Sigurjóni Ben hafnað á kjördæmisþingi

Sigurjón Benediktsson Ég sat ekki kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi um síðustu helgi og missti því af umræðum þar. Það mun hafa verið líflegt þing að sumu leyti. Á þinginu bauð Sigurjón Benediktsson, sem lenti í áttunda sæti í prófkjöri flokksins í nóvember en var ekki á listanum að tillögu kjörnefndar, sig fram í sjöunda sætið en tapaði í kosningu fyrir Ingibjörgu Ösp Stefánsdóttur, kynningarfulltrúa Kaupfélags Eyfirðinga, sem var í tillögu kjörnefndar. Heyrði frá þessu eftir helgina frá nokkrum þeirra sem fóru á þingið.

Sigurjón fjallar um þessa höfnun á kjördæmisþinginu í bloggfærslu á heimasíðu sinni og segir þar orðrétt: "Sjálfstæðisfélag Húsavíkur og nágrennis hafði samþykkt einróma að styðja mig til þess sætis svo ég taldi skyldu mína að láta á það reyna. Ekki veit ég hvaða horn Akureyringar hafa í síðu minni en ekki finn ég mikið fyir því í daglegu amstri en þeir eru afskapleg illa hyrndir og erfitt að átta sig á hvert hornin stefna. Friðrik Sigurðsson bóksali á Húasvík verður fulltrúi svæðisins (17% landsins) í 8. sæti og mega Þingeyingar muna sinn fífil fegurri á lista flokksins í kjördæminu. En svona er það bara. Ég óska listanum góðs gengis í kosningunum." Þetta eru vissulega nokkuð athyglisverð skrif og kennir hann greinilega liðsmönnum Kristjáns Þórs Júlíussonar, fyrrum bæjarstjóra, um að hafa hafnað sér.

Ég hef starfað talsvert lengi í flokknum hér á svæðinu. Ég kannast við hvorugt þeirra; Ingibjörgu Ösp og Friðrik, en þau eru væntanlega nýliðar í flokknum. Mikla athygli vekur að enginn þeirra þriggja sem urðu neðar en í sjötta sæti í prófkjörinu er á framboðslistanum. Ég hef reyndar heyrt raddir um það eftir þingið að Björn Jónasson frá Siglufirði hafi íhugað að bjóða sig fram á listann á þinginu en hætt við það eftir að hann las í stöðuna. Sigurjón tjáir sig með þeim hætti að óánægja sé meðal Þingeyinga. Eflaust eru ekki allir sáttir. Halldór Blöndal var löngum fulltrúi Þingeyinganna, þeir litu á hann sem sinn kandidat, enda ræktaði hann baklandið þar vel. Skil vel að Þingeyingar séu ósáttir við sinn hlut, en svona er víst staða mála.

Það hefði verið fróðlegt að heyra orðaskipti á kjördæmisþinginu en mér skilst að nokkuð hvasst hafi verið þar á milli Sigurjóns og annarra sem tóku til máls. Það verður reyndar fróðlegt að sjá hvað Kristinn Pétursson gerir. Ef marka má kjaftasögurnar horfir hann til framboðs með Frjálslyndum. Veit ekki hvort svo verður er á hólminn kemur. En það hefur greinilega verið líf og fjör í Mývatnssveit á þessu kjördæmisþingi ef marka má þá sem ég hef heyrt í.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Það er dálítið merkilegt með hann Sigurjón, að þetta er bráðskarpur maður og skemmtilegur, beittur penni og orðheppinn en hann virðist rekast illa í flokki. Hann sat um tíma í bæjarstjórn Húsavíkur en hætti eða tók sér hvíld frá pólitíkinni. Nú er hann að koma til baka en menn vilja ekki sjá hann.

 Það er eins og mig minni að Friðrik Sigurðsson kaupmaður á Húsavík hafi verið framsóknarmaður þar til fyrir skömmu, en sjálfsagt hugsa sjálfstæðismenn að það sé sama hvaðan gott kemur. Friðrik er dugnaðarforkur sem sést best á hve vel hann rekur fyrirtæki sitt Bókabúð Þórarins Stefánssonar á Húsavík. Það er reyndar minnst af bókum þar í dag heldur er þetta blönduð búð með nánast allt nema matvöru. Nýlega  var hann að fara í samstarf með Bræðrunum Ormsson.

Gísli Sigurðsson, 24.1.2007 kl. 21:03

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir góð komment.

Gísli: Merkileg skrif.

Kristinn P: Gott að vita að þetta sé bara kjaftasaga.

Ragnar: Jón Helgi er leiðtogi flokksins í bæjarmálunum í Norðurþingi, semsagt Húsavík og nágrenni.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 25.1.2007 kl. 14:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband