Góð lög áfram í Eurovision - betri pakki en síðast!

Jónsi Það var gaman, fannst mér, að horfa á söngvakeppnina í kvöld. Voru mun betri lög núna en síðast að mínu mati. Fannst fjögur lög bera af í kvöld og var ánægður með að þrjú þeirra komust áfram á úrslitakvöldinu. Langbest í kvöld þótti mér vera lagið Segðu mér með Jónsa - mikið dúndurlag. Lögin Eldur með Friðriki Ómari og Ég les í lófa þínum með Eiríki Haukssyni voru ekki mikið síðri. Fjórða lagið var Mig dreymdi með Heru Björk.

Jónsi og Friðrik Ómar eru báðir Eyfirðingar, svo að við getum bara verið nokk sátt hér fyrir norðan með að þeir hafi komist áfram. Jónsi er auðvitað héðan frá Akureyri, við erum jafnaldrar og leiðir okkar hafa legið saman. Feður okkar voru saman í sundi í denn tid og auk alls annars býr Vala, systurdóttir mín og litla fjölskyldan hennar, í kjallaranum hjá Snæbirni og Liv, foreldrum Jónsa, í Steinahlíðinni úti í þorpi. Jónsi fór út í Eurovision árið 2004 með lagið Heaven eins og flestir muna eflaust eftir.

Friðrik Ómar og ég þekkjumst frá því í denn á Dalvík. Hann hefur sífellt verið að bæta sig í tónlistinni og stendur sig vel. Fólkið útfrá og við öll hér reyndar getum verið stolt af framgöngu hans. Ekki hefði mér órað fyrir fyrst þegar að ég kynntist Frikka að hann ætti eftir að enda í Eurovision sem mögulegt efni í okkar nafni á erlendri grund en það hefur lengi verið ljóst að vegur hans væri í tónlistinni. Þar gengur honum líka vel. Flott lag með honum. Svo var auðvitað meistarinn Eiríkur Hauksson flottur í sínu lagi og enginn vafi að hann færi áfram. Hann hefur ekki tekið þátt í keppninni hér heima í tvo áratugi; söng Gleðibankann úti 1986 og vann næstum keppnina árið eftir.

Leist vel á pakkann í kvöld, mun betur en síðast. Þá var þetta frekar dauft satt best að segja. Verður fróðlegt hvaða þrjú lög bætast við að viku liðinni. Það er þó nokkuð ljóst að það verður ekki alveg eins mikið drama og glamúr yfir þessu úti nú og var fyrir ári hjá fröken Silvíu Nótt.

mbl.is Tveir Eurovisionfarar í úrslit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband