjóraráðning og fjölskyldutengsl L-listans

Altalað hefur verið hér á Akureyri síðustu vikur að Eiríkur Björn Björgvinsson, fráfarandi bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði, verði næsti bæjarstjóri á Akureyri. Heyrði þá kjaftasögu fyrst síðustu viku kosningabaráttunnar, þegar allt stefndi í að L-listinn myndi sigra kosningarnar, að þeir myndu koma með nafn hans í meirihlutaviðræður við ráðningu bæjarstjóra.

Sú kjaftasaga magnaðist allnokkuð að kvöldi kjördags þegar ljóst var að L-listinn hefði hlotið hreinan meirihluta og réði bæjarstjórastólnum alfarið eitt. Opna ráðningaferlið sem L-listinn hafði sem kosningaloforð hefur vakið margar spurningar og ekki hefur L-listanum tekist að stöðva þær sögusagnir að auglýst hafi beinlínis verið eftir Eiríki Birni í bæjarstjórastólinn.

Eftir að L-listinn tók við völdum hefur nefndaskipan bæjarins óneitanlega vakið athygli. Tengdasonur Odds Helga Halldórssonar, Dagur Fannar Dagsson, var valinn sem varaformaður félagsmálaráðs og eiginmaður Höllu Bjarkar Reynisdóttur, bæjarfulltrúa og formanns Akureyrarstofu, Preben Pétursson, valinn sem varaformaður skólanefndar.

Ekki má gleyma því að Helga Mjöll Oddsdóttir, dóttir Odds Helga, er fyrsti varamaður í stjórn Akureyrarstofu. Haraldur Helgason, móðurbróðir Höllu Bjarkar, er varaformaður skipulagsnefndar og eiginkona Haraldar, Hulda Stefánsdóttir, er varaformaður umhverfisnefndar. Auk þess má heldur ekki gleyma að Oddur er móðurbróðir Geirs Kristins, oddvita L-listans.

Ekki hefur beinlínis verið hefð fyrir því að oddvitar og bæjarfulltrúar framboðslistanna hér raði mökum, tengdabörnum og nánustu fjölskyldumeðlimum í nefndir bæjarins og vonandi er þetta slys hjá L-listanum. Svona vinnubrögð eru ekki beint æskileg.

Ég hef margoft óskað L-listanum góðs eftir að þeir unnu kosningarnar. Vona að þeir muni standa undir trausti bæjarbúa og stýra bænum af krafti þó fyrstu verkin og nefndaskipan fái mann til að efast nokkuð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband