Háspenna í Hamborg - naumt tap fyrir Dönum

Úr leiknum við Dani Vá.... þvílík háspenna í Hamborg í kvöld. Það þarf að fara mjööög langt aftur til að finna aðra eins spennu í nokkrum handboltaleik okkar. Tap fyrir Dönum, vissulega eldsárt tap..... en við vorum sorglega nærri því að komast í undanúrslitin. Þetta var næfurþunnt og ómögulegt að segja um lengi vel á hvorn veginn færi. Var viss um þegar að okkur tókst að ná framlengingu að við næðum tökum á leiknum. Því miður varð ekki svo.

Þó að við getum svosem varla verið tilfinnanlega sár með að vera í topp átta hópi á svona öflugu móti er varla annað hægt en að vera fullur svekkelsis eftir leikinn, svekkelsið nagar okkur öll inn að beini. Þetta var svo tæpt allt að sorglegt má teljast. Annars getum við verið grobbin ofan í táberg af þessu liði. Það kom okkur lengra en væntingar margra stóðu til. Okkur tókst að sigra Frakkana og eiga ótrúlegar stundir. Það að landa sæti í fjórðungsúrslitum var meira en margir töldu gerlegt.

Við getum verið stolt af liðinu, andanum í því og öllum þáttum sem prýða það. Það tókst líka að mynda svakalega flotta stemmningu hér heima, þá mestu sem hefur vafist utan um landsliðið okkar í árafjöld, sennilega þá mestu síðan að Þorbjörn Jensson var landsliðsþjálfari og tókst að byggja liðið upp til ágæts árangurs á mótinu í Egyptalandi árið 1997 eftir fallið mikla á HM hérna heima. Botntilfinning okkar hefur aldrei farið neðar en þá enda vorum við rasskelltir hér á heimavelli í Laugardalshöll. Eins sorglegt og það var getum við ekki lýst stöðunni núna öðruvísi en sem vissum sigri þó það sé helv..... vont að hafa ekki náð meiru.

En svona er þetta... sigur í gær... tap í dag. Það eru ekki alltaf jólin, eins og sagt er. En nú eigum við að reyna að gera okkar besta í því sem eftir er og reyna að landa því allra besta sem eftir er í stöðunni. Vonandi tekst það. Þetta er ekki alvont vissulega... en sorglega nærri því. En fyrst og fremst eru grunnskilaboð mótsins þau að liðið komst þó þetta og við getum verið stolt af því. Við erum með gott lið og fínan efnivið í höndunum. Nú er bara að byggja á því.

En auðvitað var þetta sorglega tæpt og vonbrigðin voru gígantísk í leikslok að ná ekki þeirri agnarögn sem vantaði upp á sigur. En svona er þetta. En ég segi bara eins og Spaugstofan í denn.... það gengur bara betur næst! :)

mbl.is Draumurinn úti í Hamborg - Danir sigruðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við hebbðum unnið Pólverjana en tapað á móti Þjóðverjum í úrslitaleiknum og þurfum nú ekki að fægja silfrið um ókomin ár. Fátt er svo með öllu illt. Kær kveðja, Pollýanna.

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 04:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband