Skoski harðjaxlinn riðar til falls

John ReidFyrir nokkrum mánuðum var John Reid, innanríkisráðherra Bretlands, talinn geta orðið keppinautur Gordon Brown um völd og áhrif innan Verkamannaflokksins eftir valdadaga Tony Blair. Það telja fáir nú. Skoski harðjaxlinn riðar nú til falls vegna embættisverka sinna og stjórnsýslu, ekki ósvipað Charles Clarke í maí í fyrra. Þá lét Blair hann gossa. Nú er Reid í sömu stöðu. John Reid hefur verið einn nánasti pólitíski samherji Blairs síðustu árin - honum er vandi á höndum.

Í stuttu máli sagt er staða mála svona: breskur dómari dæmdi í vikunni sakfelldan barnaníðing til skilorðsbundinnar refsingar og lét hann lausan á þeirri forsendu að bresk fangelsi væru yfirfull. Barnaklám fannst í tölvu mannsins og hann átti fangelsisdóm yfir höfði sér en dómarinn sagði að hann yrði að taka tillit til beiðni stjórnvalda um að dæma aðeins hættulegustu glæpamennina til fangelsisvistar. John Reid og Goldsmith ríkissaksóknari sendu öllum dómurum bréf á dögunum og báðu þá að íhuga að grípa til annara refsinga en fangelsisdóma þar sem fjöldi fanga nálgist nú 80.000 og fleiri komist ekki fyrir í fangelsunum.

Reid liggur undir miklu ámæli vegna málsins. Hann hefur reynt að svara fyrir sig í fjölmiðlum en bara gert illt verra. Eftir miðnættið sá ég viðtal við hann á Sky, sem kom ekki vel út. Hann sneri út úr spurningum og virkaði önugur. BBC hefur nú grafið upp fleiri skaðleg dæmi af þessu tagi og birt í fréttum sínum. Staða Reid heldur því aðeins áfram að versna. Það er vandséð hvernig að hinn tryggi stuðningsmaður Blairs getur setið öllu lengur. Þetta mál hefur afhjúpað vanda Verkamannaflokksins. Fyrir áratug hét flokkurinn að taka á fangelsismálum. Ekki virðist það hafa orðið raunin ef marka má þetta klúður.

Í fyrra var Reid sóttur af Tony Blair í innanríkisráðuneytið til að redda málunum eftir Charles Clarke sem missti fótanna þar og hrökklaðist úr embætti. Það var ekki nýtt að Reid hafi verið sóttur til að taka við stórum verkefnum í kjölfar krísustöðu eða innri erfiðleika. Til dæmis var hann eitt sinn ráðherra málefna Skotlands og Norður-Írlands, hann varð þingleiðtogi í apríl 2003 er Robin Cook sagði af sér í skugga upphafs Íraksstríðsins með hvassri ræðu í þinginu, hann varð heilbrigðisráðherra við óvænta afsögn Alan Milburn sumarið 2003, varð varnarmálaráðherra eftir kosningarnar 2005 þegar að Geoff Hoon hafði klúðrað sínum sénsum.

Nú stendur skoski harðjaxlinn sjálfur berskjaldaður í vondri stöðu, sem sannar vanda Verkamannaflokksins og brostin fyrirheit í kosningabaráttunni 1997 þar sem að Blair og kratar komust til valda á bylgju góðvildar og ferskleika. Ferskleikinn er löngu horfinn. Eftir standa skandalar sem skaða. Ef Reid hrökklast frá vegna þessa máls veikist forsætisráðherrann sjálfur umtalsvert, enda Reid verið einn af hans nánustu pólitísku samherjum. Það eru erfiðir dagar í Downingstræti nú, húsbóndinn sem brátt fer á erfiða ákvörðun fyrir höndum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband