Skrípaleikur Frjálslyndra

Frá landsþingi Frjálslyndra Það er óhætt að segja að kaos og skipulagsleysi hafi einkennt landsþing Frjálslynda flokksins í gær. Margir hafa talað um skrípaleik. Lítið skipulag virðist hafa verið á staðnum og minnti fundurinn mun frekar á brunaútsölu í verslunarmiðstöð en aðalfund stjórnmálaflokks sem vill láta taka sig alvarlega. Framkvæmd kosningar um embætti varaformanns er umdeild og greinileg átök um hana eina og sér.

Talað er um viðveru formanns við kjörkassa, ringulreið, greiðslu á flokksgjöldum, talningu og birtingu talna. Sérkennilegast í þessu varaformannskjöri hlýtur að teljast að eftir að úrslit í varaformannskosningunni höfðu verið tilkynnt opinberlega á fundinum þá kom í ljós að ekki höfðu öll atkvæði í kosningunni verið talin. Úrslitin sem eru t.d. í bloggfærslu hér neðar á síðunni sem opinber úrslit voru það ekki, því enn átti eftir að telja atkvæði. Það eitt og sér segir mikið um framkvæmd kosningarinnar, sem hefur verið mjög bogin og vægast sagt sérkennileg að mörgu leyti.

Guðjón Arnar hjálpar fólki að kjósa Finnst reyndar eitt atriði framkvæmdar kosningarinnar með ólíkindum - alltsvo að formaður flokksins standi við atkvæðakassann og hjálpi fólki við að setja niður í kassann. Sæi í anda fréttaumfjöllun af því ef Geir Hilmar Haarde stæði við kassana í Laugardalshöll og hjálpaði til við að setja atkvæði niður. Alveg út í hött bara. Svo það að skilja eftir atkvæði og þau teljist gild áður en raunveruleg kosning hefst. Mjög kostulegt alltsaman.

Þetta ber allt einkenni undarlegs ástands í flokki. Reyndir fjölmiðlamenn hafa eflaust fallið í stafi við að sjá framkvæmdina. Margrét Sverrisdóttir ætlar að kæra framkvæmd kosningarinnar - hún segir liðsmenn Nýs afls hafa keypt atkvæði inn á landsþingið fyrir hundruð þúsunda króna. Margrét ætlar að hitta nánustu stuðningsmenn sína á fundi á morgun og þá mun staða hennar verða metin. Ekki virðast margir kostir fyrir hana aðrir en að yfirgefa flokkinn, sem faðir hennar stofnaði fyrir áratug.

Það er enginn vafi að Frjálslyndi flokkurinn sé klofinn, Nýtt afl, sem gárungar kalla Hvítt afl, virðast hafa tekið flokkinn yfir. Margrét hefur sagt að á nafnalistum sem stuðningsmenn Magnúsar Þórs hafi dreift áður en kjör í helstu embætti fór fram hafi helmingur nafnanna verið fólk úr Nýju afli. Sem eitt dæmi um þessi vinnubrögð hefur Margrét nefnt að kona sem verið hafi í flokknum í viku hafi verið kjörin ritari flokksins á meðan að kona sem lengi hafi starfað fyrir Frjálslynda flokkinn hafi verið hafnað í ritarakjörinu. Flokkurinn virðist margklofinn og skaddaður - vandséð hvernig geti í raun gróið um heilt.

Smalamennska, ringulreið og glundroði virðast ætla að verða eftirmæli átakaþings Frjálslynda flokksins. Það verður fróðlegt að sjá hvað tekur við. Ekki virðist fagmannlega hafa verið haldið á skipulagningu. Störf þingsins minntu illilega á öngþveiti á brunaútsölu frekar en pólitískt starf. Kostulegt með að fylgjast eiginlega í sannleika sagt. En nú velta allir vöngum yfir stöðu Margrétar og framtíð hennar í stjórnmálum.


mbl.is Kolbrún Stefánsdóttir kjörin ritari Frjálslynda flokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sjensinn Bensinn

Góður pistill hjá þér, og sammála honum. En það verður gaman að sjá hvernig fer með þennan flokk. Ég á frekar von á því að Margrét leggi niður flokkinn og þeir verði að finna sér nýtt nafn. 

Persónulega fannst mér mjög leiðinlegt að hún skuli ekki hafa verið kosin, hún  er með mikinn kjörþokka.   

Hvert ætli hún fari? 

Sjensinn Bensinn, 28.1.2007 kl. 14:05

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Addi Kitta Gau, Magnús Þór o.fl. virðast ætla að setja markið enn lægra í íslenskri lýðskrumarapólitík eftir sögulegt lágmark af hálfu framsóknarmanna í borginni í fyrra. Sorglegt er að sjá hvernig persónulegur rígur og valdatafl milli örfárra einstaklinga virðist ætla að gera algjörlega út um möguleika Frjálslynda flokksins á að festa sig í sessi sem trúverðug viðbót við gamla fjórflokkakerfið. Með svona óvönduðum vinnubrögðum er hætt við að annað verði uppi á teningnum. Það að smala fólki svona á fund og gefa öllum kosningarétt sem mæta og skrá sig á staðnum jaðrar við að vera ígildi þess að flokkurinn hafi verið lagður niður, og nýr flokkur með sama nafni stofnaður samdægurs, fyrir tilstilli örfárra einstaklinga í flokksforystunni. Það getur varla talist vera heilbrigt lýðræði og enn síður frjálslyndi!

Guðmundur Ásgeirsson, 28.1.2007 kl. 14:51

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka ykkur fyrir kommentin.

Skúli: Já, ég held að Margrét fari. Yrði ekki hissa þó að hún og Ómar fylktu liði undir merkjum Framtíðarlandsins. Altént er erfitt að sjá hvernig að hún geti haldið áfram eins og ekkert hafi gert í þessum flokki sem faðir hennar stofnaði.

Guðmundur: Algjörlega sammála þér. Svona smölun er með ólíkindum, enda lítil pólitík í henni.

Stefán Friðrik Stefánsson, 28.1.2007 kl. 17:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband