Samfylkingin í frjálsu falli - veik staða ISG

ISG Enn syrtir í álinn fyrir Samfylkinguna. VG er orðin stærri en flokkurinn í nýrri könnun Frjálsrar verslunar, sem þar mælist með tæplega 20% fylgi. Um er að ræða lægsta fylgi Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum eftir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varð formaður flokksins í maí 2005 og eru þessir svörtu dagar sem Samfylkingin er að upplifa ískyggilega líkir því sem gerðist á árinu 2001 þegar að flokkurinn naut ekki trausts og hafði innan við 20% fylgi í könnunum.

Greinilegt er að Samfylkingin á í víðtækum vanda. Vissulega eru skoðanakannanir bara mæling á stöðu mála á tilteknum tíma. En það er óneitanlega merkilegt að fylgjast með stöðu Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum eftir formannsskiptin. Leiðin hefur sífellt legið niður á við á þessum tíma og virðist staðan nú sýna hversu veikur flokkurinn heldur til kosninganna. Þessi staða er pólitískt áfall fyrir flokk og formann, enda vandséð hvernig að formaðurinn geti setið áfram tapi flokkurinn svona gríðarlega stórt.

Spurningin er auðvitað sú hvernig Ingibjörg Sólrún mun halda á forystukeflinu hjá þessum flokki í aðdraganda kosninganna. Henni virðast vera mislagðar hendur og hún er væntanlega nú á einhverjum krísufundum við að reyna að finna taktinn sinn í þessum efnum. Klúðrið hefur falist í stefnuflakki og vandræðalegu hjali um hitamál, tel ég. Það er nefnilega oft þannig að fólk verður hlægilegt þegar að það reynir að elta allar vinsældakannanir. Þarna er væntanlega vandi Samfylkingarinnar. Nú virðist það vera svo að ISG verður að berjast upp á pólitískt líf eða dauða. Þetta er stingandi staða allavega fyrir flokk sem alla tíð hefur verið í stjórnarandstöðu.

Það er ekki furða að Steingrímur J. skrifi ekki upp á að Ingibjörg Sólrún leiði stjórnarandstöðuna og sé eitthvað forsætisráðherraefni hennar. Staða Samfylkingarinnar verður enda vængbrotin verði þetta mikla fylgistap staðreynd. Það verða stórtíðindi tapi leiðandi stjórnarandstöðuflokkur 5-8 þingsætum og getur varla flokkast undir neitt nema pólitískt afhroð fyrir flokk og formann. Það er greinilegt að kosningabaráttan gæti orðið sú síðasta fyrir konuna sem varð borgarstjóri í Reykjavík í nafni sameiginlegs fjölflokkaframboðs félagshyggjuafla og vann tvisvar endurkjör. Eftir að hún yfirgaf Ráðhúsið í Reykjavík hefur pólitískur ferill hennar orðin ein samfelld sorgarsaga.

Fari kosningar í einhverja viðlíka átt og kannanir Fréttablaðsins og Frjálsrar verslunar verður erfitt að líta á baráttukonuna Ingibjörgu Sólrúnu sem einhverja sigurstjörnu vinstrimanna, svo mikið er nú víst.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband